13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2152 í B-deild Alþingistíðinda. (1929)

Umræður utan dagskrár

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. í fréttum sjónvarpsins í gær var greint frá því, að fréttastofan hefði það eftir góðum heimildum, að háttsettur starfsmaður í rússneska sendiráðinu hér í Rvík hefði gert sér ferð í utanrrn. og komið þar á framfæri aths. vegna umr., sem fram fóru í þættinum Heimshorn í sjónvarpinu 29. jan. s.l. Í fréttinni var sérstaklega tekið fram, að umkvörtun hins sovéska sendiráðsmanns hefði einkum átt við ummæli hæstv. menntmrh., sem var þátttakandi í umræðuþætti þessum. Tekið var fram, að frétt þessi hefði verið borin undir utanrrn., sem ekki hefði staðfest hana né heldur mótmælt henni, að því er manni skildist. Sams konar frétt flytur Morgunblaðið í morgun.

Hér er um mjög alvarlegan atburð að ræða, ef sannur reynist. Engin sjálfstæð og fullvalda þjóð getur sætt sig við, að erlent ríki hlutist til um innanríkismálefni þess. Allra síst verður það þolað, ef erlent vald vill leggja hömlur á andlegt frelsi, skoðanamyndun og tjáningarfrelsi manna. Skiptir engu máli, þótt slík íhlutun sé reynd af erlendu ríki, sem hvorki viðurkennir né þolir andlegt frelsi sinna eigin þegna. Það eru ekki heldur dæmi til þess, að Sovétríkin reyni eftir venjulegum diplómatískum leiðum að hafa áhrif á fjölmiðla fullvalda ríkja, enda samrýmist slíkt ekki siðvenjum og reglum í stjórnmálasamskiptum þjóða á milli á jafnréttisgrundvelli. Hins vegar þekkjum við öll þvinganir og ofbeldi, sem þetta forusturíki kommúnismans beitir leppríki sín í Austur-Evrópu. Við þekkjum líka viðleitni Sovétríkjanna til íhlutunar um innanlandsmál Finna, þar sem þeir telja þá vera á áhrifasvæði þeirra.

Hvað var það, sem sagt er, að hinn rússneski sendimaður hafi borið umkvörtun um? Það eru ummæli hæstv. menntmrh. um sovéska Nóbelsverðlaunaskáldið Alexander Solzhenitsyn. Í umræddum sjónvarpsþætti greindi hæstv. menntmrh. frá vinnubrögðum sovésku leynilögreglunnar í sambandi við útgáfu á bók Solzhenitsyns um Eyjaklasann Gulag. Allt það efni er kunnugt og hefur verið í heimsfréttunum nú um margra vikna skeið, enda var það tilefni þess, að mál þetta var tekið til umræðu í þessum sjónvarpsþætti. Hæstv. menntmrh. sagði m.a., að Solzheinitsyn vægi afskaplega hart, ekki bara að ógnarstjórninni, eins og hún var grimmust á dögum Stalíns, heldur einnig að rótum þess kerfis, þar sem ekki ríkti lögbundin stjórn, heldur geðþóttastjórn. Hann leitaðist við að sýna fram á, að þau ógnarverk, sem hann lýsti í bókinni, væru afleiðing þeirra ákvarðana, sem teknar voru á byltingarárunum um stjórnarhætti, jafnvel þótt þær hefðu ekki komið fram í sinni verstu mynd fyrr en löngu seinna.

Í upphafi umræðuþáttarins var að því spurt, hvort það væri einhver sérstakur þáttur í fari eða skrifum Solzhenitsyns, sem væri orsök ofsóknanna á hendur honum. Þeirri spurningu svaraði hæstv. menntmrh. orðrétt þannig: „Mín skoðun er sú, að það sé ekki neitt einstakt atriði, sem þarna ráði mestu. Það blandast svo margt saman í þeim árásum, sem maður sér, að sovéskir fjölmiðlar og blöð gera á Solzhenitsyn. Það er sjálf tilvera þessa manns, sem er óþolandi fyrir kerfið, sem þarna ríkir. Þessi maður er búinn að sýna það, að hann ræður yfir svo feikilegum skapstyrk, sálarstyrk, að hann er ekki meðfæri þess kerfis, sem hann býður byrginn.“

Hér skal ekki frekar rakið það, sem hæstv. menntmrh. sagði í umræddum sjónvarpsþætti. Bæði það, sem hér hefur verið drepið á, og annað, sem hæstv. ráðh. sagði, bar vott um yfirsýn pg þekkingu á því máli sem um var rætt, eins og hans var von og vísa. Þessi umræðuþáttur um Solzhenitsyn þótti takast svo vel, að á síðasta fundi sínum s.l. mánudag samþykkti útvarpsráð einróma að endursýna þáttinn, og það heyrir til undantekninga um slíka umræðuþætti.

Þarf ekki að taka fram, að skoðanir þær, sem hæstv. menntmrh. setti fram í þessum umræðuþætti, voru mjög í anda þess almenna viðhorfs, sem menn hafa í hinum frjálsa heimi til ofsóknanna gegn Alexander Solzhenitsyn. Aldrei hefur fordæming manna verið sterkari og almennari en einmitt nú eftir handtöku Solzhenitsyns í gær.

Herra forseti. Ég vil að því gefna tilefni, sem ég nú hef greint frá, spyrja hæstv. utanrrh. þessara spurninga:

Er á rökum reist frétt sú, sem sjónvarpið birti í gær og Morgunblaðið í morgun um kvörtun sovéska sendiráðsins hér við utanrrn. vegna ummæla hæstv. menntmrh. í sjónvarpsþætti um Alexander Solzhenitsyn? Ef svo er, í hverju var umkvörtunin fólgin og hverju var hinum erlenda sendimanni svarað? Þá er lokaspurning: Hefur áður komið fyrir, að sovéska sendiráðið hér hafi snúið sér til utanrrn með kvartanir varðandi dagskrárefni Ríkisútvarpsins?