11.02.1974
Efri deild: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (1873)

201. mál, kosningar til Alþingis

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans. Það kom fram, að í rn. er ekki, ef ég hef skilið rétt, unnið að frekari endurskoðun kosningalaganna. Ég vil nú beina því til hæstv. ráðherra, hvort ekki væri ástæða til að taka til gaumgæfilegrar athugunar og með góðum fyrirvara þær ábendingar, sem komu fram á sínum tíma hjá kosningalaganefndinni, og kanna, hvort ekki væru fleiri atriði, sem eðlilegt væri að athuga til breyt. á lögum.

Varðandi þær upplýsingar, sem hæstv. menntmrh. gaf, heyri ég, að ætlunin er, að framkvæmdin verði í samræmi við það, sem ákveðið var vorið 1971 um námsmenn og framfærendur, sem dveljast á hinum Norðurlöndunum. Það væri kannske ástæða til að spyrja, hvort þetta þýddi, að þetta fólk yrði tekið inn á þjóðskrá. Það var síðast tekið inn á kjörskrá, en ekki þjóðskrá, að ég ætla. En það, að það féll út af þjóðskrá, þó að það komi ekki kosningalögunum beinlínis við, leiddi um skeið til mikilla vandamála fyrir þetta fólk í sambandi við skattlagningu, álagningu opinberra gjalda, þar sem það var skattlagt eftir öðrum reglum en gilda um fólk búsett í landinu og kom harðar niður á því þar af leiðandi. Ég ætla. að þetta hafi reyndar verið leiðrétt nú, eftir að það hafði lengi þvælst á milli manna, hvernig leiðrétt yrði.