12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2132 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

166. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Flm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 245 hef ég leyft mér að leggja fram ásamt 10 öðrum þm. Framsfl. till. til þál. um næsta áfanga í rafvæðingu dreifbýlisins. Er gert ráð fyrir því, að þessi áfangi taki við, þegar þeim er lokið, sem nú stendur yfir.

Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. segir svo, með leyfi forseta:

„Að ljúka innan þriggja ára rafvæðingu allra þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið, að fái raforku frá samveitum. Hinum, sem tryggja verður raforku með einkavatnsaflsstöðvum og dísilstöðvum, verði veitt aukin opinber aðstoð.“

Ég lagði fram á þingi haustið 1971 fsp. um framkvæmd þessa atriðis, og var henni svarað með því að leggja fram tillögur að þriggja ára áætlun um lúkningu sveitarafvæðingar, sem allir hv. þm. hafa því fengið. Í þessari þriggja ára áætlun er gert ákaflega myndarlegt átak til þess að koma þessum mikilvægu málum nokkuð áfram. Þegar þetta tímabil hófst, var talið, að 930 býli á landinu nytu ekki raforku frá sveitum, en í þessari þriggja ára áætlun er hins vegar gert ráð fyrir því, að 765 býli hljóti slíka tengingu. Þá yrðu 165 býli eftir, en í þeim kafla þessaráætlunar, þar sem þau býli eru upp talin, sem ekki eru með í áætluninni, eru aðeins talin 158, svo að þar munar örfáum býlum.

Í áætluninni var gert ráð fyrir því, að kostnaður við þessa framkvæmd yrði samtals 291 millj. 244 þús. kr. Að sjálfsögðu hefur þessi kostnaður hækkað mjög verulega. Hefur nýlega verið upplýst hér á Alþ., að hann muni verða eitthvað í kringum 400 millj.

Framkvæmd þessarar áætlunar hefur eftir atvikum gengið vel og gekk ágætlega fyrsta árið. Rétt er það hins vegar, að á öðru ári áætlunarinnar, þ.e.a.s. á s.l. sumri, varð nokkur dráttur á ýmsum framkvæmdum. Hefur komið í ljós og m.a. í svörum við fsp. hér á Alþ., að þessi dráttur stafar fyrst og fremst af lengri afgreiðslufresti á efni til þessara framkvæmda og skorti á vinnuafli. Hins vegar hefur verið lögð áhersla á, að staðið verði við þessa áætlun og leitast við að ljúka henni á yfirstandandi ári. Það er að mínu viti mikilvægast, að hvergi verði brugðið út af þeirri áætlun, sem þarna er lögð fram, að hvergi verði brugðið út af þeim loforðum, sem einstökum mönnum, einstökum íbúum landsins, hafa verið veitt um þessi mikilvægu fríðindi. Á það hefur verið lögð áhersla, og á það treystum við.

Samkv. áætlun yfir þau 158 býli, sem eftir verða, þegar þessari þriggja ára framkvæmd er lokið, var kostnaður við tengingu þeirra talinn árið 1971 133 millj. 204 þús. Fjarlægð og meðalfjarlægð á milli þessara býla er ákaflega breytileg, allt frá 3 km. sem er talin hámarksmeðalfjarlægð í núverandi áætlun, og upp í 20 km eða meira. Nú er það ljóst, að mörg af þessum 158 býlum hafa annaðhvort fengið raforku eða hafa raforku frá hentugum vatnsaflsstöðvum og kjósa e.t.v. ekki af þeim sökum að tengjast samveitum, nokkur hafa farið í eyði, og nokkrum býlum hefur tekist að fá bætt við þá framkvæmd, sem nú stendur yfir, við nánari endurskoðun á fjarlægðum og kostnaði. Svo er t.d. um nokkur býli við Djúp, í Norður-Ísafjarðarsýslu, svo að eitthvað sé nefnt. Þessi fjöldi mun því vera eitthvað minni en er upp talið. Ég hef farið nokkuð vandlega yfir þetta með starfsmanni Orkustofnunar, en það þarf þó að skoða nánar.

Nú má ætla með tilvísun til málefnasamnings ríkisstj., að á þeim tíma, þ.e.a.s. á árinu 1971, hafi verið talið þjóðhagslega hagkvæmt að tengja þau býli, sem tekin voru inn í þessa áætlun, þ.e.a.s. 765 býli, sem hafa meðalfjarlægð um 3 km og 600 þús. kr. kostnað. Staðreyndin er vitanlega sú, að nú hafa þessar forsendur gerbreyst. Þær hafa t.d. breyst vegna mikillar hækkunar á olíuverði, sem mjög er um talað nú. Meðalnotkun á meðalbýli, hygg ég, að sé um 8000–9000 lítrar á ári til upphitunar og um 4000 lítrar til dísilrafstöðvar, eða um 12–13 þús. lítrar samtals. Miðað við verð kr. 12.35 á hvern lítra, sem talið er líklegt, að yrði kostnaður slíks býlis um 150–160 þús. kr. vegna olíukaupa, og er þá ekki talinn ýmis annar kostnaður við dísilvél, eins og viðhald, sem iðulega er nokkuð mikill. Þarna er um mjög verulegan kostnaðarauka að ræða og langtum meiri en var árið 1971. Ég hygg, að ekki sé ofsagt, að þarna sé a.m.k. um 100 þús. kr. viðbótarkostnað fyrir meðalbýli að tefla. Ég vil leggja áherslu á, að ég er þeirrar skoðunar, að skoða beri aðra þætti en ef við lítum eingöngu á hagkvæmni þessarar framkvæmdar fyrir þjóðarbúið, má auka þessa fjarlægð, meðalfjarlægð, úr 3 km allverulega og um leið meðalkostnað á hvert býli.

Í þeirri þáltill., sem hér er sett fram, er gert ráð fyrir a.m.k. 6 km meðalfjarlægð og samsvarandi kostnaði. Miðað við árið 1971, þann grundvöll. sem þá var, og verðlag, hefði kostnaður orðið um 1 millj. 100 þús. kr. fyrir 6 km línu. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef nýlega fengið frá Orkustofnun, yrði sá kostnaður nú um það bil 1.8 millj. kr., og er það, eins og vænta má, nokkurn veginn tvöfaldur sá kostnaður, sem hefur reynst vera við 3 km línu. Þarna er því um 900 þús. kr. viðbótar kostnað að ræða og þó raunar nokkru minna, því kostnaður við spenni er að sjálfsögðu hinn sami, þótt línan verði lengri. Vextir af þessum viðbótarkostnaði, ef við lítum á þetta tölulega, yrðu því í kringum 90 þús. kr., og ætti þessi framkvæmd vel að réttlætast af þeim mikla aukakostnaði, sem bændur hafa af olíukaupum og er örugglega yfir 100 þús. kr.

En eins og ég sagði áður, ber jafnframt að lita á ýmsa aðra þætti þessa máls heldur en eingöngu hið kostnaðarlega. Það eru satt að mannréttindi að veita íbúum þessa lands þá þjónustu, sem við teljum svo sjálfsagða, þ.e.a.s. rafmagn frá sveitum. Því fylgir að sjálfsögðu ýmiss konar hagræði, ekki aðeins í upphitun, ljósum og þess háttar, heldur í öllum búskap og húshaldi.

Ég hef áætlað heildarkostnað nú við að tengja þessi býli, sem yrðu 131 með 6 km meðalfjarlægð eða minna, um 151 millj. 573 þús. kr. Þetta hefði á grundvelli 1971 orðið 94 millj. 733 þús. kr. Með því móti yrði meðalkostnaður nú um 1 millj. 157 þús. kr. á hvert býli. Ég held, að öllum megi vera ljóst, að þessi upphæð, 151 millj., er smámunir einir í hinum stóru framkvæmdum þjóðarbúsins, og þegar á það er litið, að hér er um slíkt mannréttindamál að ræða, vaknar að sjálfsögðu sú spurning, hvort ekki eigi að ganga lengra og taka fleiri býli með lengri meðalfjarlægð. Þetta sýnist mér sjálfsagt, að sú n., sem fær málið til athugunar, kanni. Okkur þótti rétt að sníða okkur nokkuð stakk eftir vexti. Deila má um það, hvort rétt er að leggja rafmagnslínu til býla, sem eru með stórum meiri meðalfjarlægð, e.t.v. 10–12 km. E.t.v. er skynsamlegra að leysa þeirra raforkumál á annan veg, t.d. með því, að Rafmagnsveitur ríkisins beinlínis reki dísilstöðvar fyrir slík býli. Eftir yrðu samkv. skránni 27 býli. En eftir því sem ég kemst næst, þegar ég hef dregið frá þau býli, sem annaðhvort hafa farið í eyði eða hafa vatnsaflsstöðvar, sem að öllum líkindum eru fullnægjandi, yrðu býlin í kringum 20. e.t.v. 23–24. Gert er ráð fyrir því í síðustu mgr. till., að jafnframt yrðu lagðar fram till. um viðunandi lausn raforkumála þeirra býla, sem hafa ekki verið tengd samveitu að áætlunartímabilinu loknu, og um jöfnun á raforkuverði.

Í þessari till. er jafnframt lögð áhersla á það í lið 2, að fjarlægari býli innan sveitarfélags verði látin njóta meðalfjarlægðar. Framkvæmd hefur verið nokkuð breytileg að þessu leyti. Því miður eru mörg tilfelli þannig, að hin ágætustu býli hafa verið skilin eftir, þótt meðalfjarlægð innan viðkomandi sveitarfélags hefði að þeim meðtöldum orðið vel innan við 3 km. Svo virðist sem þetta séu einkum býli, sem eru á enda línu. Ef þau eru inni á línunni, ræður hins vegar að sjálfsögðu meðalfjarlægð.

Mörgum hefur þótt þarna vera sýnd vafasöm framkvæmd og ekki réttlát. Því þótti okkur flm. rétt að taka af allan vafa um þetta atriði með 3. lið till. Þar er fram tekið, að býli, sem í gildandi áætlun hafa verið skilin eftir vegna fjarlægðar, þrátt fyrir það að meðalfjarlægð innan sveitarfélagsins hefði orðið innan við 3 km. skuli tengd samveitunni í fyrsta áfanga hinnar nýju áætlunar, sé þess óskað. Við viljum með þessu leggja áherslu á, að lagfært verði það, sem ég hef nú lýst og mörgum sýnist ákaflega vafasamt í framkvæmd rafvæðingaráætlunarinnar.

Við segjum í upphafi till., að ríkisstj. beri að vinna slíka áætlun og leggja fram á Alþ. haustið 1974 tveggja ára áætlun um áframhaldandi rafvæðingu dreifbýlisins. Mér sýnist mikilvægt, að bændur fái að sjá, hvað þeim er ætlað á þessu mikilvæga sviði, og því rétt, að slík áætlun sé opinber gerð með því að leggja hana fram á Alþ., þar sem alþm. geta jafnframt komið fram aths. við áætlunina, ef þeim sýnist þess þörf.

Ég hygg, að þetta mál sé þm. öllum vel kunnugt, auk þess er það rakið nokkuð ítarlega í grg., þannig að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð.

Ég vil aðeins að lokum leggja áherslu á þær meginforsendur fyrir þessari till., að forsendur eru allar breyttar frá því, sem þær voru, þegar núv. þriggja ára áætlun var gerð. Því má alls ekki líta svo á, að með þeirri þriggja ára áætlun sé fullnægt ákvæðum málefnasamningsins um rafvæðingu þeirra bújarða í sveitum, sem hagkvæmt er talið, að fái raforku frá samveitum. Þetta verður að endurskoða. Auk þess er hér um slíkt mannréttindamál að ræða, að þjóðfélaginu ber að teygja sig eins langt á þessu sviði og frekast er kostur.

Ég vil svo að lokum leggja til. að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.