06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2034 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

198. mál, tryggingadómur

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vildi aðeins beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta til meðferðar, að hún athugaði sérstaklega 2. málsgr. 2, gr., þar sem segir: „Þar fyrir utan skal tryggingardómur dæma í málum, sem með lögum verða lögð undir dóminn.“ Ég fæ ekki betur séð en þetta sé hálfgerður hortittur og mætti kannske segja algerður, vegna þess að auðvitað er algerlega óþarft að taka það fram í þessum lögum, að dómurinn geti dæmt í málum ef lög ákveða það um einhver önnur mál. Þetta ákvæði hefur út af fyrir sig ekki þýðingu, því að vitaskuld kæmi það til greina í sambandi við þau einstöku lög, sem mundu ákveða, að mál heyrðu undir dóminn, að taka það til athugunar, hvort væri eðlilegt, að mál af þeirri tegund féllu undir dóminn eða ekki. En samt sem áður getur, ef þetta stendur svona óbreytt, verið gefið undir fótinn með það, að mér finnst óeðlilega mikið, að það megi takmarkalítið kannske fara að leggja mál undir þennan dóm. Það er auðvitað ekki það, sem vakir fyrir með þessu ákvæði, heldur auðvitað mál vissrar tegundar, þ.e.a.s. tryggingalegs eðlis, en sjálfsagt ekki, að það megi fara að leggja mál almennt og hvers eðlis sem þau eru undir þennan dóm.

Þetta vildi ég aðeins benda á, að mér finnst eðlilegt, að n., sem fær frv. til athugunar, íhugi, hvort það er nokkur þörf og nokkur bót að því að hafa þetta ákvæði í þessum lögum. Ef hv. Alþ. telur síðar heppilegt eð leggja undir dóminn einhver fleiri mál eða mál annarrar tegundar en þau, sem beint er gert ráð fyrir í fyrri málsgr. 2. gr., þá kemur það til skoðunar. Þetta ákvæði eitt út af fyrir sig segir ekki neitt, nefna það getur, eins og ég sagði, gefið undir fótinn, að vald þessa dómstóls eigi að vera meira en ég t.d. væri reiðubúinn að skrifa undir á þessu augnabliki.