05.02.1974
Sameinað þing: 51. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2011 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

164. mál, framkvæmd Inn-Djúpsáætlunar

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs undir ræðu hv. 1. flm. þessarar till. hér fyrir nokkrum dögum. Ég sá ástæðu til þess að leggja aukna áherslu á það, hvað hér er um merkilegt mál að ræða, og lýsa fylgi við það, að þessi till. næði fram að ganga.

Sú áætlun, sem hér um ræðir, Inn-Djúpsáætlun, er fyrsta áætlun sinnar tegundar, sem gerð er í sveit á Íslandi, og þetta starf hefur verið unnið, eins og fram kom í ræðu hv. 1. flm. till., 1. þm. Vestf. af Landnámi ríkisins og fulltrúum sveitarstjórna á því svæði, sem um ræðir. Það starf, sem hér er um að ræða, er af hálfu Landnáms ríkisins byggt á því, að með lagabreytingunni, sem gerð var 1971, eru Landnámi ríkisins fengin í hendur ný og aukin verkefni, og einn þýðingarmesti þáttur þeirra verkefna er skipulagsstarf í sveitum landsins. Enn fremur er eðlilegt, að slíku skipulagsstarfi fylgi áætlunarstarf með líkum hætti og hér hefur verið unnið. Í lögum þessum, sem samþ. voru 5. apríl 1971, er t.d. í 28. gr., þar sem talin eru upp verkefni Landnáms ríkisins, talið í a-lið skipulagning byggðar í sveitum landsins. M.a. er vikið að þessum þætti í viðfangsefnum landnámsins í 29. gr., 45. og 46. gr. Hér er sannarlega um viðamikið verkefni að ræða, og þarf engan að undra, þótt ekki sé í einni svipan unnt að sinna því um landið allt.

Eins og fram hefur komið, er þetta einungis fyrsti þátturinn í því mikla starfi, sem fyrir höndum er í þessu efni. Ég tel, að það sé þörf á því að taka upp, eftir því sem mannafli og fjármagn leyfir, það starf um allar byggðir Íslands að gera áætlanir með líkum hætti og hér hefur verið staðið að og vinna að því að skipuleggja hverja byggð með tilliti til heildarhagsmuna hennar, eftir því sem við verður komið og í samræmi við þann anda, sem l. frá 1971 kveða á um.

Ég vildi í meginatriðum vekja athygli á, hvað hér er um þýðingarmikinn þátt að ræða og að það er engin tilviljun, að Landnám ríkisins hefur haft forustu um þennan þátt, vegna þess að þetta verkefni er falið því í gildandi lögum.

Um till. sjálfa að öðru leyti vil ég segja það, að mér finnst eðlilegt, eins og hún kveður á um, að Landnámi ríkisins sé falið að hafa yfirumsjón með framkvæmd þeirrar áætlunar, sem samin hefur verið. Það er augljóst mál, að ekki er unnt að hrinda þessari áætlun í framkvæmd, nema til þess verði aflað fjármagns svo sem þörf krefur og hún gerir ráð fyrir.

Ég ætla ekki að hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég vil einungis geta þess og leggja á það enn aukna áherslu, að fleiri byggðir landsins bíða eftir því, að sams konar áætlanir verði gerðar þar, eins og hér hefur verið að unnið. Og það er ábyggilega þörf fyrir það, að þessi stofnun Landnám ríkisins, haldi áfram þeim sessi, sem það hefur, með það fyrir augum ekki síst að sinna þessum þætti í þeim störfum, sem því eru ætluð í núgildandi lögum.

Þessar aths. og áréttingar læt ég hér fylgja m.a. með hliðsjón af því, að heyrst hafa raddir um það, að leggja beri Landnám ríkisins niður og verkefni þau, sem því eru fengin með lögum, færð í hendur annarra aðila eða sumpart, sem ekki er vitað, að þau verði kannske að engu gerð.

Ég skal ekki orðlengja þetta, en þetta taldi ég nauðsynlegt, að lægi ljóst fyrir við þessa umr., vegna þess að þessi þáttur málsins kom ekki eins skýrt fram og ætla hefði mátt í annars ágætri ræðu hv. 1. flm. þessarar till.