06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (1831)

198. mál, tryggingadómur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til að stofna nýjan dómstól, tryggingadóm. Að sjálfsögðu leiðir af því nokkurn kostnað. Það liggur ekki fyrir í grg. eða upplýsingum frá hæstv, ráðh., hver sá kostnaður sé áætlaður, en töluverður hlýtur hann að verða.

Spurningin er þá, hverjar ástæður kunna að liggja til þess eða hvort nokkur nauðsyn sé að stofna nýjan dómstól.

Það er í fyrsta lagi vitnað í það í grg., að slíkir dómstólar séu til á Norðurlöndum. Þau rök finnst mér ekki fullnægjandi. Aðrar þjóðir hafa ýmsa sérdómstóla, sem við höfum ekki. Þær hafa stjórngæsludómstóla, stjórnarskrárdómstóla og ýmsa aðra sérdóma, sem ekki hefur þótt ástæða til að stofna hér á Íslandi.

Varðandi verkefni þessa dómstóls, þá er svo ákveðið í 2. gr., að hann skuli dæma í málum, sem risa vegna úrskurðar tryggingaráðs Tryggingastofnunar ríkisins varðandi bætur og vegna bóta einstaklinga samkv. l. um almannatryggingar. Í ljós kemur, að í undirbúningsnefndinni hefur verið mikill ágreiningur um, hvaða mál skyldu undir dóminn falla. Meiri hluti n. segir á bls. 7 í grg., að það sé allsendis ófullnægjandi að binda verkefni tryggingadóms eingöngu við úrskurði tryggingaráðs, sá dómur hefði mjög takmörkuðu hlutverki að gegna. M.ö.o. það er álit meiri hluta nm., að það verkefni, sem dómnum er ætlað samkv. 2. gr. frv., sé mjög takmarkað. Manni verður því að spyrja: Er ástæða til að fara að stofna nýjan dómstól, sem svo takmörkuðu hlutverki hefur að gegna? Nú er þessum málum svo háttað, að hinir almennu héraðsdómar dæma í þessum málum, og þeir hafa heimild til þess og jafnvel skyldu að krefja sérfróða menn til, tryggingafróða, læknisfróða, ef á þarf að halda. Ég fæ ekki séð, að réttaröryggi í landinu mundi vera betur borgið með þessari nýju skipan. Það er ekki gert ráð fyrir, að hér sé fækkað dómstigum. Nú er það héraðsdómur, sem dæmir, og hægt að áfrýja málunum til hæstaréttar. Eftir þessu frv. á tryggingadómum einnig að verða undirdómstóll og dómum hans hægt að áfrýja til hæstaréttar.

Ég vil því aðeins á þessu stigi málsins segja það, að ég dreg mjög í efa, að nokkur ástæða sé til að stofna þann dómstól, sem hér er lagt til, að stofnaður verði.