12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2122 í B-deild Alþingistíðinda. (1895)

406. mál, kennsla í fjölmiðlun í Háskóla Íslands

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 8. landsk. þm. er því að svara, að meðferð þessa máls er því miður stutt á veg komin. Skammt er síðan menntmrh. sendi Háskóla Íslands þál. til athugunar og óskaði till. um, hvernig haga skuli könnun þeirri, sem um ræðir í ályktuninni. Ljóst er, að þörf fyrir skipulega kennslu til undirbúnings störfum á sviði fjölmiðlunar fer vasandi hér á landi, og er engan veginn fráleitt að hugsa sér, að slíkt nám verði með einhverjum hætti á vegum Háskóla Íslands.

Ég tel hins vegar rétt að minna á, að margt kallar nú að í senn að því er varðar hugsanlegar nýjar námsbrautir í Háskóla Íslands. Þannig má nefna, að starfandi eru nefndir til að athuga nám fyrir starfsfólk í matvælaiðnaði, félagsráðgjafa og sjúkraþjálfa; fjallað er um frambúðarskipan námsbrautar í hjúkrunarfræðum, og Alþ. hefur nýlega veitt fé til kennslu í haffræði. Með þessu er engan veginn látið að því liggja, að kennsla í fjölmiðlun sé síður nauðsynleg en ýmis önnur starfsmenntun, sem vakið hefur verið máls á að undanförnu, að koma þurfi á laggirnar, heldur einungis á það bent, að margar þarfir eru ófylltar á þessu sviði og þess vart að vænta, að unnt verði að fullnægja þeim öllum í senn. Skilyrði til að stofna til kennslu í fjölmiðlum munu að sjálfsögðu verða könnuð rækilega, eins og að er stefnt með ályktun Alþingis.