12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2116 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

194. mál, fullorðinsmenntun

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Svar mitt við fsp. hv. 5. landsk, þm. er svo látandi:

Hinn 26. okt. 1971 skipaði menntmrn. n. til þess, eins og segir í skipunarbréfi, að „gera till. um, hvernig skipuleggja skuli fræðslustarfsemi fyrir fullorðna, er hafi m.a. að markmiði að veita kost á endurmenntun og gera kleift að ljúka prófum ýmissa skólastiga.“ Var n. ætlað, eins og enn fremur segir í skipunarbréfinu, að „skila till. í frv: formi svo fljótt sem við verður komið.“

Formaður n. var skipaður séra Guðmundur Sveinsson skólastjóri, en aðrir nm. voru Stefán Ögmundsson prentari, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, dr. Matthías Jónasson prófessor, tilnefndur af háskólaráði, frú Sigríður Thorlacius formaður Kvenfélagasambands Íslands, tilnefnd af Kvenfélagasambandinu, Andrés Björnsson útvarpsstjóri, tilnefndur af Ríkisútvarpinu, Gunnar Grímsson starfsmannastjóri, tilnefndur af Sambandi ísl. samvinnufélaga og Jónas B. Jónsson fræðslustjóri, tilnefndur af Reykjavíkurborg. N. hóf þegar störf og hefur starfað síðan og haldið fundi næstum reglulega. Sú breyting varð á skipan n. seint á árinu 1973, að Jónas B. Jónsson lét af störfum, en Reykjavíkurborg tilnefndi í hans stað Ragnar Georgsson skólafulltrúa.

N. hóf störf sín með víðtækri gagnasöfnun og heimildakönnun. Hefur n. kannað ítarlega skipun fullorðinsfræðslu í nágrannalöndunum, alveg sérstaklega í Svíþjóð, þar sem fullorðinsfræðslan er margbreytilegust og viðamest, í Noregi, þar sem á þriðja ár hefur verið unnið að því að semja frv. um heildarskipun fullorðinsfræðslunnar, og í Danmörku, þar sem fullorðinsfræðslan er dreifð, bæði í framkvæmd og lagasetningu, loks í Finnlandi, þar sem á síðustu árum hafa verið samþykkt margs konar sérlög, sem snerta fullorðinsfræðslu meira og minna. Þá hefur n. einnig kannað gögn um fullorðinsfræðslu í Bretlandi og Þýskalandi. N. viðaði að sér gögnum frá Evrópuráðinu, bókum, ritum og greinargerðum, en Evrópuráðið hefur mjög látið fræðslu fullorðinna til sín taka, svo og nýtt menntakerfi, ævimenntun, sem ætlað er að fella saman í eina heild hið hefðbundna skólakerfi annars vegar og fræðslu fullorðinna hins vegar, en hún verður þannig annar þáttur ævimenntunarinnar. Þá voru og fengnar skýrslur um hinar þrjár ráðstefnur UNESCO, Menningar- og fræðslustofnunar Sameinuðu þjóðanna, um fullorðinsfræðslu í Helsingör 1949, í Montreal 1960 og í Tokyo 1972. Einkanlega var ítarlega fjallað um skýrslu hinnar síðustu ráðstefnu, svo og könnuð gögn, sem send höfðu verið frá hinum ýmsu þjóðum samtakanna til að vera grundvöllur og forsenda umræðna á ráðstefnunni. Þá var notið margvíslegrar fyrirgreiðslu frá Sekretariatet for nordisk kulturelt samarbejde í Khöfn. Í sept. 1972 var fyrir forgöngu embættismannanefndar SNK sett á stofn Styringsgrubbe for voksenundervisning í Norden, og var formaður íslensku fullorðinsfræðslunefndarinnar Guðmundur Sveinsson, tilnefndur í n. sem fulltrúi Íslands. N. hefur sérstaklega fengið til úrlausnar tvö verkefni. Annað lýtur að tilraun með nýja kennsluhætti í fullorðinsfræðslu, hitt er gagnasöfnun um fræðslu fullorðinna á Norðurlöndum. Hið síðara verkefni snertir sérstaklega störf fullorðinsfræðslunefndarinnar íslensku. Gagnasöfnunin hefur nú staðið yfir á annað ár, og er henni að mestu lokið. Er þar mikinn fróðleik að fá um alla skipan fullorðinsfræðslu á Norðurlöndum, svo og reglur, er gilda nú um framkvæmd fullorðinsfræðslunnar og fjárframlög til hennar.

Í júnímánuði 1973 hafði fullorðinsfræðslunefndin lokið við að semja fyrstu drög að frv. til l. um fullorðinsfræðslu á Íslandi. Drög þessi voru síðan í byrjun júlímánaðar það ár send 28 aðilum til umsagnar og óskað eftir umsögnum og ábendingum varðandi drögin. Þessir 28 aðilar voru þannig valdir:

1. 10 aðilar hins hefðbundna skólakerfis.

2. 9 aðilar, er tengjast vinnumarkaðinum, atvinnuvegum landsmanna.

3. 9. aðilar frjálsra félagasamtaka, er hafa bæði menningar- og fræðslumál á stefnuskrá sinni. N. lét þá ósk í ljós, að svör hefðu borist í síðasta lagi um miðjan sept., enda ætlunin að halda síðar fundi með þeim aðilum, sem frv.-drögin fengu til umsagnar. Illa gekk þó að heimta svör, og um miðjan sept. höfðu aðeins svör borist frá 10 aðilum af 28. Engu að síður var í okt. tekið til við að halda boðaða fundi með hinum 28 aðilum. Voru 3 slíkir fundir haldnir, einn með hverjum hópi: a) fulltrúum hins hefðbundna skólakerfis, b) fulltrúum vinnumarkaðarins, c) fulltrúum frjálsra félagasamtaka. Eftir umrædd fundahöld og að fengnum margvíslegum ábendingum tók fullorðinsfræðslunefndin til við að endursemja frv. að lögum um fullorðinsfræðslu. Urðu þannig til „drög 2“ að slíku frv. Þau rök voru síðan rædd ítarlega á fundum n. og kom í ljós nokkur skoðanaágreiningur í n. um ýmis ákvæði og atriði. Voru þó allir nm. sammála um, að þann skoðanaágreining yrði að jafna og finna frv. það form og framsetningu, er allir gætu sameinast um. Hefur þessu marki nú verið náð og hin þriðju drög n. fullgerð. Er þess því að vænta, að endanlegri samningu frv. verði lokið og n. skili því til rn. bráðlega. Og fyrir mitt leyti vona ég fastlega, að frv. þetta komi til álita þess þings, sem nú situr.