11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2095 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

187. mál, eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég er einn af meðflm. þessa frv. Engu að síður vil ég leyfa mér að tjá þingheimi, að það er ekki án nokkurs fyrirvara, sem mér þykir nauðsynlegt, að komi fram strax í upphafi umr. um þetta mál. Mér er fyllilega ljóst, að það er sanngirnismál, að starfsmenn stjórnmálaflokkanna fái eftirlaun eins og hliðstæðir starfsmenn annarra félagshreyfinga í þjóðfélaginu, og það er af þeirri nauðsyn og þeirri sanngirni, sem ég hef gerst meðflm. Hins vegar er fyrirvari minn bundinn við það, hvernig búið er um hnútana í frv., þ.e.a.s. gert ráð fyrir því, að þessir starfsmenn fái svipuð lífeyrissjóðsréttindi og þm.

Ég vil leyfa mér að taka undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði um þetta mál, að það væri rétt að fara sér hægt í þessu efni. Mín skoðun er sú, að það eigi að veita þessum starfsmönnum réttindi, sem er rétt og skylt, en alls ekki forréttindi, og mér virðist, að felast kunni í þessu frv. nokkuð, sem kalla mætti forréttindi umfram sambærilega starfsmenn við aðrar félagshreyfingar í landinu, þannig að viðhorf mitt er nú það, að eðlilegast væri, að þessir starfsmenn stjórnmálaflokkanna fengju svipuð lífeyrissjóðsréttindi og opinberir starfsmenn, sem hafa sambærileg launakjör, og taki því eftirlaun úr almennum lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, en ekki verði mynduð sérdeild fyrir þessa örfáu starfsmenn.

Þetta er það, sem ég vildi segja hér í upphafi.

Mér virðist af máli hæstv. fjmrh., að það sé fullkomin ástæða til fyrir hv. þn., sem fær frv. til athugunar, að kanna þetta mál frekar. Vænti ég þess, að það fáist fyllri samstaða um þetta mál. því að þessir starfsmenn, eins og ég segi, eiga að hafa full réttindi, en engin forréttindi.