12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

166. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tek mjög undir það, að veruleg ástæða er til þess að auka þá meðalfjarlægð, sem er tilskilin á milli býla, til þess að þau verði tengd samveitum. Þetta er að sjálfsögðu mikið mannréttindamál, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það, hvaða aðstöðumunur er í þeim sveitum, sem búa við rafmagn, og þeim býlum, sem hafa rafmagn, og annars staðar, þar sem sú tækni hefur komið til. Ég sé hins vegar ástæðu til að segja nokkur orð um þetta mál.

M.a. þótti mér undarlegt að heyra það hjá hv. 1. þm. Vestf., að aldrei hafi verið brugðið út af loforðum við einstaklinga, einstaka menn, en svo var á honum að heyra, í sambandi við loforð um að tengja einstök býli við samveitur. Það er nú svo í heilum sveitum, eins og í Þistilfirðinum, að þar hefur ekki verið staðið við það, að rafmagnið kæmi, þótt því hafi verið lofað fyrir nærri því ári eða við skulum segja 7–8 mánuðum, að rafmagnið kæmi í byggðina. Ég held, að það sé nú einnig nauðsynlegt í þessu sambandi að huga að því, að við leggjum ekki fleiri línur milli Sauðárkróks og Akureyrar. Ástandið er nú þannig í Norður-Þingeyjarsýslu, að menn þar hafa sótt um að fá að nota þær rafmagnslínur, sem búið er að senda heim á bæina, þeir hafa kostað um 220 þús. kr. upp á þetta, en þeir fá ekki svar frá Rafmagnsveitum ríkisins um það, hvort þeir fái rafmagn samkv. markafltaxta til súgþurrkunar og til húshitunar. Svo þegar maður spyrst fyrir um það hjá Rafmagnsveitunum, hvað liði því, að þessu sé svarað, þá er sagt, að það sé ekkert rafmagn til, það sé auðvitað ekki hægt að selja bændunum það, sem sé ekki til.

Ég spurðist fyrir um það, þegar þessi mál voru til umr. í Ed. fyrir skömmu, hvort hið opinbera mundi gera ráðstafanir til þess, að þeir, sem sæktu um rafmagnshitun á næstu árum, fengju hana. Ég fékk engin viðhlítandi svör við því. Það er hægt að tala um það og hægt að slá á það með þeim reiknistokki, að frekari rafvæðing dreifbýlisins kosti 151 millj. og — til að hafa það nákvæmt — 573 þús. kr., það er best að vera nákvæmur, en taka svo ekki inn í dæmið, að stjórnvöld hafa algerlega svikist um þá frumskyldu sína að sjá um, að það sé til sæmilega ódýrt rafmagn í landinu.

Á s.l. árum hafa þeir menn, sem bera ábyrgð á stjórn landsins, fellt hverja till. af annarri um frekari virkjunarrannsóknir, m.a. í Kröflu í Suður-Þingeyjarsýslu, og af því súpa menn seyðið núna. Það er verið að lofa okkur því, að úr þessu verði bætt með því, að það eigi að bora svo og svo margar holur á árinu 1975. Ég hef spurt hæstv. iðnrh. að því tvívegis, með hvaða bor eigi að bora. Það er enginn bor til í landinu til að bora með. Sá eini bor, sem er hægt að nota til þess arna, gufuborinn, verður á þessum tíma notaður á Suðurnesjum, eftir því sem ég veit best, algerlega upptekinn allt árið. Og það hafa ekki, svo mér sé kunnugt um, verið gerðar ráðstafanir til þess að fá annan bor í staðinn. Þannig er nú staðið að þessum málum, þó að ég að vísu viðurkenni, og það er rétt, að nú er verið að kaupa frá Englandi dísilrafstöð, sem mun kosta uppsett eitthvað um 70–80 millj. kr., eftir því sem ég veit best, og rekstrartapið á þessari dísilrafstöð mun nema tugum millj. kr. á ári til viðbótar því tapi, sem hefur verið á Laxárvirkjun á s.l. ári, sem var svo mikið, að þriðja hver kr. af brúttótekjum virkjunarinnar fór í olíukaup.

Ég tek undir allt það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um nauðsyn þess að halda áfram rafvæðingu dreifbýlisins. En ég óska eftir því og legg áherslu á, að það á að byrja á því að virkja. Það hefur verið allsherjardráttur á því í landinu nú undanfarið, að það sé virkjað, og í sumum tilfellum er ekki einu sinni svarað bréfum um frekari virkjanir. Mér skilst á hæstv. orkumrh., — það er leiðinlegt, að hann skuli ekki vera hér við, — það er ekkert gaman að tala um þessi mál við hv. 1. þm. Vestf., hann talar þannig, þegar hann er í frumræðunum, eins og þurfi að laga ýmislegt, en ef maður fer aðeins að impra á því við bann, hvað sé að, þá hleypur hann til og segir, að þetta sé allt í besta lagi. Samt er hann alltaf að flytja till. um þessi mál, og stundum segir hann, að það sé ekki vanþörf á því að flytja till. um þetta. En ástandið er nú þannig fyrir norðan núna, rétt þessa stundina, að til stórkostlegrar skömmtunar hefur komið á rafmagni, og við megum þakka fyrir, að skömmtunin skyldi ekki hafa komið fyrr.

Á s.l. vetri samþykkti stjórn Rafveitu Akureyrar að fela framkvæmdastjóra sínum að athuga um kaup á heimilisrafstöðvum fyrir menn, sem kynda hús sín með raforku uppi á Brekkunni á Akureyri, til þess að þau eyðilegðust ekki, þegar virkjanirnar brygðust nú í vetur. Við skulum vona, að rafmagnsskömmtun núna verði ekki svo lengi, að húsin verði í hættu. Við skulum líka vona, að þær bráðabirgðaráðstafanir, sem mennirnir, sem voru að byggja hús sín í Þistilfirðinum og var lofað rafmagninu á s.l. sumri og fengu ekki, gerðu á þessu ári til þess að hita upp sín hús, verði nægilegar, þótt svo að Rafmagnsveitur ríkisins hafi ekki staðið við þær skuldbindingar, sem þær höfðu í því efni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ástæðan til þess, að ég stóð upp, var bara þessi, að það þýðir ekkert að sigla Bjarna Sæmundssyni norður, ef eitthvað fer úr skorðum, hann framleiðir ekki nægilega raforku fyrir alla Akureyri eða allt Norðausturland. Það þarf meira til að koma. En byrjunin á þessu á náttúrlega að vera sú, að við eigum að nýta okkar innlendu orkulindir, og við eigum að reyna að skapa rafmagn með ódýrari hætti. Það má nefna fjölmargar leiðir til þess. Ég nefni aðeins núna það, sem mér dettur í hug í augnablikinu, virkjun Svartár í Skagafirði, virkjun Sandár í Þistilfirði, og einnig er nauðsynlegt, að menn athugi ýmsa aðra möguleika. Ég veit t.d., að ýmsir menn á Norðurlandi hafa haft mikinn áhuga á því að athuga, hvort ekki muni vera einhver grundvöllur fyrir einhvers konar stíflu í Laxá, þótt svo að fram að þessu hafi ekki fengist nein lausn á því máli. En þetta er kjarni málsins. Svo þegar við erum búnir að koma raforkuframleiðslunni í sæmilegt horf, skulum við halda áfram að leggja línurnar.

Það er rétt, að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Hér er talað um, að framkvæmdir eftir þessari till. eigi að hefjast vorið 1975. Ég geri ráð fyrir, að á þeim tíma verði komin önnur ríkisstj. í landið, þannig að það Sé einhver von til, að bjartara verði fram undan á þeim tíma. Ég held því, að það sé allt í lagi að lofa þessu, að samþykkja, að þetta verði gert. Þá verða við stjórnartaumana menn, sem hafa áræði og eru ákveðnir í því að nota innlendu fallvötnin til þess að búa til rafmagn, og menn, sem skilja, að það þarf að hafa tímann fyrir sér, þegar ráðist er í stórvirkjanir eða smávirkjanir, og það getur líka verið gott stundum að hafa litlu virkjanirnar. Það er rétt, stóru virkjanirnar eru stundum hagkvæmari, en það er líka rétt, að við megum ekki gleyma því, sem heimamenn segja, að við eigum að taka tillit til þeirra óska, og við eigum líka að virkja litlu árnar, þar sem það er hentugt og þar sem, eins og t.d. í Þistilfirðinum, allar rannsóknir liggja fyrir og mundu bægja frá miklum voða.

Það er hálfundarlegt að vita til þess, eins og ástandið er núna, t.d. á Þórshöfn. Nú bíða þeir eftir því að fá samtengingu við Laxárvirkjunarsvæðið, við vatnsvirkjunina. Og hvað er það svo, sem þeir eru að kaupa með þessu? Eru þeir að kaupa meira rafmagn, eða verða þeir eitthvað betur settir eftir en áður? Nei, þeir verða miklu verr settir, vegna þess að eins og sakir standa hafa þeir nóg rafmagn í dísilrafstöðvunum, sem þar eru, en nú óttast þeir það mjög, þegar þeir koma inn í kerfið, að það verði farið að taka rafmagnið burt frá þeim til þess að bjarga frá bráðum voða annars staðar til ómælanlegs tjóns fyrir frystihúsið á staðnum og menn, sem þar búa. Ástandið er orðið þannig, og þetta liggur raunar fyrir. Og svo er víðar. Það er ekki þetta, sem við meinum, þegar við tölum um að tengja saman landið, að ástandið skuli versna í smáplássunum. En þannig er þetta nú.