11.02.1974
Efri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2087 í B-deild Alþingistíðinda. (1869)

201. mál, kosningar til Alþingis

Auður Auðuns:

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er, eins og menn vita, flutt í framhaldi af þál., sem samþ. var á síðasta þingi, þar sem ríkisstj. var falið að leggja fram á þingi því, sem nú situr, frv. til l. um breyt. á kosningalögum til þess að auðvelda mönnum utankjörfundaratkvgr. Það frv. liggur nú hér fyrir.

Í umr. um þáltill. á síðasta þingi og grg., sem henni fylgdi, var rakinn nokkuð aðdragandi þessa máls, sem ég skal drepa á með nokkrum orðum.

Í maí 1970 ákvað þáv. dómsmrh., að hafin skyldi athugun á þeim atriðum í gildandi l. um kosningar til Alþingis, sem til álita kæmu við framkvæmd kosninga. Var ákveðið, að að þessari athugun skyldu standa fulltrúar frá dómsmrn., Hagstofu Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga. Í júní það ár var svo 3 fulltrúum þessara aðila, sem ég áður nefndi, falið að starfa að þessari athugun. Í jan. 1971 setti n. fram í bréfi til dómsmrn. nokkrar ábendingar varðandi framkvæmd kosninga, þ. á m. atkvgr. utan kjörstaðar og kosningarréttarskilyrði. Þá var skammt til alþingiskosninga, eins og menn vita, og var tæpast og raunar alls ekki hægt að búast við því, að rækilega endurskoðun og breytingar á kosningal. hefði verið unnt að lögfesta á því þingi, sem þá sat. Má geta þess, að í þessum ábendingum, sem ég skal reyndar ekki rekja frekar, voru a.m.k. tvær varðandi atriði, sem hefði þurft stjórnarskrárbreytingu til þess að lögfesta. Hins vegar — ég leyfi mér að víkja að því hér var upp komið vandamál, sem var brýn þörf að leysa. Þannig háttaði, að samningar um manntalsskráningu, sem Norðurlönd höfðu gert sín á milli, höfðu leitt til þess, að stór hópur, fyrst og fremst námsmanna og reyndar annarra Íslendinga, þ. á m. ýmissa, sem höfðu farið til starfa á hinum Norðurlöndunum, hafði fallið út af þjóðskrá og þar með út af kjörskrá. Voru snemma árs 1971 kvaddir til fulltrúar frá þingflokkunum til þess að ræða við n. sérstaklega um þetta vandamál, sem skapast hafði. Varð að samkomulagi, að þessir aðilar, sem þannig höfðu fallið út af þjóðskrá og alveg vafalaust flestir, ef ekki allir, gegn vilja sínum, skyldu teknir inn á kjörskrá eftir vissum reglum. Ég vil beina þeirri fsp. til hæstv. dómsmrh., hvort þetta vandamál varðandi skráninguna og þjóðskrána er enn fyrir hendi, og ef svo er, hvort þá muni vera ætlunin að leysa það með svipuðum hætti og gert var 1971.

n., sem áður var um getið, var leyst frá störfum. Ég ætla, að það hafi verið eftir að fulltrúi Sambands Ísl. sveitarfélaga óskaði að vera leystur frá störfum í n., sem ekki hafði þá verið kvödd til fundar frá því snemma á árinu 1971, og hann taldi, að hlutverki n. væri í rauninni lokið. Ætla ég, að þetta hafi verið einhvern tíma á árinu 1972, en hæstv. ráðh. veit það að sjálfsögðu betur en ég.

Í þeim ábendingum, sem komu frá n. á sínum tíma, var nokkuð fjallað um utankjörfundaratkvgr. og svo að sjálfsögðu um þetta vandamál, fólkið, sem hafði fallið út af þjóðskrá. Ég skal ekki rekja þær hugleiðingar, sem n. var með í þessu sambandi, en í janúarlok 1971 skrifaði utanrrn. dómsmrn. varðandi atkvgr. utankjörfundar erlendis og setti þar fram till. eða hugmyndir réttara sagt um, hvernig hugsanlegt væri að leysa það vandamál, sem við vitum að fyrir hendi er og hefur verið og hæstv. ráðh. drap á áðan. Í þessum hugleiðingum voru þær hugmyndir settar fram, að fyrirkomulagið gæti í stórum dráttum orðið þetta: Kjósandi, sem væri erlendis, óskaði eftir því við kjörstjórn með bréfi eða símskeyti, að hún sendi honum kjörgögn. Kjörstjórn athugaði, hvort viðkomandi aðili væri þá á kjörskrá, og væri svo, sendi hún honum kjörseðil í ábyrgðarpósti ásamt leiðbeiningum. Síðan útfyllti kjósandi kjörseðilinn, að sjálfsögðu í einrúmi, og færi með hann til íslensks ræðismanns, sem hann ætti auðveldast með að komast til, og sannaði með vegabréfi sínu eða á annan hátt, hver hann væri, og undirritaði viðfest blað, þar sem hann lýsti því yfir, að hann gæti vegna fjarveru ekki sótt kjörfund á sínum kjörstað, og legði við drengskap sinn, að hann hefði þvingunarlaust og aðstoðarlaust og í einrúmi útfyllt kjörseðilinn og límt hann aftur. Síðan staðfesti ræðismaður sá, sem um væri að ræða, með undirskrift sinni, að þessi kjósandi hafi hjá honum skilað atkvæðaseðlinum og fullnægt þeim skilyrðum, sem ræðismanninum væru áður gerð kunnug, og síðan ætti að sjálfsögðu kjósandinn sjálfur að koma kjörseðli sínum til skila.

Ég minnist nú aðeins á þetta, áður en málið fer til n. Ég minnist þess, að bæði í umr. og í samtölum manna utan umræðna, þegar þáltill. var í fyrra á ferðinni hér í þinginu, þótti ýmsum þessar hugmyndir utanrrn. athyglisverðar. En ég sé nú, að það hefur a.m.k. að svo stöddu ekki þótt unnt að taka þær upp í frv.

Eins og fram hefur komið, eru kjörræðismenn ólaunaðir og þarf eiginlega undir högg að sækja við þá og undir þeim komið, hvenær og hvort atkvgr. geti farið fram hjá þeim.

Mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðh., hvernig ætlunin sé að standa að undirbúningi atkvgr. á þann veg, sem frv. gerir ráð fyrir, — ég þykist vita, að það mál hafi verið rætt við utanrrn., — hvort það sé ætlunin að skrifa öllum kjörræðismönnum Íslands og kynna þeim reglurnar og þá að sjálfsögðu innan ákveðins frests að fá að vita svör þeirra. Þetta sýnist kannske vera fullþungt í vöfum.

Ég skal ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Það er liðið alllangt, um það bil 3 ár, síðan n. sat á rökstólum og samdi ábendingar sínar og setti fram hugleiðingar sinar. Ég held, að sumar af þeim ábendingum hafi verið býsna athyglisverðar og hafi verið ástæða til að kanna nánar, hvort ekki væri rétt að taka þær til greina og breyta kosningalögunum í þeim anda, sem þar kom fram. Þetta frv. er, eins og hæstv. ráðh. sagði og kemur fram í því, eingöngu bundið við það, sem í þál. fólst, þ.e.a.s. utankjörfundaratkvgr. Ég tel, að við samþykkt hennar á þinginu í fyrra hafi ekki komið fram sú skoðun, að ekki væri ástæða til að endurskoða fleiri atriði kosningalaganna. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh., hvort í hans rn. kunni e.t.v. að vera unnið að frekari endurskoðun kosningalaganna. Ég þykist vita, að ef til kemur, ef uppi eru hugmyndir um einhverjar breytingar, sem nokkru skipta á þeim l., muni verða kvaddir til fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Að sjálfsögðu ber að stefna að því, að breytingar á kosningal. fái sem almennast fylgi í þinginu.

Ég hef þá lokið máli mínu. Ég vildi aðeins drepa á þessi atriði og bera fram þessar fsp., sem ég áðan drap á. Málið fer svo til n., þar sem að sjálfsögðu verður athugað gaumgæfilega, hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar á frv., eins og það liggur nú fyrir.