11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2097 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka formanni fjh.- og viðskn. fyrir þá till., sem hann flytur á þskj. 352 um heimild til handa ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir allt að 80% af kaupverði væntanlegs Vestmannaeyjaskips. Ég vil einnig þakka þeim nm. fjh.- og viðskn., sem þessa till. styðja, eins og fram kemur í nál. á þskj. 351.

Ég skal taka fram í þessu sambandi, að till. á þskj. 352 um ábyrgð vegna Vestmannaeyjaskips er fram komin vegna tilmæla minna og annarra flm. þeirrar till., sem flutt var á þinginu í haust um byggingu Vestmannaeyjaskips. Þessi tilmæli eru fram komin til hæstv. ríkisstj. og fjh: og viðskn. vegna þess, að sú breyting hefur orðið á í þessum málum, að síðan till. um byggingu Vestmannaeyjaskips var flutt hefur það skeð, að ráðamenn Vestmannaeyjakaupstaðar ásamt fleiri aðilum þar hafa ákveðið að stofna til félagsskapar um kaup og rekstur á skipi til ferða á milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Þetta er í grundvallaratriðum breyting frá því, sem áður var gert ráð fyrir og fram kemur í till. okkar þm. Sunnl., þar sem gert er ráð fyrir, að ríkisstj. ákveði að láta byggja skip til þessara ferða, og þá var að sjálfsögðu einnig gert ráð fyrir því, að þar yrði um ríkisrekið skip að ræða. Ég vil láta þetta koma fram hér vegna þess, að á það var bent hér í umr. áður, að eðlilegust afgreiðsla þessa máls væri sú að afgreiða till., sem nú liggur fyrir fjvn. En ég tel, að ef till. sú, sem hér liggur fyrir frá formanni fjh.- og viðskn., verður samþ., sé úr sögunni sú till., sem er á þskj. 26 og var í haust vísað til fjvn.

Það, sem nú liggur fyrir, er það, hvort hv. Alþ. vill heimila ríkisstj. að veita nauðsynlega ríkisábyrgð gegn mótframlagi frá aðilum í Vestmannaeyjum og gegn þeim skilyrðum, sem hún kann að setja fyrir slíkri ábyrgð. Það hefur verið á það bent hér í umr., að það væri mikið í ráðist af Vestmanneyingum að ætla að fara í byggingu á nýju skipi til þessara ferða. Er það út af fyrir sig alveg rétt, að hér er um allfjárfrekt fyrirtæki að ræða. En menn heima í Eyjum eru almennt sammála um það, að fram hjá þessu verði ekki komist. Það viðurkenna allir, að það skip, sem annast hefur ferðir milli Vestmannaeyja og meginlandsins, Herjólfur, dugði mjög vel fyrstu árin, sem hann var þar í förum. Hann hefur í alla staði reynst mjög traust og gott skip. En aðstæður allar hafa breyst, síðan Herjólfur var smíðaður árið 1959 eða fyrir tæpum 15 árum. Aðstæður hafa breyst þannig, að hann getur ekki lengur náð þeim tilgangi eða uppfyllt þær kröfur, sem verður að gera til þess skips, sem annast ferðir milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Ég hygg, að ég hafi áður gert grein fyrir þeim breytingum, sem á hafa orðið og geri það að okkar dómi alveg nauðsynlegt að ráðist verði í byggingu á nýju og sérhyggðu skipi.

Í áliti þeirrar n., sem Alþ. skipaði árið 1972 til að athuga og gera till. um samgöngumál Vestmannaeyja, kom fram og var samdóma álit fjögurra nm. af fimm, að nauðsynlegt væri að hefjast handa um byggingu á nýju skipi til Vestmannaeyjaferða, þannig að þar yrði að vera um sérbyggt skip að ræða.

Bílaeign Vestmanneyinga hefur margfaldast, síðan Herjólfur var byggður 1959, og er ekki nema eðlilegt, að fólk, sem býr í Vestmannaeyjum, vilji eiga þess kost, að komast með eins hægu móti og við verður komið í samband við þjóðvegakerfi landsins. Hins vegar hefur það sýnt sig, og ég hygg, að það sé öllum ljóst, sem nokkuð þekkja til þessara mála, að bílaflutningur getur aldrei átt sér stað í nokkrum mæli, nema um sé að ræða, að hægt sé að flytja bílana neðan dekks, ekki á þilfari. Og hann getur aldrei farið fram með góðu móti, nema um verði að ræða sérbyggð skip, þar sem hægt er að aka bílunum út og inn úr skipunum. Reynslan hefur sýnt, að það að taka bílana eftir venjulegri leið, hífa þá um borð og raða þeim síðan á dekk skipanna, hefur valdið stórkostlegu tjóni, svo sem eðlilegt er, oft á tíðum, auk þess sem bílar fara mjög illa á því að verða fyrir alls konar volki og sjógangi, meðan á ferðinni stendur.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því, að Vestmanneyingar hafa að því stefnt að fá sérbyggt skip til þessara flutninga og ekki eingöngu til bifreiðaflutninga, heldur einnig til flutninga á bæði farþegum og vörum. Sú breyting er einnig að verða á í sambandi við vöruflutninga almennt og er nú að ryðja sér til rúms, að allar stykkjavörur og allar venjulegar vörur eru fluttar í hinum svokölluðu gámum. Má segja, að notast megi við venjulegar aðferðir við lestun og losun skipa, þegar um gáma er að ræða. En hitt liggur alveg ljóst fyrir, að ef hægt er að koma við þeirri tækni, sem eðlilegt er að beita í þessu sambandi, að lesta og losa skipin með gaffallyfturunum, sem ekið væri inn og út úr skipunum, þá má spara mjög mikið fé í sambandi við upp og útskipun. Þetta er sú þróun, sem er að verða í þessum málum, og í sambandi við hið fyrirhugaða Vestmannaeyjaskip er aðeins fylgt þeirri þróun, sem þegar er mjög farin að ryðja sér til rúms í öðrum löndum og er fyrirsjáanlegt, að hlýtur að ryðja sér til rúms hér á landi einnig. Þetta er bæði mun fljótvirkari aðferð og fer betur með vöruna.

Ég hygg því, að sú niðurstaða, sem hin stjórnskipaða n. komst að, sem ég minntist á áðan, sé alveg rétt og í samræmi við það, sem allir, sem kynna sér þau mál, hljóta að sjá fram á, að verður þegar hér á landi á næstu árum, þar sem með eðlilegum hætti verður við komið.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að þessi breyting útheimtir séraðstöðu í þeim höfnum, þar sem þessi skip eru afgreidd. Þannig háttar til í sambandi við Vestmannaeyjaskipið, að í þess heimahöfn yrði um mjög einfalda breytingu að ræða, sem kostaði til þess að gera litla fjármuni. Þetta er þegar búið að athuga og getur ekki á nokkurn hátt staðið í vegi fyrir þeirri eðlilegu breytingu, sem þarna er lagt til að gerð verði á flutningaaðstöðu Vestmanneyinga, að því er varðar bæði vörur, bifreiðar og annað, sem flytja þarf með slíku skipi.

Í Þorlákshöfn, sem gert er ráð fyrir að verði önnur endastöð skipsins, hefur þetta einnig verið athugað. Þar er þó ekki búið að athuga það til fulls, en er gert ráð fyrir, að slík aðstaða, sem með þarf, verði tekin inn í þá áætlun í fyrsta áfanga, sem nú er verið að ganga frá og mun vera langt komið að gera endanlega áætlun um.

Ég held því, að hv, þm. verði að skoða málið í því ljósi, að hér er aðeins um eðlilega þróun að ræða, sem hlýtur að koma og er til hagræðis fyrir alla aðila, sem hlut eiga að máli, og sparar verulegt fé í sambandi við upp- og útskipun.

Þá er því ekki að leyna, að farþegarými í m/s Herjólfi, hinu 15 ára gamla skipi, hefur sýnt sig að vera þegar orðið allt of lítið. Ég skal viðurkenna, að þeir aðilar, sem beittu sér fyrir byggingu Herjólfs, bæði ég og aðrir, við höfum þá ekki séð nægilega langt fram í tímann með þær kröfur, sem hlytu að verða uppi, þegar skipið hæfi sína flutninga milli lands og Eyja. Reynslan sýndi það þegar á fyrsta ári, að við það, að á var komið það, sem almenningur taldi nokkuð öruggar samgöngur, jókst farþegafjöldinn til mikilla muna frá því, sem áður var. Ef ég man rétt, var farþegafjöldi með Herjólfi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, sem skipið gekk einvörðungu fyrsta árið, rúmlega 10 þúsund manns, og það sýndi sig við athugun, að farþegum hafi ekki fækkað með flugvélum, þeim hafði einnig fjölgað. Þegar fólk sá fram á, að það gat komist við þær aðstæður, sem þá voru taldar eðlilegar, ferða sinna með nokkru öryggi, að það yrði ekki veðurteppt, en gæti komist fram og aftur með nokkru öryggi, þá jukust ferðir manna það mikið, eins og hér hefur verið greint frá, að með skipinu ferðuðust um 10 þús. manns, án þess að nokkuð fækkaði með flugferðum.

Ég hygg, að það liggi alveg ljóst fyrir, að sama yrði niðurstaðan, ef kæmi nýtt og betra skip, sem hagkvæmara væri að ferðast með, þá mundi það einnig sýna sig, að flutningar bæði á bifreiðum og farþegum mundu aukast verulega á þeirri leið, sem skipið ætti að sigla, en það er milli Eyja og Þorlákshafnar. Mér er um það kunnugt og flestum mun vera það ljóst, að menn fara ekki nú með bifreiðar sjóleiðis nokkra leið sem heitir, þar sem um úthaf er að ræða og engin aðstaða til þess að hafa bifreiðar annars staðar en á dekki, þá fara menn ekki með bifreiðar sínar nema helst tilneyddir. Það verður þó að telja eðlilegt, ef menn þurfa að fara úr Eyjum til lands, ferðast um bæði hér á þéttbýlissvæðinu og annars staðar, að þeim sé sköpuð aðstaða til þess, að geta tekið bifreiðar sinar með og þannig spara sér án efa stórkostleg útgjöld í sambandi við leigu bifreiða. Þetta er það, sem Vestmanneyingar hafa stefnt að og stefna alveg ákveðið að nú í dag og eru reiðubúnir að leggja fram verulegt fjármagn, sem þeir hafa þegar tryggt sér að verði fyrir hendi, þegar og ef smíði skipsins getur hafist.

Vegna þess að það kom hér fram í umr., að einstaka menn litu svo á, að hér gæti verið um mismunun að ræða milli einstakra staða og jafnvel heilla landshluta, þá vil ég leiðrétta þann misskilning. Ég er alveg sannfærður um, að á hvaða stað á landinu sem væri, um hvaða landshluta sem væri að ræða, ef mál heiman úr héraði þar yrði lagt fyrir eins og þetta mál liggur fyrir hér, að um er að ræða stofnun félagsskapar heima í héraði, sem leggur fram verulegt fjármagn, en biður jafnframt um ríkisábyrgð fyrir hluta af kaupverði eða andvirði skips, þá mundu þær till. ná fram að ganga hér á hinu háa Alþingi. Ég er alveg sannfærður um, að þm. almennt eru ljós þau miklu vandkvæði, sem eru víða á landinu í sambandi við samgöngumál. Ég bygg, að við mundum allir vilja um það sameinast að gera sem mest átak í því að bæta samgöngumál úti í dreifbýlinu, og get ég a.m.k. alveg hiklaust gefið þá yfirlýsingu, að ef mál annars staðar frá yrði lagt fyrir á sama hátt og hér er um að ræða, þá mundi ég hiklaust fylgja því fram hér á Alþingi.

Ég ætla að sjálfsögðu ekki að fara í neinn meting við einn eða neinn um, hvað gert hefur verið í samgöngumálum annars staðar. En ef við lítum nokkuð til baka, þá sjáum við, að þar hefur í einstaka tilfellum verið gert verulegt átak, og vegáætlunin gefur vissulega fyrirheit um það, að almennur skilningur sé á því hjá alþm., að fé til samgöngumála sé vel varið. Ég vil benda á, að á núgildandi vegáætlun eru á fjórum árum, á árunum 1972–1975, áætlaðar 300 millj. kr. til Austurlandsáætlunar og 645 millj. kr. til Norðurlandsáætlunar. Allt þetta fé, að ég hygg, mun fara til samgöngumála, til að bæta samgöngur á þessum stöðum og í þessum landshlutum, og ég hygg, að þm. allir telji vel farið, að svo stórt átak liggi fyrir í samgöngumálum á þessum stöðum.

Ég vil einnig benda á, að Alþ. hefur í einu tilfelli gert mjög stórt átak miðað við allar aðstæður til bættra samgangna, en það var þegar Vestfjarðaáætlun var samþykkt á sínum tíma. Ef ég man rétt, var þar um að ræða á fyrsta stigi lántöku upp á 170 millj. kr., sem áætlað var, að notaðar yrðu á næstu árum þar á eftir, þetta mun hafa verið á árinu 1964, — til bættra samgangna á Vestfjörðum. Ef litið er á niðurstöður fjárl. fyrir árið 1964 kemur í ljós, að þetta samsvarar milli 7 og 8% af niðurstöðu fjárl. og mundi í dag vera nokkuð yfir tvo milljarða, miðað við niðurstöðu fjárl., eins og þau eru áætluð fyrir árið 1974. Ég minnist þess, að þm. voru almennt í grundvallaratriðum sammála um, að nauðsyn væri á þessu fjármagni til Vestfjarðaáætlunar, jafnvel þó að bæði mér og öðrum væri ljóst á þeim tíma, að til okkar hinna, sem stóðum að samþykktinni um þessar áætlanir, yrðu vissulega gerðar kröfur um bættar samgöngur heima í okkar héraði. Ég fór ekkert varhluta af því, að það voru gerðar kröfur til mín og ég hygg annarra þm. Sunnl. um bættar flugsamgöngur við Vestmannaeyjar. Þá var engin þverbraut komin á völlinn og aðstæður þá mun lélegri en þær eru í dag. En ég sagði, eins og rétt var, að þó að við værum þarna í erfiðri aðstöðu, að talið var, þá væri mér alveg ljóst, að Vestfirðingar voru þó í enn erfiðari aðstöðu með sín samgöngumál og þess vegna væri eðlilegt og vel réttlætanlegt af Alþ. að standa að slíku stórátaki til bættra samgangna, eins og gert var með Vestfjarðaáætlun, miðað við allar aðstæður og gildi peninga, eins og var á þeim tíma.

Ég skal ekki hafa um þetta atriði fleiri orð eða lengri ræðuhöld í bili. En vegna þess ágreinings, sem hér hefur verið, að mér hefur skilist, um ríkisábyrgð fyrir Akranesferjunni, vil ég benda á það, þó að mér sé það mál ekki kunnugt, — ég skal taka það fram, mér er ekki kunnugt sérstaklega um það skip, sem þar er um að ræða kaup á, — en ég vil benda á það, að á þessari leið er nú um að ræða skip, sem byggt var 1956 og er að verða 18 ára gamalt. Þegar það skip hóf ferðir sínar, mun hafa verið um að ræða milli 10 og 20 þús. farþega, sem þessa leið notuðu á ári. Mér er tjáð nú, að s.l. ár hafi þar verið nær 60 þús. farþegar. Ég tel, að þetta segi sína sögu um þörf á bættri aðstöðu til flutnings, bæði fyrir farþega og þá einnig bifreiðar, — ef menn óska eftir því að fara með bifreiðar sinar þarna á milli, þá sýni þessi stórkostlega aukning á þessari leið þörfina fyrir, að um úrbætur verði að ræða. Ég vil einnig benda á það, sem ég hlýt að taka nokkuð mikið tillit til, að þeir aðilar, sem þetta skip hafa rekið undanfarna áratugi, eru sammála um að leggja allverulegt fé frá sjálfum sér og sínum heimabyggðum til þess að fá betri farkost til þessara ferða. Ég a.m.k. treysti mér ekki til að halda því fram, að þessir menn eftir áratuga reynslu viti ekki nokkurn veginn, hvað þeir eru að biðja um, þegar þeir fara fram á ríkisábyrgð fyrir hluta af væntanlegu kaupverði skipsins, á sama tíma og þeir sjálfir leggja fram milljónatugi úr eigin vasa og frá sínum heimabyggðum. Ég lít þannig á málið og mun þegar af þeirri ástæðu fylgja því, þegar það kemur hér til atkvgr., að einnig verði orðið við tilmælum þessara aðila um sjálfskuldarábyrgð í sambandi við kaup þeirra á hinu væntanlega skipi til ferða á milli Reykjavíkur og Akraness.

Ég vil undirstrika það, að það, sem Vestmannaeyingar biðja nú um, er nokkuð annars eðlis en innihald þeirrar till., sem við fluttum á þskj. 26 á s.l. hausti. Breytingar hafa orðið á heima í héraðinu þess eðlis, að Vestmanneyingar hafa sjálfir óskað eftir að taka málið í sínar hendur að því leyti, að þeir verði eigendur og rekstraraðili, sem kemur til með að annast ferðir þar á milli, og hafa þegar lagt fram verulegt fjármagn eða tryggt verulegt fjármagn, sem þeir einir standa ábyrgir fyrir. Og ég er sannfærður um, að allur almenningur í Eyjum mun verða fús til að leggja fram fjármuni til bættra samgangna, ef ríkisvaldið vill að hinu leytinu mæta þeim með því að veita ríkisábyrgð þá, sem hér er lagt til, að veitt verði.