05.02.1974
Sameinað þing: 50. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2001 í B-deild Alþingistíðinda. (1807)

404. mál, rækjuveiðar og rækjuvinnsla á Húnaflóasvæðinu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er í fyrsta lagi: „Hvað hefur sjútvrn. gert til þess að skipuleggja rækjuveiðar og rækjuvinnslu á Húnaflóasvæðinu með tilliti til þess, sem rækjustofninn er talinn þola, og til byggðasjónarmiða?“ Ég hef fengið þannig orðað svar úr sjútvrn, við þessari spurningu:

Rn. skipuleggur rækjuveiðar á Húnaflóa, eins og annars staðar, í fyrsta lagi með því að setja ákveðin skilyrði fyrir því, að menn geti fengið rækjuveiðileyfi, og í öðru lagi með því að setja í leyfisbréfin ákveðin skilyrði fyrir tilhögun veiðanna sjálfra. Hafa reglur þær, sem rn. þannig setur, einnig bein eða óbein áhrif á sjálfa rækjuvinnsluna. Reglur þær, sem nú eru í gildi á Húnaflóa, hafa verið settar í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnunina, Fiskifélag Íslands og fulltrúa veiða og vinnslu á þessu svæði, þannig að segja má, að rn. hafi sérstaklega tekið tillit til þess, sem rækjustofninn er talinn þola, og til byggðasjónarmiða, þegar núgildandi reglur voru settar. Tillit til byggðasjónarmiða kemur m.a. fram í því, að Húnaflóinn er álitinn sérstakt veiðisvæði, þannig að aðrir en þeir, sem búsettir eru við Húnaflóann, fá ekki veiðileyfi þar. Til þess að girða fyrir, að hægt sé að komast fram hjá þessari reglu, hefur rn. sett eftirfarandi skilyrði fyrir veitingu rækjuveiðileyfa á þessu svæði: a) Leyfin eru bundin við báta, sem skrásettir eru við Húnaflóann. b) Skipstjóri og eigandi eða eigendur báts verða að hafa verið búsettir á svæðinu í a.m.k. eitt ár. c) Ef margir eru eigendur báts, eða ef t.d. hlutafélag er eigandi, er við það miðað, að a.m.k. 50% eignarhluta séu í höndum manna búsettra á svæðinu.

Tillitið til þess, hve mikið rækjustofninn er talinn þola, kemur fram í því, að ákveðið hefur verið hámarksaflamagn, sem leyft verður að taka úr flóanum á yfirstandandi rækjuvertíð. Hefur þar verið farið eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar. Ýmis skilyrði leyfisbréfa um veiðarnar sjálfar lúta einnig að verndun rækjustofnsins. Má þar nefna ákvæði um lágmarksstærð þeirrar rækju, sem veiða má, og ákvæði um stærð rækjuvörpu.

Síðari spurningin er á þessa leið: „Hvað getur sjútvrn. gert til þess að koma í veg fyrir, að fleiri rækjuvinnslustöðvar en nú er, verði starfræktar á svæðinu, og hyggst rn. beita sér gegn slíku?“ Svar við þessum lið er á þessa lund:

Rækjuveiðileyfi, sem út eru gefin fyrir Húnaflóa, miðast við, að allur rækjuafli viðkomandi báts sé unninn til manneldis í viðurkenndri rækjuvinnslustöð á leyfissvæðinu. Með viðurkenndri rækjuvinnslustöð er átt við rækjuvinnslu sem fullnægir öllum skilyrðum Fiskmats ríkisins varðandi búnað og hreinlæti og hefur viðurkenningu þess til starfsemi sinnar. Rn. telur sig ekki hafa vald til þess að banna mönnum að setja á stofn rækjuvinnslustöðvar, — og þetta vil ég undirstrika, því að um þetta hefur verið rætt allmikið í rn. — rn. telur sig ekki hafa vald til þess að banna mönnum að setja á stofn rækjuvinnslustöðvar, en hins vegar hefur rn. tjáð Framkvæmdastofnun ríkisins þá skoðun, að nægilega margar stöðvar séu nú fyrir hendi á þessu svæði, og hefur rn. þannig mælt gegn því, að lánafyrirgreiðsla verði veitt að svo stöddu til stofnlána slíkra fyrirtækja.

Þetta eru þau svör, sem ég hef fengið við þessu hjá þeim mönnum úr rn., sem með framkvæmd þessara mála hafa aðallega haft að gera. Ég vildi aðeins bæta því við þetta, að enn ríkir auðvitað talsverð óvissa um stærð rækjustofnsins í Húnaflóa. Hefur verið lagt mjög að fiskifræðingum að kanna þennan stofn betur en gert hefur verið, og er það nú í undirbúningi. Það er sem sagt verið að kanna það, hvort tiltækilegt sé að leyfa þarna meiri veiðar en nú er, en á það er sótt mjög mikið einnig af heimamönnum.

Það hefur auðvitað verið allmikið á þessu svæði eins og öðrum, að ýmsir utanaðkomandi aðilar reyna að koma sér inn á svæðið, með hjálp heimamanna í mörgum tilfellum, og eru menn þá að flytja heimilisföng sín, án þess að um raunverulegan flutning sé að ræða. Hefur allajafna verið komið í veg fyrir það, að leyfi væri veitt til slíkra aðila.

Vald rn. til þess að miðla mjög takmarkaðri veiði milli aðila er takmarkað. Ef til þess kemur, að það verður að draga verulega úr þeirri veiðigetu, sem fyrir er á heimasvæðinu, er ekki um annað að ræða en að takmarka þann fjölda báta, sem fær veiðileyfi, og miðla því síðan á milli bátanna á svæðinu eða þá, eins og gert hefur verið í nokkrum tilfellum, að takmarka veiðimagn það, sem leyft er að veiða í hverri viku á hvern bát.

Þetta eru sem sagt aðalreglurnar, sem í gildi eru, og má segja, að í aðalatriðum sé farið með framkvæmd þessara mála eftir því, sem ráðleggingar liggja fyrir frá fiskifræðingum Hafrannsóknastofnunarinnar og frá þeim, sem með þessi mál hafa lengi haft að gera hjá Fiskifélagi Íslands.