12.02.1974
Sameinað þing: 53. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2127 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

203. mál, úthlutun viðbótarritlauna

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Ég mun lesa liðina í fsp. hv. 2. þm. Norðurl. e. og síðan svör mín við hverjum lið um sig:

„1. Hvað er áætlað, að söluskattur af bókum hafi numið miklu árin 1970, 1971 og 1972?“ Svar: Samkv. upplýsingum hagrannsóknadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins er talið, að söluskattur af bókum, frumsömdum á íslensku, árið 1972 hafi numið því sem næst 21.7 millj. kr. Séu þýddar bækur taldar með, er skatturinn talinn nema um 38.3 millj. kr. Eigi liggja fyrir upplýsingar um söluskatt af bókum árin 1970 og 1971.

„2. Hvaða ástæður lágu til þess, að úthlutun fjár samkv. 102 999 61 í fjárl. fyrir árið 1973 var látin ná til þriggja ára, en ekki eins?“

Svar: Umrætt fjárlagaákvæði hljóðar þannig: „Til íslenskra rithöfunda og höfunda fræðirita vegna útgáfu frumsaminna verka, enda verði settar sérstakar reglur um úthlutun fjárins, 12 millj. kr.“

Eins og orðalag þetta ber með sér, eru engin ártöl tiltekin í fjárlagagr., heldur skuli úthlutun fjárins fara fram eftir sérstökum reglum. Fjárlagaákvæði þetta er í samræmi við ákvæði þál. frá 18. maí 1972, þar sem gert er ráð fyrir, að fjárhæðinni verði skipt eftir reglum, sem samdar verði í samráði við Rithöfundasamband Íslands og félög rithöfunda.

„3. Verður miðað einvörðungu við árið 1973 við úthlutun fjárins í ár, eða verður höfundum gefinn kostur á að sækja um viðbótarritlaun vegna bóka útgefinna 1972?“

Svar: Reglur þær, sem úthlutað var eftir á s.l. ári, eru eingöngu bundnar við úthlutun fjárveifingar í fjárl. fyrir árið 1973, en n. vinnur að því að semja varanlegar reglur um úthlutun þessara fjárveitinga framvegis.