12.02.1974
Sameinað þing: 55. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2147 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

185. mál, heyrnarskemmdir af völdum hávaða í samkomuhúsum

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur 5 þm. að flytja þá litlu þáltill., sem hér er á dagskrá og prentuð er á þskj. 332. Flm. auk mín eru þeir Oddur Ólafsson, Geir Gunnarsson, Jón Árm. Héðinsson og Karvel Pálmason.

Till. er um varnir gegn heilsutjóni og heyrnarskemmdum af völdum hávaða í samkomubúsum og er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj, að láta rannsaka, hvort heilsutjón og heyrnarskemmdir geti orsakast af hávaða frá hljóðfærum danshljómsveita á skemmtistöðum. Komi í ljós við slíkar rannsólmir, að þessi hávaði sé heilsuspillandi, skal ríkisstj. leggja fyrir Alþingi frv. til laga um varnir gegn hávaðamengun á skemmtistöðum.“

Fyrir allmörgum árum fór að bera á því, að danshljómsveitir þær, sem atvinnu hafa af því að leika fyrir dansi, fóru að tengja hljóðfæri sín við rafknúna magnara til þess að hækka tónana og koma þeim betur til skila út í danssalinn. Þetta byrjaði nokkuð hóflega, en brátt fór að sækja í það horf, að glymskrattar þessir gerðust ærið áleitnir. Svo virðist sem mörgum unglingum láti þessi mikli hávaði allvel í eyrum. Þó er víst, að ýmsir þola þetta ekki vel. Stundum er hávaði þessi svo mikill, að loftið titrar og veggir nötra, þegar hinar sterku hljóðbylgjur brotna á þeim. Ekki er hægt við slík skilyrði að tala saman. Ef roskið fólk kemur á slíkar samkomur, þolir það flest illa slíkan ódæmahávaða, og þykist ég hafa tekið eftir því, að sífellt fækkar því fullorðna fólki, sem sækir þær samkomur, þar sem von er á þessum mikla hávaða.

Ég hygg, að eitt af því, sem Öryggiseftirlit á vinnustöðvum telur sér skylt að athuga, sé hávaði frá vinnuvélum og að koma í veg fyrir heilsutjón og heyrnarskemmdir af slíku, með því að reglur eru settar um það, að skylt sé að láta menn hafa heyrnarhlífar, og með ýmsum öðrum ráðstöfunum. Get ég nefnt dæmi, af því að mér er þar um kunnugt, að við ýmsa þætti heyvinnu á bændabýlum er nauðsynlegt að láta menn hafa slíkar heyrnarhlífar vegna hávaða frá vinnuvélunum, annars væri heyrn manna hætta búin. Svo er einnig um vinnu með flestum ræktunarvélum, vinnuvélum við vegagerð og þess háttar, hvað á þá við vélavinnu, sem fram fer í húsum inni, svo sem á trésmíðaverkstæðum og ýmsum öðrum vinnustöðum. Hins vegar er hávaðinn í samkomuhúsunum látinn afskiptalaus enn sem komið er. En þar þarf hið fyrsta að gera á breytingu, og til þess að vekja athygli á því er till. þessi flutt, ef verða mætti til þess, að Alþingi léti frá sér fara áskorun til hæstv. ríkisstj. um það, að hún léti athugun sérfróðra manna fara fram á þessum hlutum og gerði síðan ráðstafanir, sem kæmi í veg fyrir hættu þá, sem hér er á ferð fyrir heilsu manna.

Fyrir nokkrum árum lét yfirlögregluþjónninn á Selfossi gera hljóðmælingu í Selfossbíói, sem er samkomuhúsið þar á staðnum, og fór sú mæling fram á dansleik, sem þar var haldinn. Hann fékk til þess Kormák Sigurðsson heilbrigðisfulltrúa við borgarlæknisembættið í Reykjavík. Ég bað yfirlögregluþjóninn á Selfossi, Jón I. Guðmundsson, að láta okkur flm. í té afrit af hljóðmælingum þessum, sem hann gerði fúslega. Vil ég nú — með leyfi forseta — lesa bréf yfirlögregluþjónsins, sem fylgdi til mín, þegar hann sendi mér skýrsluna um hljóðmælinguna, sem ég einnig mun þá lesa. Hljóðar bréf yfirlögregluþjónsins þannig, með leyfi forseta:

„Selfossi. 21. jan. 1974.

Samkvæmt umtali sendi ég hér hjálagt ljósrit af skýrslu varðandi hljóðmælingu, sem gerð var í Selfossbíói 12. apríl 1970, en þar stóð þá yfir dansleikur. Í skýrslunni virðist mér að fram komi, að hávaðinn frá hljómsveitinni var það mikill, að hann yrði ekki talinn hafandi á vinnustað. Það er grunur minn, að í danshúsunum megi finna miklu meiri hávaða en um getur í meðfylgjandi skýrslu. Á þessu þarf að gera könnun, svo að fá megi þverskurð af vandanum, sem ég tel ekki efa á, að sé fyrir hendi. Í Árnessýslu eru mörg danshús, fleiri en í nokkurri annarri sýslu á landinu. Við lögreglumenn, sem stöndum vörð á þessum samkomum, höfum alloft rætt það, að ekki sé í raun og veru vinnandi á þessum stöðum sökum hávaða. Ég sem þessar línur skrifa er búinn að standa vörð á samkomum af og til frá árinu 1946. Á þessum tíma hefur á orðið mikil breyting hvað hávaða snertir, því að er ég hóf starf á samkomuhúsum voru magnarar ekki til. Í seinni tíð, þegar farið er að margfalda þau hljóð, sem hljómsveitin gefur frá sér, finnst mér mikið bera á, að fólki bókstaflega líður illa í þessum mikla hávaða, auk þess sem ég tel hávaðann oftsinnis undirrót illra verka, og vil þar til nefna skemmdarverk, sem mér finnst menn mjög gjarnan vinna undir hinum mikla hávaða. Ég hef veitt því athygli, að þegar hávaðinn hættir, þá um leið hættir sá, sem vann skemmdarverk. Það var sem hávaðinn hefði hvetjandi áhrif til hins illa. Ekki er mér kunnugt um, að neitt hafi verið gert hér á landi til þess að sporna við hinum mikla hávaða, sem viða er á dansstöðunum, nema það að fáeinir aðilar hafa lítillega látið frá sér heyra í fjölmiðlum.

Ég veit ekki betur en í Danmörku hafi þessi vandi borist í hendur stjórnvalda og þar hafi verið settar reglur um hávaða og fast gengið eftir, að ekki sé út af brugðið í því efni.“

Þetta er bréf yfirlögregluþjónsins frá Selfossi, Jóns I. Guðmundssonar. Þá vildi ég einnig leyfa mér að lesa skýrslu heilbrigðisfulltrúans, sem framkvæmdi hljóðmælingarnar. Ég tel það nokkurs virði, að sú skýrsla verði opinbert plagg, en með því að koma henni inn í þingtíðindin verður hún það. Hún er dags. 14. apríl 1970 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi hljóðmælingar í Selfossbíói, sem framkvæmdar voru aðfaranótt sunnudagsins 12. apríl 1970. Hljómsveitin Mánar lék fyrir dansinum. Eins og niðurstöður bera með sér, er hér um töluvert mikinn hávaða að ræða, þar sem hljóðmælir komst hæst upp í 114 db. — einingar, en aldrei lægra en í 65 db. — einingar.

Til fróðleiks má geta þess, að rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið á undanförnum árum í Svíþjóð á ýmsum tegundum vinnustaða, leiða í ljós, að tveggja stunda álag við 75–115 db. eininga hávaða virðist geta valdið varanlegri heyrnadeyfu. Talið er, að óvarið eyra, eyra án heyrnarskjóls, þoli ekki meira en 135 db. til c í hæsta lagi og þá aðeins í 10 sek. á dag. Þetta gildir þá um unga menn, sem vanir eru miklum hávaða og eru látnir vera viðbúnir hávaðanum, þegar hann skellur á. Við 5 mínútna álag er hámarkið talið um 120 db. til c, við 50 mínútna álag 110 db. til c og við 500 mínútna álag 100 db. til c.

Með þessar upplýsingar í huga, gefur það auga leið, að hávaði sá, er mældist í Selfossbíói þann 12. apríl, er ærið mikill, enda þótt höfð sé í huga sú staðreynd, að hér er ekki um stöðugan og jafnmikinn hávaða að ræða allan tímann, sem dansleikur stendur yfir. Þar koma til greina hvíldir milli laga, og einnig mismikill hávaði, sem byggist á því, hvaða lag er leikið hverju sinni. Umræddar mælingar leiddu einnig í ljós, að í þau skipti, sem hávaðinn frá hljómsveitinni virtist hvað mestur, sýndi mælir, að svo var ekki. Til samanburðar má nefna tvær tölur. Snemma kvölds mældist hávaðinn frá hljómsveit og dansgestum mestur um 114 db til c. En þá virtist ekki vera um tilfinnanlegan hávaða að ræða. Hins vegar var mælt síðar um kvöldið, þegar leikin voru lög, sem flestum virtust af háværasta tagi, en þá sýndi mælir aðeins 105 db.-eininga hávaða mest. Þetta sýnir aðeins, að ekki er einhlítt að treysta eyrunum einum saman, þegar verið er að dæma um hljóðstyrk frá hljómsveit.

En nú má segja, að hugtakið óþægindi sé nokkuð óljóst, þar sem það er ekki nein viss hegðun eða athöfn, en þá notast menn við það ráð að skilgreina óþægindi sem ákveðið svar við vissri spurningu. Fyrir óþægindum hafa allir orðið, sem svöruðu já við spurningunni: Verðið þér fyrir óþægindum frá hljómsveitinni, sem leikur fyrir dansinum? Þá er bæði innihald hugtaksins og mælingaraðferðin gefin. Þegar haft var tal af gestum þetta kvöld, sem flestir voru unglingar, töldu þeir yfirleitt, að þeir yrðu ekki fyrir óþægindum af hálfu nefndrar hljómsveitar, þó voru nokkrir, sem töldu, að hljómsveitin væri of hávær. Í þeim hópi var einnig undirritaður, enda fékk hann hellu fyrir eyrun, jafnskjótt og hann hafði lokið mælingum inni í danssalnum sjálfum og var kominn út í anddyri hússins.

Ungt fólk virðist bæði vilja mikinn hávaða og þola hann betur en þeir sem eldri eru. En ekki er þar með sagt, að heyrn unglinga geti ekki orðið fyrir skaðlegum áhrifum, enda þótt þeim sjálfum finnist hávaðinn ekki óþægilegur.

Að öllu samanlögðu verður að líta svo á, að hljóðstyrkur frá hljómsveit, sem fer mikið yfir 80–85 db.- einingar í lengri tíma sé óæskilegur og rétt sé að koma í veg fyrir hann, ef unnt er.“

Undir þetta ritar Kormákur Sigurðsson heilbrigðisfulltrúi.

Bæði af bréfi yfirlögregluþjónsins og skýrslu hljóðmælingamannsins er það augljóst, virðist mér, að hér er um alvarlegt mál að ræða, sem við flm. þessarar þáltill. teljum, að þegar verði að bregðast við á þann hátt, að settar verði reglur, sem komi í veg fyrir hinn taumlausa hávaða á samkomum. Ég vil geta þess, að ýmsir ábyrgir aðilar eru að vakna til íhugunar um þetta mál. Ég hef hér t.d. í höndum till., sem Kristján Benediktsson borgarfulltrúi flutti í borgarstjórn Reykjavíkur 4. okt. á s.l. hausti, en till. þessi var samþ. þar með samhljóða atkv. 18. s.m. Till. þessi er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Borgarstjórn telur nauðsynlegt, að sett verði í heilbrigðissamþykkt ákvæði til þess að takmarka hávaða, sem er af þeim styrkleika, að hann geti valdið varanlegum heyrnarskemmdum hjá þeim, sem við hann búa, t.d. á vinnustað. Sérstaklega telur borgarstjórnin aðkallandi í þessu sambandi, að settar verði reglur um hámark þess hávaða, sem vera megi frá hljómsveitum og plötuspilurum á skemmtistöðum, bæði til að vernda hljómlistarmennina fyrir því að hljóta varanlegar heyrnarskemmdir, svo og til verndar starfsfólki og gestum ýmissa þessara staða. Felur borgarstjórnin heilbrigðismálaráði og borgarlækni, í samráði við forstöðumann heyrnardeildar Heilsuverndarstöðvarinnar, að undirbúa reglur í samræmi við það, er að framan greinir, er síðan verði felldar inn í heilbrigðissamþykkt borgarinnar.“

Af þessari samþykkt borgarstjórnarinnar í Reykjavík er auðséð, að hún gerir sér ljóst, að hér er um mál að ræða, sem ekki er lengur hægt að láta alveg afskaptalaust. Mér var ekki kunnugt um þessa samþykkt borgarstjórnarinnar fyrr en nú fyrir fáum dögum, annars hefði ég leyft mér að fella hana inn í grg. með þáltill.

Það kemur fram í bréfi yfirlögregluþjónsins, að hann telur, að hinn mikli hávaði á dansskemmtunum sé ekki aðeins heilsuspillandi, heldur orki hann einnig á hegðun fólks til hins verra, sé sagt undirrót illra verka. Menn hálfærast og vita varla, hvað þeir gera. Hávaðinn virðist þannig slæva dómgreind og siðgæði, þar sem mikið fjölmenni er.

Eins og allir vita, er nú á dögum áfengis neytt á danssamkomum, því miður, ekki í hófi. Bakkus er ekki, eins og allir vita, hollur förunautur, síst unglingum á fjölmennum dansleikjum, og eru því þessar fjöldasamkomur mörgum foreldrum áhyggjuefni. Ætla ég þó ekki að ræða það frekar hér. En vera mætti, að eitthvað gæti dregið úr því æskulýðsvandamáli, sem skemmtanalífið hérna er, ef sá þáttur, sem þáltill. fjallar um, yrði lagfærður. En þar er þó fyrst og fremst um að ræða að koma í veg fyrir heilsutjón af heyrnarskemmdum, sem unga fólkinu er búið af þeim mikla hávaða, sem þar fer fram.

Eins og fram kemur í grg. með till., hefur félag áfengisvarnanefnda í Árnessýslu gert um þennan þátt í skemmtanalífinu, hávaðann af völdum danshljómsveita, ályktun, þar sem skorað er á stjórnvöld að hlutast til um það með lögum að fólk bíði ekki heilsutjón af hávaða í samkomuhúsum. Um leið og ég læt í ljós þakklæti til allra, sem vakið hafa athygli á þessu máli, vil ég láta í ljós þá von okkar flm., að till. okkar fái góðar undirtektir hér á hinu háa Alþingi og geti orðið upphaf að því, að eitthvað raunhæft verði gert til þess að koma í veg fyrir þennan heilsuspillandi hávaða, sem yfirleitt tíðkast nú á fjöldasamkomum í danshúsum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar, en vil leyfa mér að gera till. um það, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.