12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2118 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

405. mál, nýskipan iðnfræðslu og tæknimenntunar

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Í byrjun des. 1972 svaraði hæstv. menntmrh. í Sþ. fsp., sem ég bar fram þess efnis, hvaða ráðstafanir ríkisstj. hefði í undirbúningi til að efla iðnfræðsluna. Í brtt. minni fyrir fsp, benti ég á, að reynsla annarra þjóða benti ótvírætt til þess, að blómlegur iðnaður byggðist framar öðru á þekkingu og verkkunnáttu, því þyrfti á næstu árum að gera meiri háttar ráðstafanir til að auka verkmenntunina á sviði margvíslegra iðngreina. Vel mætti vera, að til þess að ná þessu marki þyrfti að gera róttækar breytingar á skólakerfinu. T.d. væri það mjög mikilvægt, að iðnnámi yrði ekki skipaður óvirðulegri sess í skólakerfinu en menntaskólanámi. E.t.v. ætti að steypa menntaskólum og iðnskólum saman, eins og Norðmenn stefndu að með nýrri skólalöggjöf. Það kom fram í svari hæstv. menntmrh. við þessari fsp. minni, að hann hyggðist skipa tvær nefndir til að vinna að undirbúningi þessara mála, aðra undir forustu Guðmundar Einarssonar verkfræðings, sem fjallaði um endurskoðun iðnfræðslulöggjafarinnar, og hina undir forustu Sveinbjörns Björnssonar eðlisfræðings, sem fjallaði um stofnun tækniháskóla. Fsp. mín nú er borin fram til að fá upplýsingar um störf þessara n. og hvenær megi vænta till. þeirra.