11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

187. mál, eftirlaun starfsmanna stjórnmálaflokkanna

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. 3. landsk. beindi því til hv. d. að fara sér hægt í þessum efnum. Ég vil í því sambandi aðeins minna á, að þetta mál er þaulrætt. Það er búið að vera til meðferðar meira og minna hér í þinginu og hjá þingflokkum síðan haustið 1971. Það hefur verið reynt til þrautar að finna leið, sem menn gætu sameinast um, og ég hefði haldið, að hún hefði fundist með þessu frv., líka með tilliti til þess, að hér eru menn úr öllum flokkum og meira að segja heill þingflokkur, sem flytja þetta frv.

Ég hef auðvitað ekkert á móti því, að hv. fjh.- og viðskn. athugi málið og skoði þann möguleika, sem kann að vera í boði vegna aðgerða hæstv, fjmrh. Ég hef þó enga trú á því, að það leiði til frekara samkomulags. Hér er ekki verið að veita þessum mönnum nein forréttindi. Það er verið að veita þeim réttindi, sem nálgast þau, sem hv. alþm. hafa sjálfir. Ég veit ekki, hvort það eigi að kallast sérstök forréttindi. En það er gert með vísan til þess, að þessir menn eru ákaflega líkt í sveit settir um starfsöryggi og t.d. alþm. Það er fjarri því, að starfsmenn stjórnmálaflokkanna hafi neitt sambærilegt starfsöryggi við það, sem gerist hjá opinberum starfsmönnum. Því fer víðs fjarri, eins og menn geta séð í hendi sinni, ef þeir hugsa málið, sem þeir ættu nú að vera búnir að, því að þetta mál hefur verið, eins og ég segi, til umr. meira og minna nú á þriðja ár.

Ég treysti því, að þetta mál fái sem skjótastan framgang. Þetta mál hafði verið afgreitt út úr þessari hv. d. án nokkurra aths. í fyrra og var komið að lokaafgreiðslu í Ed., þegar mönnum þótti sem það þyrfti aðeins betri athugunar við. Það hefur af öllum fulltrúum úr þingflokkunum verið grandskoðað, og þeir voru á einu máli um það á fundi í haust, að þetta væri sú eina færa leið, sem þeir töldu, að í boði væri. Og ég er alveg sannfærður um, að þeir eru ekki svo sambandslausir við formenn sinna þingflokka, að þeir hefðu lagt þetta eindregið til málanna, nema af því að þeir vissu, að um þetta var full samstaða og einnig innan þingflokkanna sjálfra. Þess vegna á ég ekki von á því, að enda þótt einhverjir embættismenn ofan úr rn. komi og ræði við formenn þingflokkanna, breyti það einu eða neinu í þessu efni.

Ég endurtek þá áherslu, sem ég legg á það, að við þæfum þetta mál ekki lengur en orðið er og það fái sem skjótastan framgang, því að það er sanngirnismál. Hér er ekki verið að veita nein forréttindi, heldur einvörðungu verið að veita þessum mönnum réttindi nokkuð svipuð og þau réttindi eru, sem við njótum sjálfir.