11.02.1974
Neðri deild: 60. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

93. mál, sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á fiskiskipum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég sagði nokkur orð um þetta mál, þegar það var hér til 1. umr., og það var af því tilefni, að ég hafði sem þátttakandi í störfum samstarfsn. samgöngumála fengið upplýsingar m.a. um þetta draumaskip Akurnesinga og þær upplýsingar voru næsta neikvæðar. Ég gerði grein fyrir því, sem út úr þessari athugun hafði komið. Hins vegar þótti mér það kynlegt, að ég hafði ekkert um þetta mál heyrt fyrr en tveimur dögum fyrir þennan nefndarfund í samgn., og var mér þá tjáð, að það mundi vera búið að ákveða kaup á þessu skipi og gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja því máli framgang í gegnum þingið. Mér þótti það kynlegt, að mínum þingflokki hafði engin vitneskja um þetta borist. Síðan kom þetta mál, eins og það var upphaflega lagt fyrir Ed., um sjálfskuldarábyrgð á lánum til kaupa á 10 fiskiskipum yfir 300 lestir. Þegar það mál fór til n. í hv. Ed., var skotið inn till. til viðbótar um, að sjálfskuldarábyrgðarlán fyrir allt að 80% af kaupverði ferjuskips til siglinga milli Akraness og Reykjavíkur kæmi inn í þetta frv. Þar fæddist það.

Það er búið að segja margt um það, hversu óþinglegt sé að skjóta öðru fjarskyldu og sjálfstæðu máli inn í annað í meðferð þingsins. Ég tek fyllilega undir það, og hefur hér verið upplýst, að hæstv. núv. forsrh. hafi fordæmt slíkt í fræðiriti, sem hann er höfundur að. En ekki nóg með það. Þetta er orðinn margfaldur neðanprjóningur. Það voru kallaðir neðanprjóningar, þegar prjónað var neðan við sokka. Þegar neðri hlutinn hafði slitnað nokkuð og þótti ekki ástæða til að endurnýja sokkinn allan, þá var hann neðanprjóningur. En hér er um tvöfaldan neðanprjóning að ræða, því að málið var ekki miklu lengra komið, þegar bætt var við sjálfskuldarábyrgð ríkisins fyrir enn öðru skipi, þ.e. Vestmannaeyjaferju. Þetta eru vitanlega með öllu óþingleg vinnubrögð. Þetta eru þrjú sjálfstæð mál og eiga að fara í gegnum þingið til skoðunar á þann veg.

Málið hafði ekki verið rætt í þingflokkum stjórnarliðsins mér vitanlega, og svo er því skotið inn svona. Það benti til þess og vakti strax tortryggni, að þarna væri verið að lauma máli inn á þingið, ekki með venjulegum hætti. Svo þegar málið kemur frá bv. Ed. hingað þá bregður svo við, að það mælir enginn fyrir frv., hvorki fyrir upprunalega málinu né viðbótinni. Hæstv. fjmrh. birtist ekki. Það jók á tortryggnina gagnvart málinu og spillti fyrir því. Enn fremur er það réttilega upplýst hér, að það voru gefnar mjög rangar og villandi upplýsingar um málið. Það náði t.d. ekki nokkurri átt, að rekstrarkostnaður slíks skips yrði ekkert meiri en Akraborgar, tvöfalt stærra skips. Olíunotkun átti ekki einu sinni að verða hlutfallslega meiri. Það er búið að hrekja þær tölur, sem þarna voru látnar uppi. Það var ekki farið samviskulega með að upplýsa málið, og það gerir það enn þá verra.

Umsögn lá fyrir frá Skipaútgerð ríkisins, forstjóra Skipaútgerðarinnar, Guðjóni Teitssyni, sem var vægast sagt mjög neikvæð. Þar var upplýst, að þetta væri fast að því 8 ára gamalt skip og stæði fyrir dyrum klössun á því. Enginn gat upplýst, hvað hún mundi kosta. Þetta væri skip, sem væri byggt sem innfjarðaferja í Noregi og hefði ekki haffærisskírteini nema ákveðnar vegalengdir frá landi. Þetta væri skip með geysilega mikla yfirbyggingu. Og svo mikið vit hef ég á sjómennsku, að leiðin milli Akraness og Reykjavíkur er ein af verri siglingaleiðum við strendur landsins, ávallt að heita má hliðarvindur, ýmist af hafi eða af Hvalfirði, og það er ekki fyrir hvaða kopp sem er að sigla daglega þessa leið.

Umsagnir lágu líka fyrir frá Siglingamálastofnun ríkisins, fyrst til bráðabirgða, frekar neikvæð. Ekki hafði verið haffærisskírteini í þessu skipi og ekki gefið fyrirheit um það nema með skilyrðum. (Gripið fram í.) Til þess að sigla því til Íslands. En þó að allt beri þarna að sama brunni, þá virðist svo sem hér tjói ekkert á móti að mæla, því að það sé búið á bak við tjöldin að ráða þessu máli til lykta. Og svo er Alþingi spurt á eftir. Það er ekkert af þessu gott.

Sannleikurinn er sá, mér líst ekki á þessi kaup og ekki á þetta skip eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um það frá þeim, sem hafa þar látið allt sitt í ljós, sem eru fyrst og fremst Skipaútgerð ríkisins og Siglingamálastofnunin. Síst af öllu líst mér á skipið eftir síðari Umsögn Siglingamálastofnunarinnar. Ég varð undrandi líka, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v., eftir að hæstv. fjmrh. hafði haldið hér ræðu um þetta mál, því að mér datt ekki annað í hug en að hann kæmi í ræðustól til að upplýsa um hinar jákvæðu, ágætu hliðar þessa máls, en ekki til þess að skylmast við flokksbróður sinn. En það voru eintómar skylmingar, bæði við hinn ágæta flokksbróður ráðh. og svo um ýmis atriði, sem eru óumdeild í þessu máli. Það var bardagi við vindmyllur. Það var langur kafli í ræðu hæstv. ráðh. um það, að það sýndist sitt hverjum um kaup á fiskiskipum. En í sambandi við þessa sjálfskuldarábyrgð, sem hér stóð til að veita gagnvart fiskiskipunum, hafði enginn maður verið með neinar sérstakar mótbárur og ekki gagnrýnt það á nokkurn hátt. Það þurfti enga varnarræðu um það.

Ég var alltaf að búast við því, að hæstv. ráðh. kæmi með upplýsingar um Akranesskipið, ferjuna. En það kom ekki orð um það. Og ég bíð enn eftir því að fá einhverjar lofsamlegri upplýsingar um þennan skipakost til þeirrar notkunar, sem hann á að vera, sem ferja, sem fer daglega milli Akraness og Reykjavíkur og flytur fólk og bíla. Ef ekki er hægt að segja neitt loflegt um þetta skip af þeim mönnum, sem vilja standa ábyrgir fyrir því, þá líst mér enn verr á allt málið, þennan þátt þess.

Ég verð að segja það, að það er að vísu nauðsynlegt fyrir Akurnesinga að hafa möguleika til sjóferðar milli Reykjavíkur og Akraneskaupstaðar. En það er ekki sama, hvernig það mál er leyst. Ef þeir gera það samkv. sinni eigin ákvörðun, þá taka þeir á sig ábyrgðina af því að bera kostnaðinn af kaupum og rekstri slíks skips. Það er einstætt, að kaupstaður í nágrenni Reykjavíkur fái nokkrar millj. kr. á ári til þess að sjá um fólksflutninga milli tveggja kaupstaða, það hefur enginn annar kaupstaður notið þess annar en Akranes. En ef það fer að verða margfaldur styrkur á við þau fjarlægari byggðarlög, sem fá flóabátastyrki til þess fyrst og fremst að flytja nauðsynjavörur til héraða og afurðir úr héruðum í kaupstað, þá er þar ólíku saman að jafna og ekki hægt að verja annað en fjarlægari staðirnir fái meiri aðstoð frá ríkinu til þeirrar þjónustu heldur en kaupstaðir rétt í nágrenni við höfuðborgina fá styrk til þess að flytja fólk. Það er að vísu meira en helmingi styttri leið milli Reykjavíkur og Keflavíkur, en Keflvíkingar fá ekki einn einasta eyri til þess að standa undir kostnaði af fólksflutningum milli þessara staða, og ætlast enginn til þess. En munurinn er ekki annar en að vegalengdin milli Akraness og Reykjavíkur er nokkru lengri. En þegar þetta nýja skip væri komið, helmingi stærra skip en Akraborgin er, þá óttast ég, að það yrði farið fram á margfaldan ríkisstyrk, sem væri í ósamræmi við allar aðrar fjárveitingar til sambærilegra hluta. En vonandi verð ég ekki sannspár um þetta.

Það er líka neikvæður flötur á málinu, að það skuli þurfa að gera dýr hafnarmannvirki bæði í Akraneshöfn og í Reykjavíkurhöfn, til þess að sá meginkostur skipsins notist, að hægt sé að aka bifreiðum úr skipinu á land og af landi í skipið. En það er nú eins og með annað, um þetta fást ekki neinar áreiðanlegar tölur, og ætti þó að vera búið að gera fullkomlega verkfræðilega könnun á þessu, því að á þessu byggist aðalkostur skipsins. Sumir segja, að þetta kosti bráðabirgðaaðgerðir hér í Reykjavíkurhöfn og á Akranesi fyrir 16 millj. kr., aðrir segja 100% hærra, 32 millj., en enginn virðist vita neitt um þetta. Það er ekki hægt að notfæra sér þessa kosti skipsins, sem gætu gefið því auknar tekjur með auknum bílaflutningi, fyrr en þessar breytingar á hafnaraðstöðunni hafa verið gerðar beggja vegna. Þangað til þessi mannvirki væru komin í Akraneshöfn og Reykjavíkurhöfn, yrði að hífa hvern bíl um borð eins og í Akraborgina, og það er fyrst þegar hægt er að aka þeim um borð, að þeir geta reiknað með bílflutningum sem einhverjum verulega auknum tekjustofni. Mér er sagt, að það liggi ekki á lausu hjá samgrn. að veita fé til umbóta í Reykjavíkurhöfn, það hafi aldrei verið gert, enda er Reykjavíkurhöfn með sérstöðu gagnvart öllum öðrum höfnum landsins um margs konar stórfenglega tekjumöguleika. Og að fara inn á þá braut að veita styrk til þess að gera þessar hafnarumbætur hér, svo að hinum yrði ekið um borð í þetta nýja skip, það væri hættulegt fordæmi, ég játa það. Hins vegar gætu Akurnesingar vafalaust, ef þeir teldu þetta brýnast allra sinna hafnarnauðsynja, varið 16 eða 30 millj, eða hvað það nú yrði til þessara umbóta í Akraneshöfn umfram aðrar aðgerðir, sem þar kalla að.

Ég óska eindregið eftir því, að hér séu gefnar upplýsingar um það, hvernig þetta skip er, hvaða sérfræðingar hafa skoðað það og að hvaða niðurstöðu þeir hafa komist um ágæti skipsins. Og ég vil fá vitneskju um það, hvort það er einróma álit slíkra fræðimanna, að þetta skip sé tilvalið til þessa hlutverks og teljist vera hagkvæmt að festa kaup á því í þessum tilgangi, sem ferjuskipi milli Reykjavíkur og Akraness. En ef allir þegja, ráðh. veitir ekki málinu þann styrk að fylgja því úr hlaði efnislega með öðru en skammaræðu um flokksbróður sinn, þá tel ég það vera sönnun þess, að málið sé ekki þess eðlis, að hægt sé að mæla fyrir því. Og ef þm. Vesturl. gera það ekki heldur, svo að gagni sé, að sýna fram á, að skipið sé að flestu leyti til þessara hluta fallið, þá skipti ég ekki um skoðun og greiði atkv. á móti þessum þætti málsins.

Ég viðurkenni, að þörfin fyrir Vestmannaeyjaskipið er mjög brýn, það ber að tengja eyjabyggðina í Vestmannaeyjum sem best við meginlandið, og það verður ekki gert nema með góðu ferjuskipi. En málið er mjög skammt á veg komið, og ég held, að það væri viturlegra að kljúfa það frá þessum margfalda neðanprjóningi og flytja um það sérstakt frv., fara þar þinglega að, allra helst þar sem það væri beint í framhaldi af þeirri þáltill., sem þm. Sunnl. hafa flutt. Ég held, að það sé alveg ástæðulaust að vera neitt að smygla því máli inn í þetta og það bæti síst fyrir framgangsmöguleikum þess. Þetta eru þrjú mál og á að flytja fyrir þinginu sem þrjú mál. En verði hér atkvgr. um einstaka liði þessa frv., þá hygg ég þó, að ég mundi greiða atkv. með Vestmannaeyjaskipinu, því að ég vil á engan hátt, að það sé tafið, að nauðsynlegur undirbúningur sé þar gerður. En betur hefði farið á því fyrir það góða mál, að undirbúningurinn hefði verið kominn lengra, áður en það var flutt sem þingmál til ákvörðunar. Við þurfum líka að vita, hvers konar skip þar eigi að kaupa, en um það liggur ekkert fyrir mér vitanlega.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta. Ég óska eftir því, að sem jákvæðastar upplýsingar fáist um það, hvaða kostum þetta væntanlega Akranesskip er búið. Þær upplýsingar, sem hingað til hafa legið fyrir, — þær hafa aðeins legið fyrir hjá samgn., — hafa ekki verið jákvæðar, hvorki frá Skipaútgerð ríkisins né frá Siglingamálastofnuninni, og á því ber þó að taka nokkurt mark.