13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1948)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, að mér var nú fyrst að berast vitneskja um þessar fsp., þegar ég kom hér inn í salinn. Út af fyrir sig hefur það ekki mikil áhrif á það, sem ég mun svara, ég þarf ekkert að undirbúa undir það. En ég ætla, að ég eigi þá a.m.k. sama rétt, þegar að því kemur, að mega spyrja, án þess að menn fái langan undirbúningstíma. Auk þess vil ég svo segja það, að þegar spurt er utan dagskrár um hluti, sem auðvelt er að gera fyrirspurn um samkv. þingsköpum, og í rauninni ekkert rekur á eftir með að kalla á svör við sérstaklega, þá er eðlilegt, að hið síðara sé gert, nema þá ætlunin sé að taka upp hinn háttinn, að spyrja almennt úr ræðustóli um allt.

Hv. 10. þm. Reykv. lagði hér þrjár spurningar fyrir mig. Í fyrsta lagi var spurt um það, hvað ég og ríkisstj. hefðum gert, til þess að loðnuverksmiðjur og frystihús gætu haldið áfram móttöku sinni á loðnu þannig að rekstur gæti gengið áfram með eðlilegum hætti.

Um þetta þurfti út af fyrir sig ekki að spyrja, því að það er alveg nýlega búið að gefa tilkynningu um þetta, m.a. frá þeim, sem hér eiga hlut að máli. En ég get bætt því við, að ég hef átt tvo fundi alveg sérstaklega með eigendum loðnuverksmiðjanna hér á Faxaflóasvæðinu og lagt þar mjög að þeim, að þeir héldu áfram loðnumóttöku, eins og verksmiðjueigendur almennt í landinu gera, því að það eru aðeins þeir hér við Faxaflóann og þó ekki allir við Faxaflóann, heldur aðeins nokkrir, sem hafa tilkynnt, að þeir treysti sér ekki til að taka áfram á móti loðnu, eins og áður hafði verið. Þeir hafa eins og ég sagði, birt tilkynningu um það, að þeir hafi vegna eindreginna tilmæla ríkisstj. fallist á það að halda áfram móttöku á úrgangi frá frystihúsunum, þannig að frystihúsin á þessu svæði gætu haldið áfram sínum rekstri, þ.e.a.s. frystingu á loðnu. En það var auðvitað það atriði í þessum efnum, sem mestu máli skipti, vegna þess að verksmiðjurnar hér voru þegar búnar að taka á móti því hráefni, sem þær gátu tekið á móti, og þannig er ástatt um margar þessar verksmiðjur, að þær gera ekki betur en hafa rétt undan frystihúsunum með þann úrgang, sem frá frystihúsunum kemur, Þegar fer hins vegar að ganga eitthvað á birgðirnar hjá þeim, sem meiri afköst hafa, og það eru aðallega þær tvær verksmiðjur, sem eru í Reykjavík, þá auðvitað kemur að því, að þær verða að svara því endanlega, hvort þær ætla að skera sig úr leik og taka ekki á móti, þegar rými opnast hjá þeim á nýjan leik. En það er ekki komið að því með eðlilegum bætti a.m.k.

Þetta er sem sagt svar mitt við fyrstu fsp., sem til mín var beint, hvað við hefðum gert til þess, að þessir aðilar fengjust til að halda áfram loðnumóttöku.

Önnur spurningin var um það, hvaða ráðum ríkisstj, hefði beitt til þess að hafa áhrif á það, að samningar gætu tekist.

Ríkisstj. hefur átt marga viðræðufundi við báða aðila um þá launasamninga, sem nú eru í gerð, og hún hefur þrýst á aðila, eftir því sem hún hefur talið rétt á þessu stigi málsins, að þeir reyndu að ná samningum á eðlilegan hátt og hún hefur svarað þeim fsp., sem fyrir hana hafa verið lagðar af aðilum og varðað hafa málið. Ríkisstj. hefur, eins og líka hefur verið tilkynnt hér um áður, skipað sérstaka sáttanefnd og fylgst með störfum þeirrar sáttanefndar. Hún hefur ástæðu til þess að ætla, að nú miði allverulega áfram við þessa samningagerð og málið sé komið inn á rétta braut. Ég hef lýst því yfir nokkrum sinnum og get endurtekið það hér, að það er skoðun mín, að það komi ekki til verkfalla. Ég get auðvitað ekki frekar en nokkur annar fullyrt neitt um það, en þetta er skoðun mín. Ég dæmi þar út frá þeim forsendum, sem ég hef þar út frá að ganga. Ég sem sagt geri mér vonir um það, að þeir samningar, sem eru komnir allverulega áleiðis, leiði til þess, að ekki þurfi að koma til verkfalla. — Það hefur aldrei þótt hyggilegt, og ég álít, að það sé með öllu rangt, að ríkisvaldið gripi inn í með beinni valdbeitingu, meðan aðilar sitja við samningaborðið og belja, að sér miði verulega áfram.

Að því er varðar það, að ríkisstj. hafi sérstök áhrif á verkalýðsfélögin, sem eru að boða vinnustöðvun, að þau veiti undanþágu frá verkföllum sínum til þess að vinna upp það hráefni, sem fyrir væri þá í geymslum, — tel ég, eins og ég hef sagt, að það sé ekki verulega líklegt, að það komi til verkfalla. Verkalýðsfélögin hafa þegar svarað beiðni, sem fram hefur komið um þetta, og liggja til þess ýmsar ástæður, sem þessi hv. þm. ætti að þekkja, að verkalýðsfélög eru ekki alltaf viljug að gefa formlegar undanþágur varðandi slík efni, enda leiðir þá eitt af öðru. En sem sagt, þau hafa svarað því alveg greinilega, að þau gætu ekki fallist á það að svo komnu máli, og ríkisstj. hefur ekki talið rétt að grípa frekar inn í það, enda er hér um algeran misskilning að ræða, að því hráefni, sem liggur fyrir í geymslum, sé einhver voði búinn strax á eftir.

Það vita allir, sem þekkja til þessarar vinnslu, að það er hægt að vinna það hráefni, ekki síst þennan hluta ársins, löngu eftir að lokið er löndun, og eru allmörg dæmi þess, að vinnslan befur staðið fullan mánuð á eftir, Það er a.m.k. ekki mikill vandi að sjá um, að vinnsla geti farið fram, þótt vitanlega verði það eins og alltaf, að hráefni rýrna og einstaka aukaafurðir geta orðið eitthvað lakari en ella, en það er það, sem fylgir þessari vinnslu allajafna, jafnvel þó að engin verkföll grípi inn í.

Þá var í þriðja lagi spurt um það, hvað liði samningum við sjómenn, ef ég man rétt. Um það er það að segja, að ég hef fylgst með þeim samningaviðræðum, sem þar hafa farið fram, og tók m.a. beinan þátt í þeim viðræðum, sem fram fóru á milli útgerðarmanna og yfir- og undirmanna í fiskiskipaflotanum í gærdag og stóðu fram á kvöld eða þar til allir aðilar töldu ekki ástæðu til að halda þá lengur áfram. Ég álít, að þar sé deilt um slík atriði, að aðilar þurfi talsverðan tíma til að sætta sig við sjónarmið hvors annars. Þeir hafa ekki boðað nein verkföll. og það verður sennilega ekki auðvelt að leysa þar suma þætti, á sama tíma, sem útgerðarmenn segja, að þeir ætli sér að knýja fram verulega lækkun á þeim kjörum, sem gilt hafa nú um þriggja ára skeið á skuttogurunum, en fulltrúar sjómanna segja, að það muni dragast, ekki aðeins í nokkur ár, heldur áratugi, áður en þeir samþykki slíkt. Það er vandamál út af fyrir sig, hvernig fer með þá samninga. En þar gengur nú allt án árekstra, þó að þessar viðræður eigi sér enn þá stað. Ég álít því, að það sé ekki tilefni til þess, eins og sakir standa, að gera mjög mikið úr þeim ágreiningi, sem er á milli útgerðarmanna og sjómanna og er yfirleitt minni háttar samningsatriði, fyrir utan þetta eina stóra, sem ég nefndi og vitað er um, að hefur verið ágreiningum um þeirra á milli í langan tíma.

Hv, þm. vék hér að því, að það hefði gerst nú, að loðnuskip hefðu gripið til þess ráðs að dæla loðnunni aftur í hafið og fleygja veiði sinni á þann hátt. Í tilefni af því vil ég segja það, að sjútvrn, mun láta kanna þessar sögusagnir, að hve miklu leyti þær séu réttar. Ég hygg, að það hafi ekki verið mikil brögð að þessu, þó að það kunni að hafa gerst. Það hefur sem sagt komið upp, að nokkuð af þeirri loðnu, sem menn hugðu, að væri hægt að frysta til úfflutnings, hefur reynst óhæft til frystingar vegna átu, sem ekki hefur komið fram í loðnunni áður. Þegar svo um er að ræða litla báta, sem telja sér alls ekki fært að fara þangað með sína farma, sem verksmiðjur eru opnar, m.a. vegna veðráttunnar, þ.e.a.s. sigla norður fyrir land eða austur fyrir land, þá kann að vera, að einhver hafi gripið til þessa óyndisúrræðis. En það hlýtur þá að byggjast á mikilli tregðu og furðulegri framkomu þeirra verksmiðjueigenda hér á þessum slóðum, sem ekki hafa tekið litla farma af litlum bátum. Ég hef oftar en einu sinni leitað til forstöðumanna verksmiðjanna hér við flóann til þess að bjarga í slíkum tilfellum, og þeir hafa alltaf orðið við því að bjarga þessum litlu bátum. En hafi þetta gerst, þykir mér, að það hafi verið einkennilegt samband á milli verksmiðjueigenda og þeirra útgerðarmanna, sem þarna hafa átt hlut að máli, að þurfa að grípa til þessa óyndisúrræðis.

Að öðru leyti tel ég svo ástæðu til þess að minnast á það, að þegar það gerist eins og nú, að veiði er mikil og um fleiri báta að ræða, sem stunda veiðarnar, en áður og það er um löndunarstöðvun að ræða, þá koma að sjálfsögðu þær spurningar, hvort nægilega hafi verið unnið að því að auka við vinnsluafköstin. Það er auðvitað alltaf álitamál. En í þessum efnum vil ég undirstrika þetta: Tvær verksmiðjum allafkastamiklar bættust hér við á þessari vertíð að mestu leyti. Það eru Vestmannaeyjaverksmiðjurnar, sem lítinn þátt gátu tekið í vinnslunni á síðustu vertíð. Það hafa farið fram nú á milli vertíða mjög miklar og kostnaðarsamar umbætur svo að segja í öllum verksmiðjum landsins. Í þær umbætur hefur verið varið á þessu ári nokkrum hundruðum millj. kr. Þar er hvort tveggja um að ræða þó nokkra afkastaaukningu, en þó fyrst og fremst umbætur í vinnslunni og breytta móttökuaðstöðu, en nýjar verksmiðjur hafa ekki verið byggðar. Ég býst við því, að jafnvel þó að ráðist hefði verið í slíkar framkvæmdir, er ótrúlegt, að þær hefðu verið komnar, þessar nýju verksmiðjur, í notkun fyrir þessa vertíð. Þá hafa frystihúsin einnig gert ráð fyrir því að meira en tvöfalda sína móttöku á loðnu frá því, sem áður var, og haft í frammi mjög mikinn og kostnaðarsaman undirbúning. — Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta.

Hv. 10. þm. Reykv. sagði, að sér væri kunnugt um, að yfirmenn á fiskiskipunum hefðu ekki fengið neinar upplýsingar um þær skattamálatill., sem fyrir lægju frá ríkisstj., þrátt fyrir loforð frá mér þar um. Þar er fyrst þess að geta, að ég hef áður látið þá hafa þau gögn, sem fram voru komin og segja mest af því, sem enn er hægt að segja í þessu máli. Auk þess er það svo, að eins og ég sagði, var ég með þeim á fundum allan seinni hluta dagsins í gær og fram á kvöld og hafði einmitt sagt þeim þar, að viðbótarfréttir, sem ekki væru ýkjamiklar, af þessum málum hefði ég með mér. En enginn þeirri óskaði sérstaklega eftir þeim á þessum viðræðufundum. Það er eina ástæðan til þess, að ég bætti ekki þeim litlu fréttum við, sem hefði verið hægt að veita þeim, en er auðvelt fyrir þá að sækja hvenær sem er. Og ég ætla, að þeir þurfi ekki neinn meðalgöngumann eins og hv. 10. þm. Reykv. til þess að fá þessar upplýsingar, því að þeir vita, að þær hafa legið alveg á lausu.

Ég vil svo vænta þess, að hv. þm. sjái, að það er varla hægt að ætlast til þess, að ríkisstj. gefi hér daglega ítarlegar skýrslur um gang samningaviðræðna á milli atvinnurekenda og verkamanna, því að ég veit ekki annað en það hafi verið endurtekið svo að segja daglega í fréttamiðlum, að aðilar, sem þarna sitja að samningum, óski ekki eftir því, að miklar frásagnir af því, sem fer fram við samningaborðið hjá þeim, færu út af þeirra fundum. Það er því vitanlega engin aðstaða fyrir ríkisstj. að birta hér neina ítarlega skýrslu um það, annað en þetta, sem ég hef sagt, að ég tel, að viðræðunum miði mjög eðlilega áfram og full ástæða sé til að vænta þess, að ekki verði hér um nein verkföll að ræða.