07.02.1974
Sameinað þing: 52. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2079 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu gott að heyra, að hv. síðasti ræðumaður ber traust til ríkisstj. og vill láta hana skerast meira í leikinn en gert hefur verið. En ég hélt samt sem áður, að höfuðstefna hans væri sú, að þeir aðilar, sem með þessi mál fara, aðilar vinnumarkaðarins, ættu fyrst og fremst að eigast þar við og hafa frjálsar hendur um samninga. En eins og hér hefur komið fram, hefur ekki í neinu efni staðið á ríkisstj. að þessu leyti til. Og ég spyr nú hv. síðasta ræðumann: Hefði hann talið það eitthvert þjóðráð að fara að skella fram einhverjum frv. um breyt. t.d. á tekjuskatti, án þess að nokkuð væri vitað um það, hvort verkalýðsstéttin eða þeir, sem standa í þessum samningum, vildu sætta sig við þær breyt. eða ekki? Auðvitað er því aðeins vit í því og auðvitað geta slíkar breyt. því aðeins greitt fyrir samningum, að þær séu gerðar í samráði við launþegasamtökin. Það er þetta, sem hefur verið leitað eftir, og það hefur enn ekki fengist svar frá þeim, þau hafa ekki hafnað hugmyndum, en þau hafa ekki heldur játað þeim hugmyndum, sem lagðar hafa verið fyrir þau, og hefur verið sett nefnd af beggja hálfu, ríkisvaldsins og launþegasamtakanna, til að athuga þetta. Þetta held ég, að séu réttir starfshættir, og ég held, að aðrir starfshættir stefndu til hins verra og gerðu ógagn, en ekki gagn.