06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

198. mál, tryggingadómur

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið ákveðið í tíð fyrrv. ríkisstj. að setja þennan dómstól á laggirnar, en þó þannig, að hann tæki ekki til starfa, nema sett yrðu síðar um það sérstök lög á Alþ. Ákvæði um þetta mun hafa verið sett í lög um breyt. á l. um almannatryggingar, sem tóku gildi 20. apríl 1971.

Nú mun ég ekki á þessu stigi ræða efnislega um þetta frv. Ég verð að játa, að án frekari athugunar brestur mig þekkingu til að dæma um það, hvort þörf sé á þessum dómstóli eða ekki. En það er í tilefni af 26. gr. frv., sem ég vil beina fsp. til hæstv. heilbrrh.

Í 26. gr. frv, segir á þessa leið, með leyfi forseta: „Kostnaður vegna tryggingadóms greiðist úr ríkissjóði.“ Ég vildi fá upplýst, ef það væri hægt, hvort það hefði farið fram nokkur athugun á því, hvað slíkur dómstóll mundi kosta. Ég álít, að það sé nauðsynlegt, áður en Alþingi tekur yfirleitt afstöðu til mála, hvort heldur eru stjórnarfrv. eða frv. einstakra þm., að þá liggi fyrir nokkuð ljós áætlun um það, hver kostnaður muni af þeim hljótast fyrir ríkið eða sveitarfélög, ef þeim er ætlað að bera viðkomandi kostnað. Ég tel, að það eigi að vera sjálfsögð regla í framtíðinni, að stjórnarfrv. verði ekki lögð fram, nema þeim fylgi jafnframt áætlun um það, hver sé líklegur kostnaður fyrir ríkið, sem þau muni hafa í för með sér. Þess vegna vildi ég beina þeirri fsp. til hæstv. heilbrrh., hvort fyrir liggi nokkur áætlun um það, að líklegt sé, að mikill kostnaður muni hljótast af þessum dómstóli, ef hann verði stofnaður, eða þá t.d., hvort til séu upplýsingar um það, hvað slíkir dómstólar hafi kostnað í þeim löndum, þar sem þeir hafi verið starfræktir. Ég sé í grg. frv., að slíkir dómstólar muni vera staðsettir á Norðurlöndum, kannske þeim öllum, það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvað slíkir dómstólar hafa kostað þar. Af því mætti kannske álykta, hver mundi vera kostnaður af slíkum dómstólum hér.

Að lokum mætti svo benda á það, að nú mun fara fram endurskoðun á lögum um almenna meðferð einkamála. Mér finnst, að það komi mjög til athugunar, hvort þetta mál ætti ekki að bíða, þangað til að þeirri rannsókn væri lokið, og afgreiða þessi mál í samhengi, ef það væri talið nauðsynlegt að setja þennan dómstól á laggirnar.