06.02.1974
Neðri deild: 58. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2049 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta mál, sem hér er til umr., en ég vil þó með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til málsins.

Eins og fram kemur í nál. fjh: og viðskn. á þskj. 351, er n. ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Ég held raunar, að enginn nm. geri það með glöðu geði að skrifa undir eða mæla með þessu máli út úr n. Þó er ekki annað séð en meiri hl. sé innan n. um að mæla með samþykkt frv., eins og það liggur fyrir. Og ég verð að segja það, að hv. 5. þm. Austf., formaður og frsm. n., er að mínu áliti snillingur í því að mæla og tala með málum, sem hann, a.m.k. að minni hyggju, er í raun og veru á móti, það má hann eiga.

Eins og fram kemur í nál. er ég annar þeirra nm., sem eru andvígir frv., eins og það liggur fyrir, og andstaða mín gegn því er vegna þess, að aftan í frv. var hnýtt í Ed. ákvæði um það, að ríkisstj. sé heimilt að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur. Skip þetta, sem hér um ræðir, er norskt, um 680 rúmlestir að stærð og getur flutt um 40 fólksbíla og auk þess 400 farþega á sama tíma. Kaupverð mun vera um 116 millj. kr., en auk þess þarf allverulegar breytingar að gera á skipinu, og því haldið fram, að það eigi nú einmitt í þessum mánuði að fara í svokallaða 8 ára flokkunarviðgerð, sem a.m.k. ég er ekki í neinum vafa um, að muni kosta allháar fjárhæðir. Samkv. umsögn Siglingamálastofnunar ríkisins mun þetta skip ekki fá meðmæli þeirrar stofnunar til innflutnings til landsins, nema því aðeins að á því séu gerðar allverulegar breytingar, þ. á m. þessi 8 ára flokkunarviðgerð.

Nú skal ég taka það fram, að ég tel ekkert athugavert við það, að sjóflutningar eigi sér stað milli Akraness og Reykjavíkur, og tel það í raun og veru mjög eðlilegt og sjálfsagt. En að mínu viti hlýtur að vakna sú spurning, hvort þörf sé á skipi sem þessu til þessarar þjónustu, þegar fyrir hendi er mjög svo greiðfær leið á landi allan ársins hring og allar líkur benda til, að á næstu árum verði hundruð millj. varið til að betrumbæta vegakerfið á þessari leið. Flutningaskipið Akraborg hefur haldið uppi ferðum á þessari leið um árabil. Akraborg er miklum mun minna skip en það, sem nú er fyrirhugað að kaupa og raunar búið að kaupa, en þó hefur þurft að styrkja rekstur Akraborgar með nokkurra millj. kr. framlagi úr ríkissjóði árlega. Það þarf því vart getum að því að leiða, að þetta nýja skip, sem ætlað er að taka við hlutverki Akraborgar, mun verða margfalt fjárfrekara í öllum rekstri, og ef að líkum lætur mun styrkur úr ríkissjóði þurfa að stórhækka, sé miðað við fyrri reynslu. Þá er þess að geta, að með tilkomu þessa skips mun þurfa að setja í hafnarframkvæmdir á Akranesi og í Reykjavík nokkra tugi millj., til þess að skipið þjóni sínum tilgangi, og áætlað er, að þar muni vart verða um minni fjárhæðir að ræða en 30–40 millj. á báðum stöðunum.

Ég held, að burtséð frá kaupum skipsins, sem búið er að gera, áður en Alþ. fjallar um málið, verði hv. alþm. að spyrja sig þeirrar spurningar, hvort það sé í raun og veru réttlætanlegt að setja tugi millj. í hafnarframkvæmdir á þessum tveim stöðum til þess eins að þjóna bílaflutningum milli þessara staða, á sama tíma og ekki er hægt að sjá fyrir á sómasamlegan hátt framkvæmdum í fiskihöfnum landsins. Ég fyrir mitt leyti svara því afdráttarlaust neitandi, að slíkt sé réttlætanlegt. Auk þess, ef þetta væri gert, væri það algert nýmæli, ef farið yrði að veita fé úr ríkissjóði til hafnarframkvæmda hér í Reykjavíkurhöfn. Ég held því fram, að þessi böggull einn, sem fylgir kaupum skipsins og menn verða að taka tillit til, sé næg ástæða fyrir því, eins og málum er báttað, að þetta mál verði skoðað betur og athugað, hvort ekki sé fyrir hendi hagkvæmari lausn þessa máls.

En það er margt fleira að mínu áliti, sem mælir á móti því, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir kaupum þessa skips. Ég tel, að skip þetta sé um of stórt til þess hlutverks, sem því er ætlað og bæði óhentugt og dýrt í rekstri. Skipið mun hafa verið byggt til innfjarðasiglinga í Noregi, enda notað sem slíkt, og þarf því talsverðar breytingar á því að gera eigi það að koma að gagni á hinni nýju leið, þ. á m., eins og áður er að vikið, 8 ára flokkunarviðgerð, sem kosta mun talsverðar fjárhæðir. Einnig hafa komið fram gallar í blokkum beggja aðalvéla þessa skips, og er það einnig álit Siglingamálastofnunar ríkisins, að mjög vel þurfi að kanna, hvort líkur séu á, að þeir hlutir verði í lagi í framtíðinni, og kannske ekki síst, að þetta umrædda skip mun hafa verið tekið úr flokkun árið 1970 og mun nú vera undir sérstöku eftirliti.

Allt það, sem hér hefur verið nefnt, verkar neikvætt gagnvart kaupum, og er ég því þess vegna andvígur, að ríkisábyrgð verði veitt vegna þeirra.

Eitt á ég þó eftir að nefna, sem ég tel nauðsynlegt, að komi fram í þessu sambandi, og það er, hvort réttlætanlegt sé af hálfu stjórnvalda að láta fyrirgreiðslu sem þessa hafa forgang fram yfir þá heilu landsfjórðunga, sem eru gersamlega sambandslausir, svo að vikum skiptir, ekki bara á sjó, heldur og á landi og í lofti. Ég vil fyrir mitt leyti benda hv. alþm. á þá staðreynd, að t.d. Vestfirðir og Austfirðir eru svo að vikum skiptir stundum gersamlega sambandslausir varðandi alla aðflutninga á nauðsynjum. Það líða allt upp í þrjár vikur t.d. milli ferða hjá Skipaútgerð ríkisins til Vestfjarða. Heil vika hefur liðið, án þess að flogið hafi verið til Vestfjarða héðan frá Reykjavík. Á sumum stöðum innanhéraðs á Vestfjörðum er gersamlega samgöngulaust, svo að vikum skiptir. Á sama tíma og slíkt ófremdarástand er ríkjandi í samgöngumálum heilla landsfjórðunga, tel ég, að vart sé verjandi að láta úr ríkissjóði tugi millj, til að standa straum af bílaferju milli Akraness og Reykjavíkur. Þó að ég telji, að Akurnesingar séu alls góðs maklegir, eru þeir að þessu leyti miklum mun betur settir en þeir, sem áður hefur verið til vitnað, og verr settu staðirnir verða að mínu áliti að njóta forgangs í þessum efnum.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að hvetja hæstv. ríkisstj. til að vinda nú bráðan bug að því að efla Skipaútgerð ríkisins með fjölgun skipa til strandferða og breyttu fyrirkomulagi á ferðum, svo að fólk þurfi ekki öllu lengur að búa við það ófremdarástand í samgöngumálum, sem verið hefur og er fyrir löngu orðið með öllu óþolandi.

Að því er við kemur Vestmannaeyjaskipinu, vil ég fyrir mitt leyti taka það fram, að ég lít það mál þó öllu mildari augum en ferjuskip milli Akraness og Reykjavíkur, þó að hins vegar sé þar sama uppi á teningnum að því er varðar ferðir sjóleiðis milli Reykjavíkur eða Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og milli t.d. Vestfjarða og Reykjavíkur. Á árinu 1972 voru samkv. yfirliti forstjóra Skipaútgerðar ríkisins farnar til Vestmannaeyja 260 ferðir á vegum Skipaútgerðarinnar, þar af 108 til Þorlákshafnar, en á sama tíma eru ferðir til Vestfjarða og Austfjarða komnar niður í 50–55. Allt ber þetta að sama brunni, þó ég telji miklu nær, eins og ég sagði áðan, að Vestmanneyingar eigi rétt á, að stuðlað verði að því, að þeir geti eignast skip, sem geti leyst af hendi þetta hlutverk til flutninga farþega og bíla milli lands og eyja.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta. Ég er sem sagt andvígur því, að ríkisábyrgð verði veitt til kaupa á þessu tiltekna ferjuskipi milli Akraness og Reykjavíkur, og mun greiða atkv. gegn því. En a.m.k. er ég miklu nær því að ljá stuðning minn við mál þeirra Vestmanneyinga.