30.10.1973
Sameinað þing: 9. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

29. mál, móttökuskilyrði sjónvarpssendinga á fiskimiðunum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er auðheyrt á hv. síðasta ræðumanni, að hann er ekki vanur því í sínum herbúðum að lýsa óánægju með viðbrögð sinna eigin flokksmanna. Hann tekur allt gott og gilt, sem úr þeim herbúðum kemur, hvort sem hann telur það sjálfur rétt eða rangt. En það er hans mál. Ég skal ekki deila við hann um það. Ég hef séð það á reynslu hans um árin á Alþ., að hann hefur ekki staðið uppréttur, þó að hann hafi sannfæringar sinnar vegna viljað greiða atkv. öðruvísi en hann gerði.

En út af þessu, ég lýsti engu vantrausti á ríkisstj. Ég bað hæstv. menntmrh. að þrýsta á sína embættismenn um það, að þessu yrði lokið. (ÞGK: Lýsti sárum vonbrigðum.) Ég veit það ekki, ég hef ekki flett því upp, það má vel vera, að ég hafi lýst trausti á ríkisstj. á sínum tíma, þegar ég flutti þetta mál. En a. m. k. hafði þessi hv. þm., sem hér var að tala áðan, ekki haft manndóm til þess að hreyfa þessu máli á Alþ. fyrr, ekki síðan ég kom á þing, svo að það mætti segja, að þessi hv. þm. sé að kasta grjóti úr glerhúsi í þessum efnum.

Og ég vil ekki viðurkenna, að málið hafi snúist í mínum höndum. Ég flutti það að vísu með Vestfirðinga fyrir augum, en ég tók jafnframt undir, að það þyrfti að kanna þetta víðar, og þess vegna stóð ég að þeirri samþykkt, sem gerð var í fjvn. á sínum tíma. Ég get vel unnt öðrum landsmönnum þess að fá sömu hlunnindi eða þjónustu, ef það væri um að ræða, eins og Vestfirðingar.