13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2194 í B-deild Alþingistíðinda. (1959)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Meðferðin á rússneska rithöfundinum minnir okkur Íslendinga á, hversu þakklátir við megum vera að búa í landi, þar sem fullt frelsi ríkir. Við höfum leyfi til þess að hugsa, við höfum leyfi til þess að tala, og við höfum leyfi til þess að skrifa. Á Íslandi er engin skoðanakúgun, og við búum í þeim hluta heimsins, sem virðir persónufrelsið.

Rússneski rithöfundurinn er kominn til VesturÞýskalands. „Honum líkar það ekki,“ sagði hv. ræðumaður hér áðan, og það mun vera rétt, vegna þess að hann vill helst vera heima. Hann þorði ekki að fara til Svíþjóðar til þess að taka við Nóbelsverðlaunum, vegna þess að hann bjóst við, að hann yrði útlægur ger fyrir það. Hann mátti ekki taka við þeirri sæmd, sem honum var boðin, Nóbelsverðlaununum.

Þessi rithöfundur hefur dvalið langdvölum í þrælabúðum, og hann fer ófögrum orðum um stjórnarfarið í Rússlandi. Það er enginn vafi á því, að undir því stjórnskipulagi, þar sem einræði ríkir, er fólkið kúgað og hrjáð, og það er þess vegna sem við Íslendingar erum þakklátir fyrir að mega búa við annað þjóðskipulag, lýðræðisþjóðskipulag, þar sem frelsi ríkir á flestum sviðum. Vitanlega má oft benda á ýmsa misbresti í þessu stjórnarfari. En við skulum ekki bera það saman.

Hv. síðasti ræðumaður minntist hér á varnarliðið og varnarstöðina í Keflavík og fór ófögrum orðum um Bandaríkin, vegna þess að rithöfundur þar hafi verið kúgaður, og vildi jafna því saman við það, sem gerst hefur austan járntjalds. Þetta er ekkert sambærilegt. Í Bandaríkjunum er unnið fyrir opnum tjöldum og rannsóknir gerðar og rannsóknardómur settur á forsetann og æðstu menn þjóðarinnar. Þetta gerist ekki, þar sem einræði er. Þar er engin rannsókn þoluð á hendur þeim, sem með völdin fara.

Varnarliðið er hér á Íslandi samkv. samkomulagi og samningum við íslensk stjórnvöld. Þess vegna er rangt að tala hér um hersetu, og samkv. þessum samningi fer varnarliðið frá Íslandi, þegar Íslendingar vilja það. Ísland er þess vegna ekki hersetið land, vegna þess að við getum látið varnarliðið fara, þegar við viljum. En löndin í Austur-Evrópu eru hersetin, vegna þess að íbúar þeirra ráða því ekki, hvort her er í landinu eða ekki. Það er tilgangslaust fyrir Austur-Evrópuþjóðirnar að segja við Rússa: Við viljum ekki hafa varnarlið í landi okkar. — Rússnesk stjórnvöld hlýða því ekki. Þau fara ekki með herlið frá Tékkóslóvakíu, þau fara ekki með herlið frá Austur-Þýskalandi, Póllandi, Rúmeniu eða öðrum Austur-Evrópulöndum. Þau hafa herlið í þessum löndum og ráða miklu um stjórnarfarið þar og skapa ófrelsi. Þess vegna skulum við ekki bera þetta saman. Við getum verið þakklátir fyrir það, að við búum við frelsi, sem einræðisþjóðirnar fá ekki notið. Og við skulum vera sammála um það, allir íslendingar, hvaða stjórnmálaskoðun sem við höfum, að sýna rússneska rithöfundinum samúð, og við skulum vera sammála um að vegsama aldrei ofbeldið, vegsama aldrei ofbeldið, hver sem beitir því.