13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2191 í B-deild Alþingistíðinda. (1957)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram út af orðum hæstv. forseta, að það er mikið rétt, að hann hefur ekki beitt niðurskurði á umr. eins hart og t.d. hæstv. forseti Sþ., sem stendur með skeiðklukkuna í hendinni og telur upp úr mönnum sekúndurnar, þannig að þetta á ekki eins við um hæstv. forseti hv. deildar.

Ég ætla ekki að blanda mér í myndamál þeirra hæstv, sjútvrh. og hv. 10. þm. Reykv., en ég tek undir það með honum, til hvers voru refirnir skornir, þegar hann og hæstv. iðnrh. stóðu hér á blístri árum saman dag eftir dag og tóku til umr. jafnt verkfallsmál sem önnur mál á hinu háa Alþ.? Þetta er öllum mönnum kunnugt um.

Hv. þm. Halldór S. Magnússon taldi allt í eðlilegum farvegi og áleit réttast, að ef menn vildu orðfæra þessi mál, þá væri ekkert annað en biðja um útvarpsumræður. Það er naumast, að þeir eru orðnir viðkvæmir fyrir því, að rædd séu jafn þýðingarmikil mál og hér eru á ferðinni. Og hæstv. sjútvrh, ætlaði alveg að sleppa sér af æsingi yfir þessu og hneykslan, að menn skyldu leyfa sér að hefja máls á þessum þýðingarmestu málum, sem nú eru á dagskrá.

Hann hneykslaðist á ónákvæmni hv. 10. þm. Reykv. En hvar var hans nákvæmni í málflutningnum? Tók hann ekki fram, að mér hefði þótt eðlilegt, að þessar verksmiðjur hættu móttöku loðnu? Hvar kom það fram í mínu máli? Ég benti hins vegar á, hvað væri í húfi fyrir þær. Það kom aldrei fram í mínu máli, að ég teldi það eðlileg viðbrögð. En hann var spurður að því, hvort ekki væri eðlilegt fyrir hæstv. ríkisstj. að hafa samband við verkalýðshreyfinguna um það, hvort ekki væru möguleikar af hennar hálfu líka að hliðra eitthvað til til þess að bjarga þessum óhemju verðmætum, og hann svaraði því ekki á annan veg en þann, að menn vissu, að þeir væru tregir til slíkra hluta, þegar til slíkra úrslitaátaka væri komið. Og nákvæmni hans kom m.a. fram í því, að hér væri erindi okkar hv. 10. þm. Reykv. það eitt að koma illu til leiðar í sambandi við þessi mál. Þetta eru engar smáræðissakir, sem á okkur eru bornar, og ég vísa þeim á bug. Hins vegar minnist ég þess á liðnum áratugum, þegar ég átti sæti í samninganefndum verkalýðsins, að þar varð oft vart við hæstv. sjútvrh. bakdyramegin, þegar hæst stóð í stönginni um úrslit mála í samningum, án þess þó að ég ætli í neinu að bera á hann sakir þar að lútandi.

Hann lýsti því yfir, að fulltrúar verkalýðsins hefðu tekið fram, að ekki stæði á ríkisstj. varðandi þau þýðingarmiklu atriði, sem hún hafði lofað að leggja fram sérstaka lausn á. Hvaða fulltrúar verkalýðsins hafa lýst þessu yfir? Það væri gaman að fá að vita það. Hvar hefur það komið fram? Það virðist liggja nokkuð ljóst fyrir og mátti marka af þeim umr., sem fóru fram á dögunum, að þá höfðu nýlega verið lagðar fyrir fulltrúa verkalýðsins till. um úrbætur í skattamálum, þá nýlega eftir nær fjögurra mánaða þóf, a.m.k. heildartill. Og nákvæmni hæstv. ráðh. felst enn fremur í því, að hann sagði, að ég hefði rætt það hér, að átt hefði að leggja skattamálin fram til umr. hér. Ég tók nákvæmlega fram, og því má fletta upp, að það hefði átt að afhenda þm. þetta til athugunar og þá sem trúnaðarmál. Það má víða fletta upp í nákvæmni þessa hæstv. ráðh.

Hann fullyrti enn fremur, að ég hefði látið þess getið, að atvinnurekendur væru „stikkfrí“ í þessu máli. Það kom aldrei fram í minni ræðu. Mér er nákvæmlega kunnugt um það, að það veldur ekki einn, þegar tveir deila og ég er hreint ekkert að bera blak af þeim í þessu sambandi. Hins vegar vitum við það, að ýmsir þættir atvinnurekstrarins, og ég kom að einum þeirra, sem hann orðfærði þó alls ekkert sjálfur, eiga mjög í vök að verjast, og það eru fleiri þættir en skuttogaraútgerð. Það er t.d. iðnaðurinn í landinu. Og ég veit ekki, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlast til þess, að þeir aðilar undirskrifi samninga um stórhækkað kaup, þegar það liggur fyrir, að a.m.k. allur útflutningsiðnaður annar en fiskiðnaður, er rekinn með stórtapi.