30.10.1973
Sameinað þing: 10. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1974

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú lagt fram fjárlög sín og þegar flutt sína fjárlagaræðu, og mun ég að sjálfsögðu víkja að nokkrum atriðum, er varða hana. En áður en ég geri það, vil ég fara nokkrum orðum um þau ummæli, sem hæstv. ráðh. lét falla um mig persónulega í sinni fjárlagaræðu, sem eru af því tagi, að ég get ekki látið þeim ómótmælt. Niðurstaða hans, þegar hann hefur farið um mig nokkrum orðum, er á þessa leið :

„Hins vegar er ég eftir atburði síðustu daga reynslunni ríkari um meðferð þeirra, er telja sig sérstaka siðapostula, á því, sem heitir trúnaður.“ Að vísu er þetta svo illa orðað, að ég á erfitt með að átta mig á því, hvað þetta merkir. En mér skilst, að ég hafi brotið þarna einhvern trúnað, sjálfur siðapostulinn. Nú vil ég segja um þetta nokkur orð.

Orð hæstv. ráðh. munu vera fram komin af ummælum mínum í ræðu minni í útvarpsumr., þar sem ég vitnaði í bréf hæstv. ráðh. Og ástæðan er sú, að hæstv. ráðherra hafði haft í huga að leita ríkissjóði nýrra tekna og leitaði þá eftir afstöðu minni til þess máls, og frá hans hendi var það þá trúnaðarmál að sjálfsögðu. Ég skrifaði hæstv. ráðherra bréf, þar sem ég tók fram, að ég væri andvígur, eins og málum væri háttað, nýjum álögum á almenning, taldi, að nóg væri komið. Síðan gerist það í þessu máli, að ekkert varð úr þessu, af því að hæstv. fjmrh. taldi ekki ástæðu til þess að fara út í tekjuöflun á miðju sumri. Þetta komst í blöðin, án þess að ég ætti þar neinn hlut að máli, en neitaði að svara spurningum um þessi mál. Gylfi Þ. Gíslason vakti máls á þessu hér í útvarpsumræðum síðustu. Mér er ógerningur að sjá, hvernig ég hef á einn eða annan hátt brotið trúnað í þessu efni, enda hef ég hvergi minnst á, hvaða fyrirhugaðar tekjuöflunarleiðir ráðherrann hafði í huga, enda vil ég benda á, að það var ég sjálfur, sem skrifaði bréfið. Þetta var mitt bréf. Það, sem vakti fyrir mér með því að vitna í mitt bréf, var ósköp einfaldlega þetta: Ég lagðist gegn auknum álögum af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess, að ég tel, að það sé enginn endir á auknum álögum, eins og efnahagsstefnan er. Hins vegar var tekin upp í fjárlagafrv. söluskattshækkun, sem ég hafði þegar hafnað, og ég vildi bara með því benda á, að það hafði ekki verið haft neitt samráð við mig um hækkun söluskatts í fjárlfrv. og þess vegna hlyti ríkisstj. ein að bera ábyrgð á slíkri söluskattshækkun. Þetta var allt og sumt, sem fyrir mér vakti. Ég á erfitt með að sjá það, að tekjuöflunarleiðir, sem hugsaðar eru um mitt sumar, geti verið leyndarmál, þegar komið er fram á vetur, eins og málin hafa þróast. Þegar hæstv. ráðh. talar um trúnaðarbrot af minni hálfu, þá felli ég það undir orðskviðinn: sannleikanum verður hver sárreiðastur, og var það út af minni útvarpsumr. Nóg um þetta.

Það er talið, að verðbólguaukningin í Danmörku muni á þessu ári vera um 8%, á Íslandi 22%. Þetta sýnir tvennt: í fyrsta lagi, að það er almenn verðbólga í iðnaðarlöndum Vestur-Evrópu, og það sýnir líka hitt, að verðbólgan á Íslandi er meiri en nokkurs annars staðar meðal þjóða á Vesturlöndum. Það merkir, að hún er næstum þrisvar sinnum meiri en á Norðurlöndum. Þetta er hin ógnvekjandi staðreynd, sem hefur m. a. valdið því, að ég hef við ýmis tækifæri reynt að henda á nauðsyn þess að fara sér hægt í útgjöldum, reyna á þann veika hátt, sem unnt er, að sporna við verðbólgunni. Þetta er grundvallaratriðið. Ég hef talið, að með þessum miklu og stórstigu hækkunum í fjárlagafrv. frá ári til árs — það er rúm 300% hækkun á þremur árum — sé farið of geyst í hlutina og það þurfi að hafa meira aðhald í sambandi við fjármál ríkisins. Þetta er mín grundvallarhugsun, ef við viljum reyna að hafa efnahagslífið á traustum fótum.

Ég mun víkja að þessari efnahagsstefnu í heild nokkru síðar, en víkja að einu atriði, sem ég hef líka sérstaklega tekið eftir, og það er, að sjálf efnahagsstefnan, eins og hún er rekin núna, kallar stöðugt á meiri álögur á almenning. 2% söluskattshækkun í janúar, eins og nú er gert ráð fyrir, er eins og dropi í hafið. Það þarf 17% á miðju sumri, það þarf 19% næsta vetur o. s. frv. Og spurningin er því bara: Hvar á að nema staðar í álögum á almenning? Þetta er spurningin. En það er mjög erfitt að fylgja þessari stefnu, meðan svona er háttað. Á móti kemur svo hitt, sem ég skil fullvel, þ. e. að framkvæma sem mest. Það er mjög eðlilegt að kaupa skuttogara, gera fjárfestingar í byggðarlögum og reka byggðastefnu. Þetta er allt nauðsynlegt og sjálfsagt. Engu að síður komast menn ekki fram hjá þeirri staðreynd að reka þessa stefnu á þá lund, að hún sé háð þjóðfélagslegum fjárhagsaðstæðum. Álögurnar á almenning, sem ég hef mjög gagnrýnt, sýna það berlega, að hér þarf að sporna við. Þetta getur ekki haldið svona áfram.

Ég vil taka það strax fram, að einn megingallinn á skattakerfinu núna eru beinu skattarnir, sem koma níðþungt niður á láglaunafólki og jafnvel miðlungstekjufólki. Og ég hef alltaf haft fullan skilning á því, að það væri æskilegt, ef rétt er á haldið, að breyta skattaforminu verulega á þá lund að fara yfir í óbeina skatta. Það, sem ég vil andmæla, er að hækka nú söluskattinn að óbreyttu tekjuskattskerfinu, eins og er gengið frá því í fjárlagafrv. M. ö. o.: það á ekkert að gerast í skattamálum nema það eitt að auka söluskatt um 2%. Ég vil vekja sérstaka athygli þm. á því, að ég er ekki að leggjast gegn því að breyta því innheimtuformi að lækka beina skatta og fara yfir í óheina, heldur hinu, að öllu er haldið óbreyttu, en álögurnar auknar. Og ég endurtek: það er kominn tími til að átta sig á þessum hlutum.

Annað, sem hefur sérstaklega lagst illa í mig — og ég bið hæstv. fjmrh. afsökunar, þó að ég noti heldur lítilmótleg orð, og það er að hækka söluskattinn upp í 16% og láta það vara í tvo mánuði, þá kalla ég það sullum bullum: að láta sér detta í hug að hækka söluskatt um 2 stig og láta það einungis gilda í tvo mánuði. Ég hygg, að það sé vandfundin nokkur hliðstæða frá Norðurlöndum um slík vinnubrögð. Söluskattur er af því tagi, að þegar hann er einu sinni tekinn upp, þá verður hann í verðlaginu. Og það, vita allir af gamalli reynslu hér, að 1. mars lækkar ekki söluskatturinn skyndilega um 2%, heldur heldur þetta meira og minna áfram í öllu kerfinu. Ástæðan fyrir þessu vinnulagi er sú að geta haft af launþegum kaupgreiðslu í tvo mánuði, þ. e. a. s. fella þetta niður 1. mars, þegar reikna á út kaupgreiðsluvísitöluna. Þetta er sannkallað sullum bullum. Og ég skil bara ekki, hvernig mönnum betur dottið þetta í hug.

Varðandi söluskattinn sjálfan vil ég benda á það, að hann er mjög varasamur. Innheimtan er ákaflega ótrygg. Ég man ekki betur en að Emil Jónsson, fyrrv. ráðh., lýsti því yfir, þegar söluskatturinn var 7%, að hann teldi víst, að 500 millj. af söluskattinum væri meira og minna stolið undan. Þetta felur í raun og veru í sér, að því hærri sem söluskatturinn er, því meiru er undan stolið. Og það er spurning, hvort ekki eigi að taka upp nýtt kerfi. Mér er kunnugt um það, að t. d. í Kanada, þar er 12% söluskattur, en þeir hafa 8% á heildsölustiginu og 4% á smásölustiginu og innheimtist miklu betur að þeirra sögn. Sú stefna að hækka verulega söluskattinn hefur vissar hættur í för með sér, og þá verður að gera viðhlítandi ráðstafanir.

Það, sem mér var líka nokkur gremjuauki, var, að þessi ríkisstj., sem telur sig stjórn hins vinnandi fólks, skuli ætla að hækka söluskattinn, sem kemur að sjálfsögðu harðast niður á barnafjölskyldunum, og lækka líka fjölskyldubæturnar um leið. Ég hygg nú, að ef hæstv. fjmrh. hefði verið í stjórnarandstöðu, og ég tala nú ekki um hæstv, iðnrh., þá hefði hann farið hamförum hér í þingsölum og í Þjóðviljanum yfir slíkum vinnubrögðum. En það virðist vera þannig, að þegar menn skipta um sæti hér, þá er hið góða orðið vont og hið vonda gott. En þetta heitir víst pólitík.

Ekki vil ég láta hjá líða að minna á eitt og það er það, að í málefnasamningi ríkisstj. er sagt frá því, að stefna eigi að því að fella niður söluskatt á lífsnauðsynjum. Það á að fella niður, — nú á að hækka hann upp í 15%. Að vísu skal ég ekki lá neinum, þó að ekki sé hægt að standa við þetta til fullnustu. En svona kapphlaup til að svíkja málefnasamninginn er heldur hvimleitt, og það hlýtur að vera til sú hugsanlega leið að athuga, hvort ekki sé hægt að innheimta óbeina skatta af munaðarvarningi og halda söluskattinum frá hversdagslegum nauðsynjum fólks. Með munaðarvarningi á ég fyrst og fremst við þann varning, sem fólk þarf ekki að nota, eða þær vörur, sem fólk þarf ekki að nota hversdagslega, og reyna á þann hátt að létta undir með því fólki, sem á efnahagslega í vök að verjast.

Af þessum orðum mínum má ráða, að ég mun ekki styðja hækkun söluskatts, eins og gert er ráð fyrir í fjárlfrv. Hins vegar er ég til viðtals um að gera verulegar endurbætur á tekjuskattinum og þá komi fram einhver hækkun á söluskatti. En ég er andvígur því, að þetta valdi auknum heildarálögum á almenning.

Hæstv. fjmrh. hefur látið orð falla í fjárlagaræðu sinni á þessa leið: „Ég er sannfærður um, að skattabyrðin er ekki slík, að undan þurfi að kvarta.“ Þetta er nú eins og í leikriti eftir Holberg. Sérstaklega, þegar ein meginkrafa verkalýðsfélaganna er að grátbiðja hæstv. fjmrh. um að lækka skattana. Þetta er meginkrafa þeirra. Og hverjir finna þetta betur en þeir, sem eiga að greiða skattana? En hvað varðar skattana ennfremur, þá kemur það fram í grg. með fjárlfrv., að kjarasamningar geti væntanlega haft áhrif á skattalögin, m. ö. o. það er biðtími, það er beðið eftir því, hver verður niðurstaðan í kjarasamningunum. Við svona vinnubrögð hef ég töluvert að athuga. Í fyrsta lagi er skattalöggjöfin dregin út úr höndum Alþingis og færð út til hagsmunahópa í þjóðfélaginu, þ. e. a. s. það verða þá atvinnurekendur og verkalýðsfélögin í samráði við fjmrh., sem taka af skarið, hvernig eigi að laga skattalögin, og, síðan koma þessir 59 þm., sem ekki eiga í hlut, og eiga að samþykkja það. Með þessu er ég að segja, að þetta er framhald á þeirri lítillækkun, sem á sér stað á Alþingi og störfum þess. Það er verið að færa stöðugt fleiri og fleiri málaflokka út úr Alþingi og gera að samningsatriði milli einstakra hópa í þjóðfélaginu, og ég tel þetta ekki skemmtileg vinnubrögð.

Hvað lýtur að verkalýðsfélögunum sjálfum, þá skil ég það fullkomlega, að þeim er mikill akkur í því að fá leiðréttingu á skattalögunum. Hins vegar verð ég að segja það, að það er mjög vafasöm stefna hjá verkalýðsfélögunum að fórna kauphækkunum út á leiðréttingar á skattalögum. Ástæðan er einfaldlega sú, að ríkisstj., hver og ein ríkisstj., getur sett þannig skattalög, að verkalýðsfélögin standi stöðugt í stríði við viðkomandi ríkisstj. að fá þau leiðrétt og þurfi þá að fórna kauphækkunum í staðinn. Í öðru lagi hlýtur það að vera dálítið vafasamt, að hið opinbera eigi þá að koma til móts við atvinnurekendur og taka þátt í að greiða launakjör verkafólks. Og einmitt á þennan hátt er kaupi láglaunafólks haldið niðri. Sá háttur ætti auðvitað að vera á, að þessi stjórn, sem telur sig stjórn hins vinnandi fólks, ætti að laga skattana eftir bestu getu og vitund fyrir þetta verkafólk, sem berst fyrir bættum kjörum, og vinna þannig heiðarlega að málunum.

Hæstv. fjmrh. hefur gert margar ágætar og rækilegar aths. um breytingar á íslenskri skattalöggjöf. Þar vikur hann að ýmsum meginþáttum, t. d. sýnir hann fram á galla tekjuskattsins, þar minnist hann á söluskattinn, á skattsvik, viðurlög við skattsvikum o. s. frv. Og mér finnst þessi kafli í ræðu fjmrh. einkar geðfelldur. En vandinn er bara þessi, að það er gert ráð fyrir, að skattheimtan verði óbreytt, með þeim fyrirvara, sem felst í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. En hér er á það að benda, að þessar breyt., sem fjmrh. boðar, eru einhvers konar vonartilboð. Þetta er 3. ár þessarar ríkisstj., þ. e. a. s. 3. árið, sem við eigum að búa við þessi skattalög, og þau eiga að halda áfram, en svo á vonarglætan að vera í einhverjum framtíðarviðhorfum, sem vissulega eru mjög góð. Það er bara eitt í þessu, og ég vil vara sérstaklega fjmrh. við því, að ef hann lætur nú ekki hendur standa fram úr ermum og gerir átök í þessu efni, þá gæti hann verið oltinn úr stólnum, áður en breytingar þessar næðu fram að ganga. Þetta er grundvallaratriðið. Það þarf að gera breyt. á þessum skattalögum sem fyrst, þannig að láglaunafólk og fastlaunafólk geti við unað.

Ég tók eftir því, að fjmrh. viðurkennir, að það sé um töluverð skattsvik að ræða í þjóðfélaginu. Þetta snertir ekki bara söluskattinn, heldur líka tekjuskattinn, og ég lít svo á, að skattsvikin hér í þjóðfélaginu séu bara ein afleiðing af þeirri gífurlegu verðbólgu, sem á sér stað í þjóðfélaginu. Það er alls staðar vinnuaflsskortur. Iðnaðarmenn, sem eru mjög eftirsóttir, ekki síst í byggingariðnaðinum, hafa tvo taxta: annan, sem þeir þurfa að greiða skatt af, og hinn, sem þeir þurfa ekki að greiða skatt af. Þetta er reynsla allra þeirra, sem fást við byggingar. Ég er sannfærður um, að það er stolið undan skatti hér mörgum hundruðum milljónum, ef ekki milljörðum, svo að það er von, að hæstv. fjmrh. telji nauðsynlegt að minnast á skattsvikin.

Og viðurlögin við skattsvikum! Ég man ekki betur en að fram hafi komið raddir um að beita sams konar viðurlögum og tíðkist við skattsvikum eða undanbrögðum við skattgreiðslum hjá öðrum þjóðum. Þar er alls staðar litið á undanbrögð við skattgreiðslu, sem ígildi fjárdráttar og viðurlög í samræmi við það. Þetta átti auðvitað að koma strax, en það er mjög gott, að fjmrh. hefur nú áttað sig á þessu, og ég vænti þess, að hann muni nú gera fyrr en siðar einhverjar breyt. í þessu efni. Ég hygg, að það sé enginn vafi á því, að það þarf að gera stórátök í sambandi við skattheimtuna, eftirlitið og breyta l. um viðurlög við skattsvikum. Þetta er alveg nauðsynlegt. Og hvers vegna gætum við ekki haft það eins og aðrar þjóðir? Þurfum við að sýna nokkra meiri linkind í þeim efnum en t. d. frændur okkar á Norðurlöndum?

Það er mikið talað um þá stefnu stjórnarinnar að auka samneyslu, og ég hef skilið það þannig, að það sé verið að auka hlutdeild ríkisins og auka þjónustu við hinn almenna borgara. Þetta er gott og blessað, og ég styð þessa stefnu. En það er bara spurningin, hvernig fjár er aflað til þess að standa undir samneyslunni. Það er mergurinn málsins. Meginfjármagnið er sótt einmitt til fastlaunafólksins, sem stendur undir þessari auknu samneyslu. En það er litið sótt til þeirra aðila, sem raunverulega hafa fjármagnið og græða á þeirri verðbólgu, sem á sér stað í þjóðfélaginu, og þetta er ein mín meginádeila á ríkisstj., að hún heldur uppi samneyslu fyrir almenna borgara með því að leggja þungar byrðar á fastlaunafólk. Það á að auka samneysluna, en sækja fyrst og fremst fjármagnið, þar sem það er í þjóðfélaginu. Eða er ekkert fjármagn í þjóðfélaginu? Við sjáum í kringum okkur t. d., hvernig lóðir og lendur skila af sér hagnaði, svo að tugmilljónum króna skiptir, og ef eigandinn hefur átt eignina í nokkur ár, þarf hann ekki að greiða eyri til ríkisins. Ég nefni þetta sem dæmi. Svo er verið að elta uppi til skattgreiðslu einhverja hafnarverkamenn, sem hafa 150 kr. á klukkutímann. Ég verð að segja það, að mér þykir furðulegt, hvað það er mikill slappleiki í þessari stjórn við að sækja fjármagnið þangað, sem fjármagnið er. Sem betur fer hefur nú fjmrh. lýst því yfir í fjárlagaræðu sinni, að hann vilji athuga einmitt þennan tekjuskatt af sölu á lóðum og lendum, og ég vænti þess, að það gerist fyrr en síðar.

Í sambandi við verðbólguna er það að segja, að fastlaunafólkið verður mest fyrir barðinu á skattheimtunni. Ekki það, að fastlaunafólkið vilji ekki gjarnan greiða til ríkisins, heldur hefur það bara enga undankomuleið eins og stórir hópar af öðrum þjóðfélagsþegnum. Og það er fyrst og fremst verðbólgan, sem skellur á þessu fastlaunafólki og skapar að sjálfsögðu smám saman eignamismun í þjóðfélaginu. Það er alveg merkilegt, að þessi rök, sem ég er að tala um núna, hafa dunið hér á Alþ. allan viðreisnartímann, en nú eru þessir flokkar komnir í stjórn, og þá heyra þeir ekki, hvað sagt hefur verið. Þá vinna þeir á alveg nákvæmlega sama hátt og viðreisnarstjórnin í þessum efnum. Það er sami rassinn undir þeim öllum.

Hæstv. fjmrh. kemst svo að orði í ræðu sinni um innlán í bönkum og sparisjóðum: „Það hefur þó breyst á þessu ári, því að á 9 fyrstu mánuðum ársins hefur aukningin í innlánum í bönkum og sparisjóðum orðið 5 milljarðar 771 millj. kr. Þetta er geysilega mikil aukning, miklu meiri en verið hefur, og það sýnir, að fólk“ — takið nú vel eftir — „trúir og treystir sínum peningum meira en þeir, sem eru með barlómsvælið, vilja vera láta,“ — trúir og treystir sínum peningum. Aðalgallinn við efnahagskerfið er það, að fólkið trúir og treystir ekki peningunum. Það eru allir að flýta sér að losna við þá, og þessi tala, 5 milljarðar 771 millj. kr., segir alls ekki nokkurn skapaðan hlut, því að þetta er ósundurliðað. Þarna þarf að vita, hvað er veltiinnlán, hvað er spariinnlán, og eru ekki margir lífeyrissjóðir í þessu, þar sem fólk er skyldugt að leggja fyrir? Þessi tala segir ekki nokkurn skapaðan hlut.

Ég hef löngum saknað þess, sem er kallað festa í efnahagsmálum. Ráðh. segir, að það sé festa í efnahagsmálunum. Ein þeirra röksemda, sem hann beitir, er af því tagi, að ríkisstj. hafi þrívegis hækkað gengi íslensku krónunnar gagnvart dollar á þessu ári. Síðan segir: „Segir þetta það, að íslenska ríkisstj. hafi ekki vald á efnahagsmálum? Nei, einhvern tíma hefðu þessir þættir ekki verið taldir til skýringar á stjórnleysi eða valdleysi ríkisstj. yfir efnahagsmálum, heldur hinu gagnstæða.“ Þetta er dæmalaus kokhreysti. Það er eins og ráðherrann viti það, að ríkisstj. gerði þau hrapallegu mistök í des. s. l. að lækka krónuna um 10.7% gagnvart dollar og braut þar með auðvitað málefnasamninginn og það sem var miklu verra: hratt af stað þessari miklu verðbylgju eða flóði, sem á sér stað í þjóðfélaginu, því að þetta fór allt inn í verðlagið. Og þessar gengishækkanir, sem nú eiga sér stað, eru aðeins tilburðir til að reyna að snúa hjólunum til haka, en það er bara ekki hægt. Þegar áhrif 10.7% gengisfellingar eru komin inn í verðlagið, þá er ekki hægt að gera gengishækkun nokkru seinna og halda, að þeir geti snúið hjólinu við.

Einhvern tíma minnir mig það, að fjmrh. hafi talað um gengisfellingar í stjórn viðreisnar, og ég tala nú ekki um Alþb. og mína fyrri samherja, en nú er það gott og blessað. Og hin nýja efnahagsstefna er þá fólgin í því að hækka gengið um nokkur prósent þrívegis á þessu ári.

Ég vil taka það alveg skýrt fram, að ríkisstj. hefur gert töluverð átök í atvinnumálum. Hún hefur byggt upp togaraflotann, sem var vanræktur á tímum viðreisnar, hún hefur endurnýjað bátaflotann, og það eiga sér stað margs konar verklegar framkvæmdir með þjóðinni, og fyrir það her að þakka. Og ég er síst af öllu að áfellast slíkt, því að það er náttúrlega krafa til hverrar stjórnar, að hún standi fyrir slíku. Mín ádeila er bara sú, að þarna er ekki farið að með nógu mikilli gát, þ. e. a. s. áætlunarbúskapurinn og forgangsröðun verkefna er meira á orði en borði. Það er vel hægt að fjárfesta, annað hvort með láni í bönkum, erlendu láni eða innlendu láni eða leggja þungar álögur á almenning. En það er eitt atriði, sem er ekki hægt að bæta úr, og það er vinnuaflsskorturinn. Hinn mikli vinnuaflsskortur er gleggsti vitnisburður um það, að hér er farið of hratt, og það spillir út frá sér á allar lundir. Það þarf að manna 40 togara, fiskiðjuverin þurfa að hafa fólk til þess að sinna fiskinum. Mér skilst núna, að hér hafi verið lokað meira að segja í borginni fiskiðjuver, af því að það var ekki til fólk að vinna þar. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það er alls staðar hægt að slá fé, en vinnufólk, vinnuafl verður að hafa til hlutanna, og þetta er að verða eitt alvarlegasta vandamálið í sambandi við atvinnuvegina og ekki síst þegar vertíðin hefst af fullum krafti núna seinna í vetur. Og einmitt vinnuaflsskorturinn, sem hefur að sjálfsögðu valdið gífurlegu launaskriði í landinu, ruglað öllum hagreikningum og er einn þátturinn í þessari gífurlegu verðbólgu, er auðvitað glöggur vitnisburður um það, að hér þarf að fara að með gát.

Ég get ekki látið hjá líða í sambandi við áætlunarbúskap og forgangsröðun verkefna að minna á það, hversu duglítil þessi ríkisstj. hefur verið að sporna við útþenslu bankakerfisins. Þar horfir ríkisstj. á og þykist máttvana, meðan Seðlabankinn leggur í það að reisa bankahús, sem kostar sjálfsagt hálfan milljarð, Landsbankinn byggir, Samvinnubankinn byggir o. s. frv. Bankarnir byggja fyrir bersýnlega milljarða kr., en þá er spurningin: Er þá ástæða fyrir ríkisvaldið að vera að tala um áætlunarbúskap og forgangsröðun verkefna, meðan svona stór faktor í sjálfu efnahagskerfinu er utan við skipulag hlutanna? Það, sem þarf að gera, er náttúrlega að skera niður fjárl., að draga úr kostnaðinum, ekki aðeins hjá ríkisbúskapnum að sjálfsögðu, heldur líka hjá sveitarfélögunum og einkaneyslunni. Þetta er mjög erfitt. Ég vil benda t. d. á, að það þarf að endurskoða almannatryggingakerfið. Þetta er orðið risavaxið, 36% af heildarútgjöldum fjárl. eru til almannatrygginga. En um leið hafa almennu tryggingarnar gegnt að vissu leyti hlutverki sínu. Ég sé t. d. enga ástæðu til þess, að allir fái fjölskyldubætur. Væri ekki rétt að miða fjölskyldubætur við efnahag, eins og í Danmörku, eða t. d. greiða ekki þeim mönnum ellilífeyri, sem eru kannske í 3–4 verðtryggðum lífeyrissjóðum og geta haft allt að því 200–300 þús. kr. í ellilífeyri úr öðrum sjóðum? Ég sé ekki betur en það þurfi að fara að endurskoða undirstöðu almannatrygginga, þ. e. a. s. almennar tryggingar eiga að vera jöfnunartæki, eins og réttilega kemur fram í ræðu fjmrh., en ekki almennt dreifingarkerfi fjármunanna.

Ég hef nú gagnrýnt nokkuð þessi fjárlög, og ég hygg, að sum gagnrýni mín sé af sama toga og hæstv. fjmrh. gagnrýndi fyrri stjórnir, þegar hann var málsvari Framsfl. á þingi. Þá vék hæstv. fjmrh. mjög að aðhaldsleysi fyrri ríkisstj. og verðbólgu þeirri, sem þar átti sér stað, þannig að ég hygg, að við séum í raun og veru sammála, ef Halldór sjálfur sæti ekki í ráðherrastóli.

Varðandi Alþb, vil ég segja það sérstaklega, að það kemur dálítið á óvart, hvað sá stjórnaraðili er linur í gagnrýninni. Það er vitað mál, að nú eru verðbólgutímar hinir mestu frá stríðslokum, sem skapa sjálfkrafa eitt mesta efnahagslegt misrétti í þjóðfélaginu. En nú er ekkert sagt lengur. Gengisfelling var gerð, nú er ekkert sagt lengur. Nú gengur jafnvel Alþb. fram fyrir skjöldu til að reyna að leggjast á kaupkröfur verkamanna og halda þeim í skefjum, öðruvísi mér áður brá. Alþb. finnst skattamálin í hinu besta horfi. Öðruvísi mér áður brá, því að nú eru gróðamennirnir stórtækari en nokkru sinni fyrr. Hækkun söluskatts á sér stað, og fjölskyldubætur eru lækkaðar. Öðruvísi mér áður brá. Og baukakerfið, man nú enginn Alþb.-maður ræður Einars Olgeirssonar hér þing eftir þing, þar sem hann talaði um bankavaldið? Man það nú enginn? Öðruvísi mér áður brá.

Hvað varðar SF hef ég ekkert að segja, því að sá flokkur stefnir að því að leggja sig niður, svo að mér er alveg óljóst, fyrir hverju þau samtök berjast.

Í raun og veru eru til tvær leiðir: Annars vegar að halda fram óbreyttri stefnu með töluverðri uppbyggingu atvinnuveganna, en um leið sífellt meiri og meiri verðbólgu, sem leiðir þá af sér margvíslegt þjóðfélagslegt misrétti, sem fylgir verðbólgunni. Þessari stefnu er unnt að fylgja, svo lengi sem sjávarafurðir Íslendinga haldast í jafnmiklu og góðu verði erlendis þá getur þetta blessast. En þetta grefur að sjálfsögðu undan atvinnugreinunum smám saman og gefur leitt til skyndilegs hruns. Nú vil ég ekki vera neinn móðuharðindaspámaður, síður en svo, en að sjálfsögðu gæti svo farið, ef yrði eitthvert verðfall á erlendum mörkuðum, að þá væri öllu stefnt í voða. Ég vil halda því fram, að það sé nokkurt öryggisleysi fólgið í þessari efnahagsstefnu.

Til er líka sú stefna að reyna að halda áfram skipulegri uppbyggingu atvinnuveganna og gera það þá með raunverulegum áætlunarbúskap, en ekki bara fínum yfirlýsingum. Ég vil geta þess, að Framkvæmdastofnunin hefur ekki fengið að fjalla um stærstu málin í efnahagslegri uppbyggingu þjóðarinnar. Togaramálin hafa ekki verið send þangað, né heldur Sigölduvirkjun. Framkvæmdastofnunin virðist vera upp á grín hér. M. ö. o.: það þarf að vinna að raunverulegri uppbyggingu atvinnuveganna og skipulegri vinnubrögðum, taka fyrir skattsvikin, eftir því sem unnt er, fella bankana undir áætlunarskipulagið, leggja skatta á þá, sem græða stórfé með eignasölum á þessum verðbólgutímum, þannig að þær skili einhverju til þjóðfélagsins. Það gildir bara ein regla um þessa hluti, og hún er sú, að enginn á að hagnast á öðru en eigin vinnu, því, sem hann sjálfur skilar til þjóðfélagsins. Þetta er grundvallarregla.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri að sinni, en vil að lokum segja þetta: Það er ekki íhaldssemi að tala um ráðdeild og sparsemi, það er almenn skynsemi. Og ég vil enn minna á það, að t. d. í Danmörku er verðbólga, eins og ég sagði í upphafi. Þar hafa jafnvel vinstri flokkarnir, sósíaldemókratar og Sosialistisk Folkeparti, gengið í það að reyna að skera niður allt það, sem verða má, á fjárl. Þetta eru bara nauðsynlegir hlutir, sem menn verða að horfast í augu við. Hins vegar er það náttúrulega ábyrgðarleysi að reyna að gera ekki einhverjar hamlandi ráðstafanir á þessum verðbólgutímum, sem nú eiga sér stað.