14.02.1974
Sameinað þing: 56. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2210 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

179. mál, rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Við þm. Sunnl. allir höfum leyft okkur að flytja till. til þál. á þskj. 310 um rannsókn á gerð nýrrar hafnar á suðurströndinni.

Á síðasta þingi var samþ. till., sem gekk nokkuð í þessa átt. Sú till. var samþ. í tilefni gossins í Vestmannaeyjum. Tekið var fram í till., að tekið skyldi til athugunar, hvar best væri að byggja nýja höfn á suðurströndinni. N. var skipuð samkv. till., sem vann að nokkru leyti að þessu starfi, en þó ekki að leita eftir nýju hafnarstæði, heldur til að leysa hafnarmálin að nokkru leyti, eins og nm. munu hafa sagt og beindist þá athygli þeirra að Þorlákshöfn og Grindavík. Má segja, að till., sem samþ. var á síðasta þingi, hafi haft viss áhrif, þau, að miklu fé verður varið til hafnarbóta í Þorlákshöfn og nokkru til Grindavíkurhafnar. Er að vísu nokkuð umdeilt, að það skyldi gert í tilefni gossins, eftir að gosið er frá liðið og Vestmannaeyjabátar nota ekki lengur Grindavíkurhöfn. En það er mál út af fyrir sig, sem ég sé ekki ástæðu til að ræða nú.

Á s.l. sumri skrifaði þáv. samgrh. Framkvæmdastofnun ríkisins bréf og lagði til, að skipuð yrði ný n. til að rannsaka hafnarmál suðurstrandarinnar. Nokkrir af okkur þm. Sunnl. áttum fund með stjórn Framkvæmdastofnunarinnar um þetta mál, og virtist ekkert vera til fyrirstöðu af hennar hendi að skipa þessa n. Gerðum við till. um, hvernig n. skyldi skipuð. En af einhverjum ástæðum varð ekkert af því, að n. yrði skipuð, og i haust kom annað bréf úr samgrn., eftir að ráðherraskipti höfðu orðið, og þar var lagt til að hætta við þessa nefndarskipun, en fela Hafnamálasambandinu að gera athugun á hafnamálum Sunnlendinga.

Þetta finnst okkur þm. Sunnl. ekki eðlileg eða raunhæf lausn. Við viljum halda okkur að þeirri till., sem var uppi á s.l. sumri, og kjósa n. til þessara starfa. Í þeirri till., sem hér er um að ræða, er lagt til, að skipa 5 manna n., einn sé tilnefndur af sýslunefnd Árnessýslu, einn sé tilnefndur af sýslunefnd Árnessýslu, sýslunefnd Vestur-Skaftafellssýslu, einn af bæjarstjórn Vestmannaeyja og einn af samgrn. án tilnefningar, og skal hann vera formaður n. Þetta þykir okkur heppilegasta skipun mála. Með því að haga skipuninni á þennan veg koma fulltrúar, sem eru kunnugir málunum, af hinum ýmsu svæðum, sem til greina koma.

Það er kunnugt, að rætt hefur verið um hafnargerð viða á suðurströndinni. Eru ýmsir staðir, sem koma til greina. En það liggur einnig í augum uppi, að það verður ekki fyrst um sinn gerð nema ein höfn til viðbótar Þorlákshöfn á strandlengjunni, þótt hún sé löng og hafnlaus.

Það var fyrir aldamót, sem rætt var fyrst um hafnargerð við Dyrhólaey, og ætíð síðan. Hefur verið áhugamál allra þm. Vestur-Skaftfellinga síðan fyrir aldamót að gera höfn við Dyrhólaey. Hafa verið gerðar ýmsar rannsóknir þar, og allar þessar rannsóknir hafa leitt í ljós, að þarna er mögulegt að gera höfn, og má kannske segja, að þar sé ágætt hafnarstæði. En þetta kostar vitanlega mikið fé, og hefur alltaf strandað á því að útvega fjármagn til að fá höfn þarna. Nú allrasíðustu árin hafa verið gerðar víðtækari og meiri rannsóknir en áður og hafa staðfest það, að þarna er hafnarstæði. En málið er ekki komið lengra en þetta enn sem komið er. En við teljum nauðsynlegt að gera samanburð á hinum ýmsu hafnarstæðum, og við gerum okkur ljóst, flm. allir, að ákvörðun um hafnarstæði getur ekki byggst á pólitískri afstöðu, verður ekki pólitísk ákvörðun. Það verður að vera hagfræðileg og raunhæf ákvörðun og byggjast á því, hvar skilyrði eru best og hvar hagkvæmast er frá þjóðhagslegu og félagslegu sjónarmiði að gera höfnina. Ákvörðunin hlýtur að byggjast á þessu, og þess vegna þarf að gera raunhæfa og viðtæka rannsókn á öllum þeim hafnarstæðum, sem til greina koma og líkleg eru. Dyrhólaey höfum við nefnt. Það hefur einnig verið talað um hafnargerð við Rangárós í Þykkvabæ og við Þjórsárós, og 1952 var gerð allnákvæm rannsókn á hafnarstæði i Þykkvabæ af verkfræðingum frá varnarliðinu. Skoðun þeirra er sú, að þarna megi gera ágæta höfn, alveg örugga. Teikningar munu vera til af hafnargerð þarna, sem fróðlegt væri að skoða og taka til athugunar, þegar samanburður verður gerður á þessum ýmsu stöðum. Þá eru Eyrarbakki og Stokkseyri, sem einnig hefur verið rætt um. Ekki er að efa, að þar er ekki aðeins mögulegt að gera höfn, heldur á ýmsan hátt mjög hagkvæmt, — höfn fyrir öll fiskiskip, sem notuð eru hér á landi, og einnig vöruflutningaskip af ýmsum stærðum, a. m. k. af þeim venjulegu stærðum, sem hér eru. Þess vegna er það, að þegar um svo marga staði er að ræða á suðurströndinni, sem til greina koma, þá er nauðsynlegt, að þeir verði rannsakaðir á raunhæfan hátt, og eðlilegt að skipa til þess n. frá hinum ýmsu héruðum á þessu svæði, til þess að kunnugleiki komi að notum á sem viðtækastan hátt. Við teljum eðlilegt, að fulltrúi frá Vestmannaeyjum eigi einnig sæti í þessari n., vegna þess að það er Vestmanneyingum ekki óviðkomandi, að góð hafnaraðstaða sé á suðurströndinni. Vitanlega óska þeir eftir því. Það þarf að tengja saman fastalandið, eins og það er kallað, og Vestmannaeyjar og byggja brú á milli lands og Eyja. Má segja, að verið sé að vinna að þeirri brúargerð nú með batnandi höfn f Þorlákshöfn og með því að fá nýtt flutningaskip, sem gengur á milli lands og Eyja, en eigi að síður á það fullan rétt á sér að gera ráðstafanir til þess að stytta fjarlægðina á milli lands og Eyja, en höfn austar á ströndinni liggur enn betur við til að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og lands heldur en Þorlákshöfn gerir.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja miklu meira um þessa till. Hún skýrir sig sjálf, og áður befur verið rætt um þetta mál. Við flm. óskum eftir því, að till. verði samþ. á þessu þingi, að n. verði skipuð og þær rannsóknir, sem við ætlumst til, að gerðar verði, verði hafnar nú á þessu ári. Við teljum þetta nauðsynlegt. Og við teljum það forsendu fyrir því, að hafist verði handa um nýja hafnargerð á suðurströndinni, að þessar rannsóknir geti legið fyrir. Ég vænti þess, að allir hv. alþm. skilji afstöðu okkar þm. Sunnl. og áhuga á þessu máli. Það er ekki aðeins viðkomandi Sunnlendingum að fá nýja höfn á strandlengjunni á Suðurlandi. Það er áreiðanlega þjóðinni allri viðkomandi. Sú hafnargerð gæti verið þáttur í því að gera Ísland ríkara og betra en það er, ef hægt væri að gera nýja höfn á suðurströndinni, þar sem engin lendingarskilyrði eru á hundruð km. svæði. Þess vegna er það, að ekki eru borfur á, að nokkur þm. geti sett sig á móti því, að sú rannsókn verði gerð, sem till. ætlast til með nefndarskipuninni.

Herra forseti. Ég legg svo til, að till. verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.