11.02.1974
Efri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

201. mál, kosningar til Alþingis

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið. Mér eru ljósir þeir örðugleikar, sem hafa á því verið, að vissir hópar kjósenda gætu neytt kosningarréttar. Ég hef átt við það vandamál að stríða á starfsævi minni og held, að þetta geti orðið stórt skref í þá átt að létta þá örðugleika, sem fyrir eru. Hins vegar kem ég hingað vegna þess, að mér finnst vanta eitt orð í þetta frv. Það eru a.m.k. um 200–300 manns, sem eru hér á stofnunum, sem hvorki heyra undir sjúkrahús né dvalarheimili aldraðra. Þetta eru þeir, sem búa á öryrkjaheimilum, þeir, sem búa á blindraheimilinu og jafnvel ýmsum smærri stofnunum úti um land. Nú veit ég, að það er ekki viljandi, að þetta er gert, en álít, að það gæti valdið erfiðleikum, ef þetta yrði ekki tekið inn í frv. Ég mun þess vegna bera fram þá brtt., að 2. málsgr. 2. gr. frv. breytist þannig, að á milli orðanna „sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra“ komi: öryrkjastofnun, þannig að hún hljóði þannig: „Kjörstjóra samkv. a- og b-lið 1. mgr. 13. gr. er enn fremur heimilt að láta kosningu fara fram á sjúkrahúsi, öryrkjastofnun eða dvalarheimili aldraðra, enda sé kjósandi sjúklingur eða vistmaður á stofnuninni.“ Ég er viss um, að þetta mun ekki mæta andstöðu, en mundi kveða á um, að fólk, sem þar dvelur, mundi einnig heyra undir þessi fríðindi.