13.02.1974
Neðri deild: 61. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á Mathiesen:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hóf hér umr. utan dagskrár um mál, sem hann gat um, að hefði verið til umr. utan dagskrár í upphafi þingfundar í hv. Ed. Hann vék að því í ræðu sinni, að þar hefðu þrír þm. Sjálfstfl. lýst hryggð sinni yfir þeim atburðum, sem hafa verið að gerast í Sovétríkjunum gegn hinum kunna Nóbelsrithöfundi. Hann vildi taka undir það, sem þar hafði verið sagt. Hann hafði heyrt það eins og ýmsir aðrir þm., sem gengu þar um d. eða voru í hinu svokallaða ráðherrabergi. Þm. vék hins vegar ekki að því, að utan dagskrár í Ed. hefði verið varpað fram fsp. til hæstv. utanrrh., hvort þær fregnir, sem sjónvarpið sagði frá í gær, gætu verið réttar, að í utanrrn. hefði komið fulltrúi úr sendiráði Sovétríkjanna til þess að gera aths. við ummæli hæstv. menntmrh., sem hann viðhafði í sjónvarpinu fyrir nokkru varðandi þennan rithöfund og þá meðferð, sem hann hafði hlotið í Sovétríkjunum.

Ég skal ekki lengja þessar umr. Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, og lýsi hryggð minni yfir því, með hvaða hætti hér er að farið. Ég tel hins vegar ekki smekklegt að gera það með þeim hætti, sem hv. 5. þm. Vesturl. gerði, en hv. 1. þm. Sunnl. vék að því hér í sinni ræðu.

Mig langar til að beina því til hæstv. utanrrh., hvort hann vildi ekki skýra þessari hv. þd. frá þeim staðreyndum, sem í þessu máli eru, og endurtaka hér í hv. Nd. þær upplýsingar, sem hann gaf hv. Ed. varðandi komu þessa fulltrúa sendiráðs Sovétríkjanna í utanrrn. til þess að gagnrýna orð hæstv. menntmrh. í íslenskum fjölmiðli um það mál, sem hér hefur verið rætt, ef hæstv. utanrrh. vildi gera svo vel.