13.02.1974
Efri deild: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2168 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

204. mál, vinnslustöðvar á sviði sjávarútvegs

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Því ber ekki að neita, að þar sem aflamagn er takmarkað og fjöldi báta við veiðar kannske einnig takmarkaður, þá er ekki óeðlilegt, þó að það geti vafist fyrir mönnum, hvort eðlilegt sé, að upp rísi fleiri fiskvinnslustöðvar en þær, sem geta aðeins annað þeim afla, sem á land kemur. Hins vegar finnst mér vera algert neyðarúrræði að sjútvrn. eigi að ráða því, hvar fiskvinnslustöðvar eru settar niður á landinu. Og ég held, að þegar við lítum á rækjuna og annan skelfisk, þar sem sífellt er verið að finna ný mið og þar sem við vonum, að stutt sé í að afla rækju á djúpmiðum, þá sé varla ástæða til þess að vera að setja sérstök lög um þessi atriði.

Mér finnst nú, þar sem meginuppistaðan í ræðu hv. 1. flm. var Húnaflóasvæðið, að það sé ekki aðgengileg byggðastefna að útiloka eitt byggðarlag af fimm frá að geta hagnýtt sér þennan mikilvæga atvinnuveg. Mér sýnist, að Blönduós sé eina byggðarlagið við Húnaflóa, sem eftir er, og það sé ekki eðlilegt, að það sé útilokað. Hitt sé jafneðlilegt, að höfð sé hönd í bagga með, hvaða aðilar séu þar að verki, og ég held, að það sé heimamanna að ráða þar um, en ekki rn.

Ég veit, að rækjuvinnsla er mjög þýðingarmikill atvinnuvegur víða úti um landið og þá ekki síst þar, sem hv. flm. nefndi. En mér finnst það ekki vera eðlilegt að útiloka eitt byggðarlag frá því að hagnýta sér þennan aðgengilega atvinnuveg og verði að leita annarra ráða en slíkra til þess að koma í veg fyrir, að vinnslustöðvarnar geti ekki haft nægileg verkefni.