05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1996 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

193. mál, eignaraðild útvegsmanna að fiskiskipaflotanum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil ekki beint blanda mér inn í þessar umr., en vegna þeirra aths., sem komu fram hjá fyrirspyrjanda, vil ég aðeins upplýsa hann um, að það sérstaka kerfi hefur gilt í sjávarútvegi, að hann hefur byggt upp sinn stofnlánasjóð í rúm 60 ár, — ég hugsa, að ég fari rétt með, — yfir 95%, og geri aðrir betur, með kvöð á sjálfan sig. Það munu vera fáein hundruð millj. kr., sem ríkissjóður hefur lagt fram, og þó að sú tala hafi hækkað nú s.l. tvö eða þrjú skipti, er þetta fyrst og fremst myndað af eigin kvöð og hefðu aðrir sjóðir mátt hafa þennan sjóð til fyrirmyndar eða þá, sem standa að baki honum.

Í öðru lagi vil ég upplýsa hann um það, að blessunarlega eru til útvegsmenn, sem standa í skilum með sín lán og þess vegna lækka skuldirnar. Hins vegar er verðbólga á Íslandi, eins og hv. fyrirspyrjandi hefur oft fjallað um úr þessum ræðustóli, og þá er eðlilegt, að þeir, sem eiga sinar fleytur, hækki vátryggingarverð. En þeir eru þó ekki sjálfráðir um það, heldur er það sérstök stjórn, sem þá tekur af eigandanum völdin, og metur skipin, og langflest skipin í dag eru metin langt undir sannvirði, þannig ef þau sykkju í dag, mundi enginn eða mjög fáir geta endurnýjað með sams konar skipakosti vegna verðbreytinga, svo að ekki er raunhæft að vera með vangaveltur um mismun á þessum tölum, hvað þær gefa til kynna. Held ég, að það byggist á því, að fyrirspyrjandi hafi ekki gert sér grein fyrir á hvaða hátt þær koma fram.

Að öðru leyti gæti verið fróðlegt að spyrja um skiptingu bátaflotans innan 12 tonna og þar fram eftir götunum og svo 12–100 tonna, hvað hann kostar, hvað hann hefur gefið af sér og hverju hann hefur skilað, vegna þess að okkur virðist sumum meira um vert að veita atvinnu við að smíða ákveðna stærð báta en að þeir hafi nokkurn möguleika til að standa undir sér né að tryggja sjómönnum sómasamlegt öryggi og kjör.