11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1884)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta mál nokkuð, og hér var flutt hálfskopleg ræða um daginn af hæstv. fjmrh. Raunar kom ráðh. ekki mikið að efni málsins, hann var að tala um ýmislegt annað, en ég mun byrja á því að tala efnislega um málið, enda hef ég alltaf gert það. Það er velkomið fyrir hv. þm. að lesa þá ræðu, sem ég hélt hér um daginn, sem hæstv. fjmrh. var að ávíta mig fyrir, að ég hefði verið að tala illa um náungann. Það er ekki eitt einasta lastyrði um nokkurn mann í þeirri ræðu.

Það komu tvö efnisatriði fram hjá hæstv. fjmrh. Það var viðvíkjandi því, að rútuferðir hefðu yfirleitt ekki borið sig vel frá Akranesi og Akurnesingar mundu ekki hafa staðið sig eins vel í fótbolta og þeir hafa gert, ef þeir hefðu ekki haft þennan bát til að ferðast á. Þetta var það eina, sem kom efnislega fram hjá hæstv. ráðh. Þetta er alveg rétt viðvíkjandi bílferðunum. Það var ósköp eðlilegt, að menn vildu heldur fara með Akraborginni, meðan ríkið borgaði helminginn af fargjöldunum, eins og það gerði, hátt upp í það, þá fóru þeir með skipinu og tóku konur og börn með, og þetta var skemmtisigling í mörgum tilfellum. Þetta staðfestir það, sem ég í raun og veru hef haldið fram. En ef þetta hefðu verið eðlileg fargjöld og þeir hefðu átt að kosta sitt skip sjálfir, áttu ferðir með bílum að ganga vel, svipað og hjá okkur fyrir norðan, a.m.k. þangað til flugvöllur kom á Akranesi. Ég hef ekkert við það að athuga, þótt menn fari og leiki fótbolta. Þeir stóðu sig einu sinni ágætlega, þarna á Akranesinu. En nú eru Keflvíkingar búnir að snúa á þá, að mér skilst, þrátt fyrir að þeir hafi ekki skemmtisnekkju til að ferðast á. Annars var einn þm. þeirra úr Gullbringu- og Kjósarsýslu að segja, að hann ætlaði að fara fram á að fá skip fyrir þá í Keflavík, til þess að þeir gætu farið hingað til Reykjavíkur til að æfa sig í fótbolta.

En nú vitum við það, að núv. ríkisstj. og meiri hl. þingsins styðja byggðastefnu. Ég sé nú ekki annað, ef þetta er svona nauðsynlegt vegna fótboltans hjá þeim á Akranesi, en við verðum að taka málið á breiðari grundvelli. Ég sé ekki nokkra ástæðu til annars en Ísfirðingar geti farið fram á að fá gott sjóskip til þess að geta skroppið hingað suður og æft fótbolta og sömuleiðis Siglfirðingar. Ég skil ekki, að hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson vildi hafa Austfirðinga út undan, þannig að það gæti þurft 4–5 skip til að flytja úr helstu bæjum landsins menn hingað til þess að æfa fótholta, ef þetta á nú að vera aðalþörfin fyrir þá þarna á Akranesinu á að fá þetta stóra skip. Við erum náttúrlega efnaðir, Íslendingar, og höfum mikla peninga og mikil fjárráð. En þetta gæti orðið nokkurs konar fótboltafloti. Nei, það er ekki öll vitleysan eins. En ef Akurnesingar eiga að hafa 600 tonna skip, sem kostar 130 millj., til þess að geta æft hér fótbolta, þá náttúrlega þarf það að ganga jafnt yfir alla landsmenn. Vestmanneyingar ættu að geta komið, þegar þeir eru búnir að fá nýja skipið.

Það er ekkert að Akraborg, ekki nokkur skapaður hlutur. Ég var síðast að tala í dag við manninn, sem hefur haft með hana að gera. Stálið er ágætt í henni, og hún þarf minni klössun en þetta nýja skip, sem er verið að kaupa og er orðið 8 ára gamalt. Hún þarf 16 ára klössun, en það þarf 8 ára klössun, og eftir því sem mér hefur skilist, ætla Norðmenn ekki að sjá um þá klössun, þannig að það er ekki eins og sé verið að kaupa nýtt skip.

Svo er nú þetta, ég kem þá að blessuðum Norðmönnunum, ég var vittur af hæstv. fjmrh. fyrir að vera að tala við svoleiðis menn. Annars átti hann kost á því að tala við manninn sjálfur, því að hann sagði mér, þessi ágæti maður, að hann hefði verið kynntur fyrir sjútvrh. og fjmrh., og hann sagðist ekki hafa getað talað neitt við fjmrh., en sagði, að sjútvrh. væri „clever fellow“ og lét vel af að spjalla við hann. En hvað um það, fjmrh. gat náttúrlega fengið sér túlk, ef hann vildi fá einhverjar upplýsingar hjá honum, það var ekki mín sök. En hann sagðist álíta, að hæfilegt verð á þessari ferju væri 4 millj. kr. norskar eða um 60 millj. ísl., en hún er seld á 120 millj., og svo á eftir að gera hana haffæra. Íslendingar þurfa að kosta klössunina, og þeir gera sjálfir ráð fyrir 10 millj., það verður víst ekki minna alls, vafalaust miklu meira.

Norðmaðurinn sagði mér einnig, að venja þeirra í Noregi væri sú að selja skipin, þegar þau væru 21/2–5 ára gömul. Þeir byggja sín skip sjálfir, og þeim finnst borga sig að endurnýja flotann svona fljótt, en þess er að gæta, að þeir hafa viðinn og þeir hafa hráefnið, og þetta skapar þeim vinnu. En þeim hefur ekki tekist að selja þetta skip, fyrr en það er orðið 8 ára gamalt, og það er talið sérstakt happ að geta selt það, Ekki veit ég, hve mikla þóknun sölumaðurinn hefur fengið, en hitt ér víst, að hann á skilið góð laun fyrir að geta komið þessu í Íslendinga fyrir 120 eða 130 millj, Ég fékk í gegnum samgmn. upplýsingar og sá undireins, að þetta var tóm vitleysa, og fór að tala um það hér. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er víst búið að kaupa skipið og borga í því 12 millj., og má mikið vera, ef fjmrh. er ekki búinn að ganga í ábyrgð. Ég vil ekki fullyrða það, en á ýmsum hefur mér skilist það. Ég veit ekki, til hvers er verið að fleygja þessu í þm., ef búið er að ganga frá málinu. Það er náttúrlega ólöglegt að skrifa undir ábyrgð, áður en búið er að veita heimild til þess, og ég sé þá ekki, hvað er verið að basla með þetta.

Það er meira en skipið kosti þetta, þetta gamla skip, sem er auk þess mjög óhentugt. Þetta er innfjarðaskip, og ég vona, að það verði ekki slys af. Hann hélt, sá norski, sem ég hef mikla visku frá, þó að ég hafi hana engan veginn alla, að það væri hægt að gera það nokkuð öruggt, bjóst við því. En hann taldi ógerlegt annað en setja hliðarskrúfu og þá vantaði vél til þess að knýja þá skrúfu. Það veit enginn, hvernig bygging skipsins er, ekki veit ég það a.m.k., hvort þægilegt er að koma því fyrir. Guðjón, sem stjórnar Skipaútgerð ríkisins, heldur, að það muni kannske þurfa tvær skrúfur á hliðarnar, um það vil ég ekki fullyrða.

Þá þarf að gera stórkostleg mannvirki, bæði í Reykjavík og á Akranesi, til þess að þetta afbragðsskip geti lent með fótboltamennina. Það er ekki þannig, ég veit, að hæstv. fjmrh. er mesti drengskaparmaður og vill allt fyrir alla gera, en þegar menn eru komnir í þetta starf, er ómögulegt að gera allt fyrir alla, þótt menn vilji, það er ekki hægt. Menn verða að vera harðir af sér.

Viðvíkjandi þessum 60 þús. farþegum, þá reiknaði ég þetta út miðað við fargjöldin. Ég gat ekki reiknað það nákvæmlega, ég tók meðaltal og byggði það á þeim upplýsingum, sem ég fékk. Það eru engin 60 þús., miðað við fullorðna menn, — ég veit ekki, hvað selt er fyrir krakkana, — en það eru engin 60 þús., ég ætla nær 40 þús. Og þetta eru menn að fara að gamni sínu, ég hef ekkert á móti því. Ef þeir vilja endilega hafa skemmtisnekkju, þá er það allt í lagi. En það er bara alveg ástæðulaust að kaupa svona dýrt skip. Ef þeir kosta hana sjálfir, þá varðar okkur eðlilega ekkert um það.

Það kom fram hjá hv. 3. þm. Sunnl., hann var að tala um, að þeir ætluðu að leggja milljónatugi í þetta, eigendur Skallagríms, skilst mér. Ég hef ekki séð gögn um það, að þeir ætli að leggja fram neina milljónatugi. Mér skilst, að þeir eigi Akraborg. Ég dreg í efa, að þeir hafi lagt neitt fé að ráði í Akraborg. Ég held, að hallinn hafi alltaf verið borgaður af ríkinu. Þeir eiga einhver smáhlutabréf, hún var dálítið mikils virði, krónan, þegar félagið var stofnað, það voru allt aðrir tímar. Þá var nauðsynlegt fyrir Borgfirðinga að eiga skipið, og það flutti vörurnar, kjötið og mjólkina á milli. Nú eru Borgnesingar alveg hættir að nota það. Þeir munu eiga eitthvað í hlutabréfum, býst ég við, annars er ég alveg ókunnugur, hverjir eiga hlutabréfin í Skallagrími, og skiptir heldur engu máli fyrir okkur hér í sjálfu sér. En þeir eiga vafalaust eitthvað af hlutabréfum í því ennþá. En skipið veitir Borgnesingum enga þjónustu. Það borgaði sig betur fyrir þá að nota bílana, af því gera þeir það vitanlega, það er hagkvæmara. Ég hef alltaf haldið því fram, að Akurnesingar gætu komist af án þess að hafa Akraborgina. Annars er Akraborgin sérstakt happaskip, og það hafa verið gerðar athuganir á henni, að stálið er ágætt enn þá, og hún þarf minni klössun en þetta nýja skip, sem þeir eru að kaupa. Hún þarf 16 ára klössun, en það þarf 5 ára klössun og það er dýrari og meiri klössun. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, er þetta þannig.

Það, sem gerði, að ég fór að tala í þessu máli, var, að ég sá, að þetta mundi verða veruleg byrði. Ég tel það ekki að tala illa um menn, þó að maður sé ekki á sama máli málefnalega og þeir. Það er allt annað. Maður mætti þá yfirleitt aldrei hafa skoðun, ef það eiga að heita illyrði, þó að menn deili eitthvað málefnalega. Hitt skal ég taka fram, að þeir hafa verið vel ýtnir sumir þm. þeirra Vestlendinga, um framlög úr ríkissjóði fyrir Akraborgina, og ég efast ekki um, að þeir verði það fyrir þetta nýja skip líka. Ég á þar sérstaklega við þá, sem búsettir eru á Akranesi, og hæstv. fjmrh. En þess hefur minna gætt með Ásgeir Bjarnason og hv. 4. þm. Vesturl., Friðjón Þórðarson. Þeir hafa haft meiri áhyggjur af Breiðafjarðarbátnum. Það er rétt að taka það fram, að þó að Friðjón Þórðarson, hv. 4. þm. Vesturl., hafi verið dálítið ýtinn fyrir Breiðafjarðarbátinn, þá hefur það allt verið byggt á mikilli sanngirni og alls ekki meiri kröfur en þörf er á. Meira að segja hefði sá bátur þurft að fá meira framlag en hann hefur fengið, ég skal viðurkenna það. En hvað skeður nú, ef keypt er þetta nýja skip og það þarf allt að 40 millj, kr. framlag á ári til þess að bera sig, sem ég hef töluverða ástæðu til að ætla, að þurfi? Hvað skeður þá? Koma ekki kröfurnar frá hinum? Það er meira en þessi krafa. Það koma hliðstæðar kröfur frá öllum byggðarlögum, það dynur á okkur: Þetta var gert fyrir þennan og við eigum heimtingu á hliðstæðu. Og það verður ekki reynt að spara. Við höfum reynt að halda þessu niðri eins og mögulegt hefur verið. Sannleikurinn er sá með þessa báta, bæði Ísafjarðarbátinn, Norðurlandsbátinn, Breiðafjarðarbátinn og yfirleitt þessa báta, að það hefur verið reynt að halda kostnaði niðri eins og mögulegt var. En svo þegar er sólundað svona á einum stað, þar sem minnst er þörfin, þá koma hinir með kröfurnar: ný skip, meiri kostnað, þannig að þetta geta orðið 100–200 millj. kr. útgjöld fyrir ríkið. Ég veit, að tekjurnar eru miklar og hæstv, fjmrh. ákaflega duglegur að afla tekna fyrir ríkissjóð, það vantar ekki, en það er líka í ýmis horn að líta. Það er margt, sem er vanrækt. Ég held, að það sé ómögulegt að standa við þá vegáætlun, sem búið er að samþykkja, það lítur ekki út fyrir það. Ég held t.d., að Tækniskólinn sé þannig, að það sé alveg óverjandi, hvernig að honum er búið, og það er margt, sem hægt er að gera við peningana. Jafnvel þó að tekjur Íslendinga séu miklar, þá er þörfin það mikil, að það er yfirleitt óverjandi að verja fésinu illa eða fara illa með fé. Annars hef ég aldrei vanist því að sólunda fé að óþörfu, hvorki fyrir sjálfan mig né aðra. Ég hef aldrei haft efni á því og hef ekki heldur neina ánægju af því, og satt að segja fer það alltaf í taugarnar á mér, þegar ég sé það gert. Ég skal játa, að miðað við alla þá eyðslu, sem er í okkar þjóðfélagi, sé þarna ekki um neitt stórmál að tala. Móralskt séð er þetta talsvert atriði.

Ég hef vítt meðferð á þessu máli. Okkur voru veittar litlar upplýsingar, og þær, sem komu, voru rangar. Það eina, sem fjmrh. kom með efnislega í sinni frumræðu, sem kom seint, var, að það væri hægt að flytja sement með þessu skipi. Í seinni ræðu sinni minntist hann ekkert á sementið. Ég upplýsti, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hefði fengið, væri það tóm vitleysa. Svo eru lagðar fram áætlanir, og það er eins og ég hef áður talað um, það er ekkert vit í þeim áætlunum. Þær eru byggðar á því, að það muni verða svipaður kostnaður og á Akraborginni, sem er helmingi minni og hefur þar að auki reynst sérlega vel og verið að mörgu leyti hagkvæmt og er ágætt skip og miklu betra fyrir þá að hafa það skip heldur en vera að kaupa þetta nýja skip, enda er mér sagt, að það séu ýmsir á Akranesi alveg furðulostnir yfir þessu tiltæki öllu saman. Ég get sagt ykkur sem dæmi, með tryggingarnar. Það eru reiknaðar 991 þús. Í síðari áætluninni, þar sem hann er búinn að hækka um 20%, þá eru þær reiknaðar á 1189 þús. Nú fór ég að að spyrjast fyrir um það hjá einu tryggingafélagi í dag, og upplýsingarnar voru þær, að þær mundu alls ekki vera fyrir neðan 3 millj. eða rétt við 3 millj. Svona er þetta allt saman. Olían var reiknuð lítið eitt hærri, og vita allir, hvernig það verður, hann bætti 20% við hana, og þá er hún áætluð 27 millj. En nú er eyðslan á hverjum togara, miðað við olíuverð í dag, á mánuði um 2 millj., og imyndið ykkur þá, að olían verði ekki nema 2.7 millj. Hún verður sennilega á skuttogurunum nýju um 24 millj. á ári miðað við olíuverð núna, og svo getur það stórhækkað, þannig að við þurfum ekki að ímynda okkur, að þessi liður verði innan við 10 millj. Sem dæmi er reiknað með 100 millj. kr. skuld, en hvar á að taka hinar 30? Það hvíla nú á Akraborginni eitthvað 6 millj., og ég er ekki farinn að sjá, að þeir geti selt hana fyrir mjög mikið. Þó má vera, að þeir geti selt hana á 20–30 millj. En það eru engar líkur til þess, að skuldir verði ekki nema 100 millj, kr. Og þeir reikna 7.25% vexti. Hvar ætla þeir að fá fé með þeim vöxtum? Ég var að tala við kanpfélagsstjórann á Akureyri fyrir stuttu. Hann sagði mér, að meðaltalsvextir, sem kaupfélagið yrði að borga í bankanum, væru 18% með öllum þeim aukakostnaði, sem á lánið hleðst. Þá geri ég ekki ráð fyrir, að hann eigi við það, sem hann fær í bankanum út á afurðavíxla. Hvar á að fá 100 millj. með 7.25% vöxtum? Og svo reikna þeir afskrift 7.2%. Skipið er orðið 8 ára gamalt. Þeir þykjast ekki geta notað Akraborgina, af því að hún er orðin eitthvað 18 ára, held ég. Þá held ég, að þessar afskriftir dugi skammt.

Annars verður það líklega þannig, eins og einn Akurnesingur sagði mér, sem er kunnugur þessum hlutum, — hann sagði, að það væri sá kosturinn við að kaupa þennan dall, að það yrði aldrei nema eitt ár og þá yrðu þeir alveg lausir við þessar milliferðir á eftir. Það má vel vera. Og sannleikurinn er sá, að það er oftast nær þannig, að þó að eitthvað sé illt, þá fylgir því einhver kostur. Það er því ekki ástæða til þess að vera að æsa sig of mikið út af svona hlutum. En málið er þannig lagt fyrir þingið, að upplýsingarnar eru allar rangar, sem þinginu eru gefnar.

Svo er þessu hrúgað saman í eitt frv., nokkurs konar bandorm. Ég fyrir mitt leyti viðurkenni, að aðstaða Vestmanneyinga er allt önnur. Þeir þurfa skip og geta ekki komist af án þess. Þeir þurfa skip, sem getur flutt bíla, og ég hef mikinn skilning á því, að þeir vilji heldur fara til Þorlákshafnar en hafa ferðirnar hingað til Reykjavíkur, m.a. vegna flutninga á bílunum, enda er þetta þeirra mál. Hitt er annað, að það er algerlega óverjandi að taka þessa liði saman: togarakaup, kaupin á Tungenes og Vestmannaeyjaskipi, og hrúga þarna saman þremur alveg óskyldum málum, sem ég vildi gjarnan vera með að vissu leyti, eins og Vestmannaeyjaskipinu. Það er farið allt öðruvísi að þar. Það er ekki búið að byggja neitt, það er ekki búið að ganga í ábyrgð fyrir neinu, og ef þeir athuga þetta mál vel og byggja sér hagkvæmt skip, þá er ég fús til að vera með því. Ég veit a.m.k., að þeir geta gert það, þeir hafa næga þekkingu í siglingamálum til þess. Það þarf náttúrlega að stilla verðinu á slíku skipi í hóf, miða við þær aðstæður, sem líklegt er, að verði. En ég skil það vel, að þeir vilji hafa traust skip til þess að flytja bíla sína. Sannleikurinn er sá, að það er ómögulegt að flytja bíla á skipum, nema þá í góðu veðri, a.m.k. nema eiga á hættu, að þeir skemmist eitthvað, þannig að ég hef enga trú á því, þó að þeir kaupi þennan norska dall, að það verði straumur af bílum norðan og vestan af landi, sem fari með skipinu, enda vafasamt, hvort það er nokkur einasti flýtir, þegar miðað er við það að aka ofan á Akranes, bíða eftir því að koma bílum um borð og fólki og koma því svo aftur ár skipinu. Ég skil ekki, að það breytist neitt. Þar að auki er þess að gæta, að vegirnir eru alltaf að batna og verður sennilega langleiðin gerð úr varanlegu efni, og þá skil ég ekki í því, að norðanmenn fari að nota þetta skip mikið. Þetta verður þá fótboltaskip, eins og það hefur raunar verið að mestu leyti.

Það hafa eiginlega ekki aðrir talað á móti þessu, sem ég hef sagt hér, en hæstv. fjmrh., þannig að efnislega þarf ég ekki að svara fleiru. Annars var ég hálfhissa á ræðu hæstv. ráðh. Ég hef aldrei heyrt nokkurn ráðh. halda svona vitlausa ræða, ekki svona langa. Ég er ekki viss um nema ráðh. hafi haldið 5 mínútna ræðu svona vitlausa, en enginn svona langa. Þetta áttu að vera skammir um mig, en það voru engar skammir um mig, þetta líktist helst nauti, kollóttu meira að segja, sem er að stanga vegg og getur ekki einu sinni rifið vegginn í sundur. Ég hef í raun og veru engu að svara viðvíkjandi þessu. Hann var að tala um, að ég hefði talað illa um einhverja bændur uppi í Borgarfirði. Ég hef ekki minnst á einn einasta bónda uppi í Borgarfirði í þessum umr. Ég veit alls ekki, hverjir eru frumkvöðlar að þessu máli. Ég veit, að þeir hafa verið að slást hér í þinginu, Jón Árnason og Halldór E. Sigurðsson. Benedikt Gröndal talaði einu sinni, síðan hefur hann ekki talað. Hann var hógvær að vanda, og satt að segja er ég í dálitlum vafa um, hve sannfærður hann er um ágæti þessa máls, þó að hann standi með því. Ég skal ekki segja um það, en ég er í vafa um það. Um Jónas Árnason veit ég ekki. Og þó að ég hefði þá með í númeri, Vestlendingana, þá er það hrein vitleysa, að ég hafi sagt, að þeir væru jafnvitlausir, því að ég orðaði það þannig, að það gæti orðið þeim til afsökunar hjá kjósendum sínum, ef þeir álitu þá alla jafnvitlausa, í þessu máli auðvitað, og við vitum, að stórvitrum mönnum getur yfirsést. Haraldur harðráði fór til Jórvíkur í herferð einu sinni. Hann var allra manna vitrastur. Hann var svo vitlaus að fara þetta, og þar var hann drepinn. Napóleon æddi inn í Rússland. Það ber enginn þessum mönnum heimsku á brýn, en þeir gátu gert hin mestu axarsköft. Gáfaðir menn geta oft gert mestu vitleysurnar, þannig að það er betra að hafa meðalgáfur og gera litlar vitleysur heldur en vera gáfaður og gera miklar vitleysur. Það gæti orðið afsökun, svo að menn hlypu ekki milli flokka út af þessari vitleysu, sem þeir eru að gera, að þeir væru allir samsekir. En þar átti ég auðvitað við þessa menn, sem mest hafa gengið fram fyrir skjöldu. Annars má vel vera, að þessir menn séu búnir að vefja sig svo inn í þetta allt saman, að það verði ekki aftur snúið, en það er ekki mér að kenna. Þið megið lesa ræðu mína, þar er ekki talað um einn einasta Borgfirðing.

Svo var hæstv. fjmrh. að tala um það, hvað ég nyti lítils trausts hjá mönnum, af því að ég væri ekki formaður Búnaðarfélagsins eða formaður Stéttarsambandsins. Hæstv. fjmrh. ætti nú að rjúka á hvern einasta bónda ílandinu og skamma hann fyrir, að hann hefði ekki traust, af því að hann væri ekki formaður annaðhvort í Stéttarsambandi eða Búnaðarfélaginu. Ég held nú satt að segja, að aðstaða mín sé ekki þannig. Það er ekki hægt fyrir mig að vera formaður í Búnaðarfélaginu, því að bróðir minn er búnaðarmálastjóri. Ég held, að það ætti ekki vel við. Satt að segja hef ég aldrei verið að sækjast eftir að vera formaður í Stéttarsambandinu og ekki einu sinni að fara á Stéttarsambandsfund. Og þótt ég væri grátbeðinn um að vera formaður í Stéttarsambandi bænda, þá væri ég ófáanlegur til þess, ég hef alveg nóg á minni könnu.

Ég varð alveg hissa, þegar fjmrh. var að tala um þá Magnús í Norðtungu og Gilsbakka-Magnús, og skildi ekkert í þessu. En síðar var mér sagt, að Magnús í Norðtungu mundi hafa verið hér uppi á pöllunum. Það gat skeð, að það væri af því. En annars hef ég alltaf baslað allt mitt líf án þess að vera að hræsna fyrir mönnum, þó að þeir væru einhvers staðar uppi á pöllum. ég veit ekkert um það, ég hitti ekki Magnús og skal ekki ábyrgjast, hvort það er satt eða ekki.

Þá fór hæstv. fjmrh. að telja fram fyrir bændur, það hef ég aldrei vitað nokkurn ráðh. gera, fara að telja fram bústofn bænda hér í pontunni. Hann sagði, að ég hefði ekki verið meðal 40 stærstu bænda á Íslandi. Ég vissi auðvitað að þetta var allt tómur tilbúningur og skrök úr ráðh., því að hann hefði aldrei fengið neinn lista yfir 40 stærstu bændur á Íslandi. En þeir voru hérna í d., bæði Stefán Valgeirsson og Ágúst Þorvaldsson, og hann sagði, að þeir hefðu báðir verið á listanum. Hann gleymdi þeim Páli Þorsteinssyni og Ásgeiri Bjarnasyni, en ef þeir hefðu verið hérna í d., þá hefðu þeir vafalaust verið meðal þessara 40 líka. Ég fór að spyrjast fyrir um það á þeim stöðum, þar sem þeir vita um þessar skýrslur, hvort það væri einhver svona listi til. Hann er ekki til og hefur aldrei verið til og er algerlega óleyfilegt að vera að gefa upp nöfn manna og framtöl, þannig að þetta er bara skrök — ég vil ekki segja lygi úr hæstv. fjmrh. Ég veit ekki, hvað svona kúnstir eiga að þýða. Það, sem er spaugilegast af öllu, er, að Stefán Valgeirsson telur ekki fram sérstaklega, en er í félagsbúi við bróður sinn, það er bara talið fram búið á Auðbrekku, og ég veit ekki, hvort hæstv. fjmrh. þekkir beljurnar þeirra í sundur og rollurnar, þannig að hann geti sagt um, hvað hvor eigi. Þar að auki finnst mér þetta ekki koma Akraborginni við eða skipinu Tungenes. Það er alveg óskylt mál.

Ég ætla ekki að fara að telja fram fyrir einn eða neinn. Annars hef ég frekar fengið skammir fyrir að hafa of stórt bú en of lítið. En það er breytileg veðráttan og erfitt að gera öllum til hæfis. Það er rétt, að Hagstofan flokkaði bændur, en ekki eftir nöfnum, sem hefðu þessa og þessa bústærð. Ég sá þetta í einhverju riti, og ég efast ekkert um, að margir bændur á landinu séu stærri, og ég tel það heldur til heiðurs fyrir mig, því að ef ég væri að rembast við að vera stærsti bóndi á Íslandi, þá væri ég þrautbeimskur. Sannleikurinn er sá, að stórbændunum liður verr en meðalbændum, og það er ákaflega vitlaust að hafa allt of mikið fyrir lífinu og hafa svo e.t.v. ekkert upp úr því, þannig að þó að þetta ættu að vera skammir um mig, þá voru þetta engar skammir. En það er leiðinlegt, að sjálfur fjmrh. skuli vera að segja lygaögur hér uppi í pontu.

Svo er það alveg ykkar mál, hvernig þið greiðið atkv. með þessari vitleysu. Ég er búinn að segja, að ég get gjarnan verið með hæfilegri tölu af togurum. Það eru ekki líkur til, að það verði teknir nema tveir, og ég sé enga ástæðu til, að þingið sé að samþykkja ábyrgðarheimild fyrir 10, ef það eru ekki líkur til, að það verði keyptir núna nema tveir. Það á kannske að erfast sú heimild, þangað til næsta stjórn kemur, ég veit það ekki. Ég sé bara ekki ástæðu til þess að vera að samþykkja ábyrgð fyrir miklu fleiri togurum en á að kaupa. Eins og ég er búinn að taka fram, get ég gjarnan verið með Vestmannaeyjaskipinu. Það er ástæðulaust fyrir n. að vera að tvinna svona saman alveg óskylda hluti. En með þessa blessaða ferju, þá er þetta „tótal“ mál. Það er hægt að fá í Noregi 200 tonna ferju fyrir um 2 millj. kr. norskar eða um 30 millj. íslenskar, og það væri hæfileg snekkja fyrir Akurnesinga, þegar þeir vilja hætta við Akraborgina, sem engin ástæða er nú til, því að skipið er það gott að hafa fyrir skemmtisnekkju. Akurnesingar hafa vel efni á því að eiga svona 30 millj. kr. skemmtisnekkju eins og þjóðhöfðingjar gerðu, en þá þurfa þessir höfðingjar, sem standa að Skallagrími, ekki að vera að betla um neinn styrk hjá ríkinu til þess eða biðja um ríkisábyrgð. Þeir geta borgað þetta út, það ætti að vera auðvelt.