13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2186 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það er sýnilegt, að þetta eru almennar stjórnmálaumr., hvað sem þær eru kallaðar. Það er búið að gera þær að því, því að hér hefur ekki dugað að koma fram með fsp. og fá svör við þeim, heldur vilja menn fara að ræða öll samningamál og allt, sem gerst hefur í þeim síðustu 4 mánuði.

Auðvitað vissu allir, að það var auðvelt í sambandi við það, sem hér hefur verið spurt um, loðnumálin, að spyrjast fyrir um það í máli, sem hér er á dagskrá, þar sem er frv. um loðnumál. Það var aðeins þetta, að hv. 10. þm. Reykv. vildi endilega fá mynd af sér á sjónvarpsskermi og láta geta sín alveg sérstaklega. Þá þurfti hann að troða sér upp hér utan dagskrár og gera sig merkilegan. Hann vissi mætavel, að ef hann hefði spurt um þetta sama á venjulegan hátt í umr., hefði hann fengið svör. (Gripið fram í: í umr. um hvað?) Um loðnufrv., sem er hér á eftir. Við skulum ræða um það þá. En hér þurfti sem sagt annað til. Hv. þm. þurfti endilega að ná sér í mynd af sér á skerminn á þennan hátt. Hvað um það, hann hefur gaman af að horfa á þá mynd, þótt aðrir hafi það kannske ekki.

En í sambandi við það, sem hefur komið fram hjá hv. 10. þm. Reykv., vil ég sérstaklega vekja athygli á einu. Hann hefur sagt hér, að frá einum tilteknum manni hafi komið sérstaklega fáránleg yfirlýsing um það, hvernig ætti að fara að tryggja löndun á loðnu, ef verksmiðjur við Faxaflóa lokuðu fyrir loðnumóttöku. Ég verð að segja það, að sú yfirlýsing, sem hv. 10. þm. Reykv. hefur gefið hér, er furðuleg og hennar mun verða minnst, því að hann sagði beinlínis, að hann væri hissa á því, að ráðh. hefði tekið undir þessa skoðun, að ætlast til þess, að verksmiðjur hér héldu áfram að taka við loðnu, þó að yfirvofandi væri verkfall. (Gripið fram í.) Já, það var aldeilis óskaplegt að hugsa sér það, að verksmiðjurnar hér við Faxaflóa héldu áfram að taka við loðnu, þangað til verkfall hefur skollið á, eins og allar aðrar verksmiðjur í landinu gera. Hann er ekki að hugsa um hagsmuni sjómanna, sá sem talaði á þennan hátt. Hann er meira að hugsa um að reyna að koma á verkfalli, reyna að koma á stöðvun, — hann er meira að hugsa um það, því að hann mælir upp í þeim, sem taka sig einir út úr og neita að taka við loðnu til bræðslu, eins og allir aðrir gera, og ætlar að ásaka hina fyrir ábyrgðarleysi, sem leyfa sér að taka loðnu til vinnslu, sem þó er mikill meiri hl. verksmiðja í landinu.

Sannleikurinn er sá, að það hefur ekki enn þá reynt á þetta, þótt uppi hafi verið hafðar hótanir um það, einkum frá einni verksmiðju hér í Reykjavík, að hætta að taka á móti loðnu til vinnslu vegna þeirrar áhættu, sem því fylgir, að eitthvað kunni að verða eftir óunnið. Það hefur aðeins reynt á það litillega hjá þessari einu verksmiðju, sem hafði tekið nokkurn veginn í sitt rými. Hjá öðrum verksmiðjum hefur ekki reynt á þetta enn þá, því að þær hafa haldið áfram að taka við úrgangsloðnu sem nemur álíka miklu og þær afkasta daglega. Og ég er satt að segja ekki farinn að trúa því, að stjórnendur fiskimölsverksmiðjanna hér í Reykjavík standi við þetta, að neita einir allra að taka við loðnu til vinnslu, þegar allir aðrir gera það og þegar sérstaklega er haft í huga, að ýmsir stærstu útgerðarmenn landsins eiga einmitt verksmiðjuna hér í Reykjavík, jafnvel þó að hv. 10. þm. Reykv. skori á þá á óbeinan hátt að stöðva móttöku og jafnvel þó að hv. 4. þm. Austf., Sverri Hermannssyni, þyki þetta líka eðlilegt, af því að hráefnið í geymslu verksmiðjunnar geti numið í kringum 40 millj. kr. Ætli það nemi ekki álíka miklu hjá öðrum, sem geta tekið jafnmikið? Eða er hv. 4. þm. Austf. að ásaka alla hina fyrir ábyrgðarleysi, sem taka nú við loðnu í sínar þrær og hafa þó sömu áhættu yfir sér? (Gripið fram í: Hver er áhættan?) Vissulega er alltaf einhver áhætta, það umflýr það enginn, þegar verkföll skella á. Ef svo fer, verður um einhverja áhættu að ræða. En ég tel, að það sé engin slík áhætta á ferðinni fyrir þessar verksmiðjur, að sé ástæða til þess fyrir þær að taka sig út úr á þennan hátt, og aðrar verksmiðjur hér í nágrenninu hafa ekki viljað taka undir þetta. En það hefur hver sína skoðun á þessu. mín skoðun er sú, að það hefði verið eðlilegt, að verksmiðjurnar hér hefðu tekið á móti loðnu, þar til a.m.k. fullséð varð, að verkfall skylli á. Hv. 10. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Austf. eru hins vegar á þeirri skoðun, að þær eigi að hætta móttöku, það sé of mikið ábyrgðarleysi af þeim að taka við loðnunni af bátunum. Þeir um það, þó að þeir hafi þessa skoðun.

Hv. 10. þm. Reykv. sagði hér hvað eftir annað, að ég hefði fullyrt, að ekki kæmi til verkfalls. Hann er álíka nákvæmur venjulega í sínum málflutningi. Ég tók það beinlínis fram og margsinnis, að það væri mín skoðun, að auðvitað gæti enginn fullyrt um það, hvort það yrði verkfall eða ekki, það væri ekki á valdi manns að fullyrða um það. En þó að ég segði þetta, kom hv. þm. hér upp og sagði, að ráðh. hefði fullyrt, að það yrði ekkert verkfall. Svona er nákvæmnin hjá þessum hv. þm. En það er ekki aðeins í þetta skiptið, hún er svona yfirleitt.

Þá hafði hv. 10. þm. Reykv. þá furðulegu sögu að segja um verksmiðjurnar hér við Faxaflóa, þær sem hafa gefið yfirlýsingu um, að þær hafi fallist á að taka við loðnu til bræðslu frá frystihúsum vegna eindreginna tilmæla ríkisstj., hann sagði það á sinn sérstaka hátt, að þær væru að segja ósatt, þó að þær hafi birt um þetta tilkynningu. Hann segir, að þær hafi verið búnar að ákveða þetta, en hafi verið beðnar um að segja, að ríkisstj. hefði beðið um það. Hún hefur auðvitað aldrei gert það. Og hann bætti því við á venjulega Morgunblaðsvísu, að það skipti engu máli, þó að ráðh. mótmæli þessu og segi, að þetta sé ósatt, við munum fullyrða annað í Mogganum á morgun, það mun birtast á morgun önnur full,yrðing, segir hann. Já, þetta er auðvitað hægt. Ég efast ekkert um, að hann getur birt svona fullyrðingu. Hann getur haldið því áfram. En hvað um það, hitt liggur nú fyrir og verður ekki hlaupið frá því, að ég hef rætt við eigendur þessara verksmiðja, bæði á sunnudag og mánudag, um þessa loðnumóttöku, og þeir hafa orðið við þessu. Það er rétt, þeir hafa þegar látið undan miklum þrýstingi frá ýmsum aðilum um það að taka við loðnu af einstaka bátum. En eigi að síður lá fyrir yfirlýsing þeirra og opinber tilkynning um, að þeir tækju ekki á móti meiri loðnu, og þeir breyttu þeirri tilkynningu og gátu þess, að þeir hefðu gert þetta m.a. vegna sérstakrar beiðni frá ríkisstj. Hv. þm. getur auðvitað haldið áfram að stagast á því, að þetta sé ekki rétt. Hann má gera það, hann gerir aðeins sjálfan sig hlægilegan á því.

En annað var það svo, sem kom hér fram í þessum umr., bæði hjá hv. 10. þm. Reykv. og eins 4. þm. Austf., að ástæðan til þess, að ekki væri búið að semja í verkföllunum, væri sú, að það hafi staðið á ríkisstj., það væri mergurinn málsins, sagði hv. 4. þm. Austf. og þóttist þar allt vita. En það var rétt það eins og hann vissi ekki, að staðið hafa yfir samningar á milli verkalýðsfélaganna í landinu og atvinnurekenda nú mánuðum saman. Ríkisstj. hefur fyrir sitt leyti t.d. tekið ákvörðun um það, að hún væri reiðubúin til að gera ákveðið tilboð til verkalýðsfélaganna um samningsgrundvöll af sinni hálfu varðandi sín ríkisfyrirtæki, en vegna eindreginna tilmæla bæði atvinnurekenda og nokkurra forustumanna úr verkalýðshreyfingunni hefur ríkisstj. látið bíða að gera þetta tilboð, af því að þessir aðilar hafa fullvissað ríkisstj. um það, að þeim miðaði verulega áfram í þá átt að ná samningum. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa margsinnis lýst því yfir í votta viðurvist, að það væri rangt, að það stæði sérstaklega á svörum frá ríkisstj. varðandi skattamál og húsnæðismál. Þeir hafa tekið það greinilega fram, að þeir væru ekki viðbúnir að segja til um afstöðu sína til þeirra hugmynda, sem þarna hafa verið settar fram, fyrr en þeir sæju, hvernig færi með launakjaramálin almennt. Það er því algerlega þýðingarlaust fyrir þessa fulltrúa Sjálfstfl. að ætla að skjóta atvinnurekendum undan ábyrgð í þessu máli, það hvíli engin ábyrgð á þeim, ábyrgðin sé öll á ríkisstj., af því að það hafi staðið á henni. Þetta er auðvitað bara fleipur. Auðvitað hefur staðið á því, að atvinnurekendur hafa ekki getað fallist á þær till., sem verkalýðshreyfingin hefur gert til þeirra. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar vita alveg um þær hugmyndir, sem fram komu fyrir löngu frá ríkisstj. um það, hvað hún hefði fram að færa í skattamálum og húsnæðismálum. En það er alveg rétt, þar er um flókin mál að ræða, sem fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafa talið, að þeir þyrftu að fá að skoða nánar, hvernig þeir vildu koma þessum hlutum fyrir. Það er því gersamlega út í loftið að segja, að það standi eitthvað á ríkisstj. í þessum efnum. En svo geta menn svona farið nærri um það, hversu gagnlegt það væri að fara að ráðum hv. 4. þm. Austf., Sverris Hermannssonar, að það hefði mátt greiða fyrir málinu með því að ræða hér á Alþ. þær hugmyndir, sem fram hafa komið í skattamálum og húsnæðismálum, eins og líka tónninn er hjá honum og öðrum, sem um þessi mál ræða, sem virðast ekki hafa neinn annan áhuga á þessum málum en að reyna að koma illu til leiðar varðandi lausn þessara deilumála.

Eins og ég sagði hér áðan, er afar einfalt mál að halda þessum umr. áfram, og ég vil segja við þessa tvo hv. þm.: Ég hef nógan tíma til að tala við þá í dag, og ég skal gjarnan ræða við þá hér í dag, ef þeir vilja. Hér er frv. á dagskrá um loðnumál, og þar er hægt að ræða við þá um þessi mál og engin þörf á því að gera það hér utan dagskrár. Og þegar hv. 4. þm. Austf. kemur hér og fitjar upp á umr. um launakjör á skuttogurum í þessum umr. um loðnumál, þá sjá menn auðvitað, hvert stefnir. Það er hægt að ræða við hann um launakjör á skuttogurum, ef hann vill. Það stendur ekkert á mér að gera það. En hann verður auðvitað að koma hér upp með enn öðrum hætti, t.d. utan dagskrár á morgun, til þess að reyna að fá af sér mynd í sjónvarpið, ef hann vill ná sama marki og hv. 10. þm. Reykv., til þess síðan að fara að tala hér um mál, sem engin þörf er á að ræða hér utan dagskrár. (PS: Ráðh. hefur sést í sjónvarpi án þess að hafa komið í þingið). Já ætli það ekki. En það er ekki farið svona vel með hv. 10. þm. Reykv., og af því brýst hann um á þennan sérkennilega hátt.