07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég get verið sammála hæstv. forsrh. um, að það væri æskilegast, að samningar milli launþega og vinnuveitenda ættu sér stað þeirra á milli og hið opinbera, ríkisvaldið, þyrfti að láta sem minnst til sin taka. Hins vegar er það staðreynd, að við samningana 1971 greip núv. hæstv. ríkisstj. fram fyrir hendur launþegasamtakanna og vinnuveitenda með Iagasetningu, og raunar eru önnur dæmi þess líka frá tíð viðreisnarstjórnarinnar, að ríkisstj. á hverjum tíma hefur talið sér skylt að greiða fyrir samningum. Það er af hinu jákvæða. Hins vegar tel ég, að afskipti hæstv. ríkisstj. af samningunum 1971 hafi verið neikvæð miðað við árangur þeirra í heild.

Þegar á þetta er litið, verður að minnast þess, að ein af helstu kröfum launþegasamtakanna í þessum samningum var um lækkun beinna skatta og aðgerðir í húsnæðismálum. Og það kom skýrt fram af hálfu launþegasamtakanna, að þau mundu meta aðgerðir í skattamálum til jafns við kauphækkanir. Eins og fram kom hjá hv. 10. þm. Reykv., lét ríkisstj. í ljós, að hún mundi vilja athuga lækkun beinna skatta, og hún mun hafa komið fram með einhverjar till. þar að lútandi nokkru fyrir jól í vetur, en síðan ekki söguna meir. Hún hefur ekkert unnið frekar að tilt. í skattamálum í samningum eða viðræðum við launþegasamtökin eða aðila vinnumarkaðarins fyrr en núna, daginn eftir að verkfall er boðað. Nú er komið að eindaga, eins og hæstv. forsrh. sagði, og 31/2 mánuður hafa farið til einskis vegna aðgerðaleysis hæstv. ríkisstj.

Það má álykta sem svo, að báðir aðilar vinnumarkaðarins, launþegar og vinnuveitendur, hafi haldið að sér höndum, þar til ljóst væri, hvað ríkisstj. hygðist gera í þessum tveim hinum veigamestu málum, sem gætu orðið til lausnar yfirstandandi launadeilu. Og það er mikill ábyrgðarhluti hjá ríkisstj. að gefa í skyn og veita fyrirheit um aðgerðir í málum, en láta svo sitja við orðin tóm. Aðgerðaleysið hefur einkennt ríkisstj. í þessum kjarasamningum.

Það stendur nú fyrir dyrum ákvörðun um, hvort stöðvuð verður löndun á loðnu næstu daga, vegna þess að verksmiðjurnar treysta sér ekki til að taka við meiri loðnu en unnt verður að vinna, áður en verkfall skellur á. Nú byggjum við íslendingar ekki síst á yfirstandandi ári mjög á afkomu sjávarútvegsins vegna loðnuveiðanna, en áætlað er, að loðnuafurðir muni nema um 20–25% af útflutningsverðmæti yfirstandandi árs. Það er ábyrgðarhluti, ef vegna aðgerðaleysis ríkisstj. verður verkfall á hábjargræðistíma íslensku þjóðarinnar, en sú ábyrgð hvílir á hæstv. ríkisstj., eins og málin standa nú.