13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2185 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Gils Guðmundsson):

Í tilefni þeirra ummæla hv. 4. þm. Austf., að forsetar hafi tilhneigingu til þess að beita harkalega nýrri reglu í sambandi við umr. utan dagskrár, vil ég aðeins taka fram, að ég tel, að ég hafi ekki beitt neinni nýrri reglu sérlega harkalega, hvorki nú né áður. Hins vegar hafa það verið tilmæli mín og okkar forseta til hv. þm. og hæstv. ráðh., að umr. utan dagskrár beinist að tilteknum spurningum og þá ákveðnum svörum við þeim, en verði ekki almennar stjórnmálaumr., því að þá kynni að vera stefnt í óefni, ef svo færi, þar sem verkefni þingsins eru margvísleg.

Ég tel ástæðu til að benda á, að í ýmsum þeim tilvikum, þegar fsp. er beint til ráðh. utan dagskrár, virðist mér auðvelt að gera það á hinn venjubundna hátt, með því að leggja hana fram skriflega. En ég viðurkenni, að það eru slík undantekningartilfelli, þegar um mál er að ræða, sem koma upp skyndilega, sem eru algerlega tímabundin, að þá er eðlilegt, að umr. um þau fari fram utan dagskrár. En þó hlýtur að verða að taka tillit til þess, að þær verði ekki að almennum stjórnmálaumr., þar sem tiltölulega er mjög auðvelt að koma hverju máli að, sem ekki kemur upp á skyndilega, með eðlilegum þinglegum hætti.

Ég vil aðeins árétta þetta með því að benda á, að í þingsköpum Alþingis er mér vitanlega ekki eitt einasta atriði um umr. utan dagskrár og það virðist því vera algerlega á valdi forseta hverju sinni, hvort þeir heimila þær og þá með hvaða takmörkunum.

Ég tel ástæðu til að víkja að þessu, að ég tel mig ekki hafa beitt neinni nýrri reglu harkalega, en hef æskt þess, sem hv. þm. og hæstv. ráðh, hafa yfirleitt tekið til greina, að úr slíkum umr. utan dagskrár verði ekki almennar stjórnmálaumr.