07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. alþm. hreyfði hér miklum alvörumálum, og ég ætla nú ekki að fara að ræða um þau í sama tón og hann.

Það er auðvitað öllum áhyggjuefni, að kjarasamningar hafa ekki tekist, bæði þeir almennu kjarasamningar og eins hinir sérstöku sjómannasamningar. Að þessum kjarasamningum hefur þó verið unnið og er unnið, unnið sleitulaust. Ríkisstj. hefur auðvitað ekki haft tök á því og er ekki heldur til þess ætlast, að hún hafi nema takmörkuð afskipti af þessum deilum. Það, sem hún getur gert, er auðvitað að hafa samband við deiluaðila og ræða við þá. Það hefur hún gert. Það hefur af ríkisstj. hálfu verið rætt við fulltrúa Alþýðusambandsins, og það er rétt, sem hv. þm. sagði, að við þá hefur verið hreyft ýmsum breyt. á skattalögum og settar fram hugmyndir í því efni, sem virtust ganga í þá átt, sem álíta mátti, að þeir hefðu hug á samkv. þeirra samþykktum. Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þm., að þessum hugmyndum hafi verið hafnað af Alþýðusambandsforsvarsmönnum. Þær hafa verið teknar til athugunar og eru í athugun, og hefur verið sett nefnd Alþýðusambandsins og fulltrúa frá ríkisstj. til að athuga þessi mál.

Í öðru lagi hefur verið haft og ég hef sjálfur haft samband við atvinnurekendur. Og þó að þessi mál hafi gengið hægt, samningarnir á milli vinnuveitenda og Alþýðusambandsins, hefur þó verið nokkur hreyfing á þeim frá því, sem lengi vel leit út fyrir. Síðast í gær, hygg ég, að atvinnurekendur hafi gert tilboð, og mun verða fundur aftur í dag eða á morgun, og þá verður auðvitað athugað, hvort þessir aðilar geti ekki nálgast hvorir aðra.

Ríkisstj. hefur skipað sáttanefnd ríkissáttasemjara til aðstoðar. Hún hefur enn fremur skipað sérstakan aðstoðarsáttasemjara, þar eð svo stendur á, að varasáttasemjari er erlendis í veikindafríi, og ég geri ráð fyrir því, að hann muni alveg sérstaklega hafa skipti af sjómannasamningunum, og vona, að það verði tekin lota i þeim nú um þessa helgi. Þó að þar beri að vísu sitthvað á milli, held ég þó, að það sé ekki meira en svo, að ef laglega er að staðið, þá vanti þar kannske ekki nema herslumuninn, til þess að þetta geti náðst saman. Og ég veit, að hv. alþm. allir óska þess af heilum hug, að það megi takast.

Það ber að vísu enn verulega á milli í hinum almennu kjarasamningum. Þær kröfur, sem Alþýðusambandið setti fram, hafa þó verið lækkaðar, og má gera ráð fyrir því eftir þeim gangi, sem venjulega er á þessum málum, að aðilar muni smám saman nálgast hvor annan.

Það má til sanns vegar færa, að ríkisstj. hafi fyrir sitt leyti viljað móta ákveðna stefnu í þessum kjarasamningamálum að þessu sinni, og sú stefna var skýr og var í því fólgin, að þeir lægst launuðu fengju tiltölulega meiri kjarabót en aðrir. Þeirri stefnu var fylgt og á henni byggt í kjarasamningunum við opinbera starfsmenn. Hins vegar skildi ég alls ekki, hvað hv. þm. var að tala um, þegar hann var að ræða um það í sambandi við þá kjarasamninga, að það hefði verið samið um eitthvað skerta vísitölu. Það held ég að sé alveg út í bláinn. Hins vegar var samið um sömu krónutöluhækkun á laun þeirra, sem hærra eru launaðir, þegar komið er upp í ákveðinn launaflokk. Það gefur auga leið, að það er æskilegt, að hægt væri að halda sig í þeim almennu kjarasamningum nokkuð við þá línu, sem lögð var í samningunum við opinbera starfsmenn, því að vitaskuld væri ekki skemmtilegt, ef það væri hægt að segja, að þeir, sem þó sömdu þannig fyrst og að mínum dómi gengu inn á skynsamlega leið í þessu efni, yrðu seinna að horfa á það, að aðrir hefðu farið fram úr þeim.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um álsamningana, þá er þess að geta, að ég held, að það sé staðreynd, að taxtar þar og samningar hafi verið alltaf frá fyrstu tíð mun hærri en annars staðar. Það er að sjálfsögðu hægt að taka þessi mál til umr. eftir helgina, og e.t.v. liggja þau þá eitthvað skýrar fyrir, og mætti gefa nánari skýringu á þeim. Vonandi er, að það geti miðað mjög verulega í áttina til sátta í þessum málum einmitt nú yfir helgina, því að það er mjög farið að nálgast eindaga í þessum efnum.