13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Þótt margir mundu ætla svo, þá mun það ekki verða mitt erindi nú í ræðustól utan dagskrár að ræða þann harmleik, sem hefur gerst austantjalds og öllum er í fersku minni eftir fréttir fjölmiðla á þessum degi, heldur þær fregnir, sem nú hafa borist þjóðinni með fjölmiðlum, að loðnuveiðiskip þurfi nú að dæla þegar fengnum afla í hafið aftur. Auk þess mun hafa verið losað hina síðustu daga úr loðnunótum tugir eða hundruð tonna af loðnu, vegna þess að skiptingin milli hrygnu og hængs reyndist við athugun ekki sú æskilega fyrir þá, sem kaupa loðnu til frystingar. Eru slík vinnubrögð með öllu forkastanleg að mínu mati og auk þess fordæmanleg. Hlýtur sú spurning að vakna, hvort allt hafi verið gert, sem mögulegt er að gera, af ráðamönnum þjóðarinnar til að leysa þann vanda, sem að þjóð akkar steðjar í yfirstandandi vinnudeilum.

S.l. fimmtudag spurði ég hæstv. forsrh. utan dagskrár á fundi í Sþ. efnislega þess, hvað ríkisstj. hefði gert til að fyrirbyggja þá vá, sem fyrir dyrum væri, ef á skylli allsherjarverkfall eða því sem næst í næstu viku. Hæstv. forsrh. lét þá von í ljós, að samningaumleitanir um s.l. helgi mundu vonandi móta efnislega lausn þessara víðtæku vandamála. Ég taldi gott að vita um von hans, en áréttaði þá ósk mína, að hæstv. ríkisstj. gæfi í byrjun þessarar viku skýrslu um gang þessara vandasömu mála og þátt ríkisstj. til lausnar þeim. Að lokinni s.l. helgi berast þær fréttir einar, að það, sem gerst hefur þrátt fyrir öll skáskot hinna æfðu stjórnmálamanna, sé það, að bræðsluverksmiðjur, a.m.k. á Suðvesturlandi, hafi tilkynnt um lokun fyrir móttöku á loðnu til bræðslu, hins vegar hafi þessar verksmiðjur heitið að taka við úrgangsloðnu frá þeim frystihúsum, sem taka loðnu til frystingar, meðan boðaðar vinnustöðvanir loka ekki fyrir þann þátt þessarar framleiðslu. Er vitað mál, að sá úrgangur, sem til verður í þróm þessara verksmiðja, þegar verkfall skellur á, mun verða úrgangsvara að nokkrum dögum liðnum, þótt búin sé rotvarnarefnum svo sem möguleiki er á.

Þetta mál mitt nú utan dagskrár og fsp., sem ég mun beina til hæstv. sjútvrh. að þessu sinni, er m.a. vegna frámunalega vitlausrar yfirlýsingar, sem einn samninganefndarmaður Alþýðusambandsins lét eftir sér hafa í dagblaði kommúnista, að mig minnir í gær. En skoðun hans var sú, að þjóðnýta ætti einstaklings-, félaga- og sveitarfélagaverksmiðjur, svo að þær fengjust til að taka á móti loðnu til bræðslu, þótt fyrirsjáanlegt sé, að verkfall við móttöku og vinnslu í þessum sömu verksmiðjum standi fyrir dyrum og tugmilljóna verðmæti hráefnis í þróm þeirra liggi undir skemmdum að nokkrum dögum liðnum, ef verkfall skellur á.

Enn þá hefur ekkert heyrst frá hæstv. ríkisstj. opinberlega um, hvað hún ætli að gera til lausnar á hinum almennu vinnudeilum. Krafa Alþýðusambandsins var m.a. lækkun tekjuskatta og úrbætur í húsnæðismálum auk hækkunar launa til að mæta óðaverðbólgu og síminnkandi kaupmætti. Loforð hæstv. ríkisstj. voru um hið sama. En í gærmorgun höfðu t.d. engar upplýsingar um hugmyndir stjórnvalda um breytingar á skattal. borist til samninganefndar yfirmanna á flotanum, þrátt fyrir loforð hæstv. sjútvrh. þar um í síðustu viku, að ekki sé talað um úrbætur í húsnæðismálum. En þær einar hugmyndir munu uppi í sambandi við þau mál hjá stjórnvöldum, að taka eigi fé, sparifé má kalla það, þessa sama fólks og lána því það aftur og segja: Sjá, hvað við höfum gert fyrir yður.

Það, sem ég hef hér lýst, er að gerast í mestu aflauppgripum íslensku þjóðarinnar, frá því að útgerðarsaga okkar hófst. Ég leyfi mér nú í framhaldi fsp. mínnar utan dagskrár fyrir viku að spyrja hæstv. sjútvrh. þessa:

1. Hvað hefur hann ásamt hæstv. ríkisstj. gert, til þess að haldið verði áfram móttöku loðnu til bræðslu og frystingar?

2. Hefur hæstv. ríkisstj. beitt áhrifum sínum við verkalýðsfélögin á þann veg, að þau leyfi áframhaldandi móttöku og vinnslu loðnu til bræðslu og frystingar, t.d. upp á væntanlega samninga?

3. Hvað líður samningum við sjómenn, og hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til þess að auðvelda samninga útgerðarmanna og sjómanna utan svokallaðs loðnufrv.?