10.10.1973
Sameinað þing: 1. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

Forseti Íslands setur þingið

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn) :

Hinn 18. f. m. var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Ég hef ákveðið, samkv. till. forsrh., að Alþingi skuli koma saman til fundar miðvikudaginn 10. október 1973.

Um leið og ég birti þetta, er öllum, sem setu eiga á Alþingi, boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur, og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni, sem hefst kl. 13.30.

Gjört í Reykjavík, 14. september 1973.

Kristján Eldjárn.

Ólafur Jóhannesson.

Forsetabréf um, að Alþingi skuli koma saman til fundar miðvikudaginn 10. okt. 1973.“

Samkv. bréfi því, sem ég nú hef lesið, lýsi ég yfir því, að Alþingi Íslendinga er sett.

Í dag minni ég á það enn sem fyrr, að til hinnar fornu og virðulegu löggjafarsamkundu sinnar lítur íslenska þjóðin um heill og forsjá landsins. Til þess er Alþingi, og til þess hefur fólkið í landinu kjörið fulltrúa sína á þing, og hingað beinist því hugur landsmanna í hvert sinn sem Alþingi er sett. Vér minnumst þess í dag, eins og oss er skylt að minnast þess alla daga, að störf vor, bæði mín og yðar, eru í senn forusta og þjónusta við þjóðina, sem hefur falið oss að fara með umboð sitt. Því ber að fagna, ef rétt er það sem margir hyggja, að landsmálaáhugi sé nú betur vakandi í landinu en oft hefur verið áður. Það er lífsmark, sem nauðsynlegt er heilbrigðu lýðræði og hvöt og styrkur stjórnmálamönnum í vandasömu starfi þeirra. Hingað beinist athyglin í dag, og þess er beðið með eftirvæntingu, hvernig til tekst um úrlausn ýmissa mála, sem þér eigið nú fyrir höndum að takast á við.

Sú er venjan, að þegar í þingbyrjun liggur ljóst fyrir um margt, sem við þarf að glíma, gamlir kunningjar bíða í þingsölunum. En margt getur að höndum borið, sem enginn sá fyrir og öllum kemur jafnt á óvart. Í sögu Alþingis mætti sjálfsagt rifja upp mörg slík dæmi, bæði smá og stór. Á miðjum starfstíma síðasta þings gerðust þau tíðindi, sem einna sviplegust hafa orðið, þegar eldur kom upp í Vestmannaeyjum og lagði í eyði á einni nóttu þennan fagra kaupstað og blómlegu verstöð. Hér varð að snúast við einstæðum vanda með hröðum handtökum. Þar lögðu margir landsmenn holla hönd á plóg, en það lá þegar í stað í augum uppi, að slík feiknartíðindi hlutu að koma til kasta Alþ. og ríkisstj.

Hér er ekki stund né staður til að fjölyrða um víðtæk áhrif Vestmannaeyjagossins á líf og örlög Vestmanneyinga og heimabyggðar þeirra. En ég nefni þennan atburð aðeins sem dæmi, að vísu óvenjulega hrikalegt, um það, sem skyndilega getur dunið yfir og í einu vetfangi krafist hiklausra aðgerða stjórnvalda. Slíkt er brýning til árverkni gegn óvæntum háska og áminning til samheldni og því meiri sem meira liggur við.

Eldurinn í Vestmannaeyjum lætur eftir sig mörg sár, sem langan tíma tekur að græða að fullu. Engu að síður er það athyglisvert, að nú, aðeins 9 mánuðum síðar, er aftur komið á furðumikið jafnvægi og uppbygging er í fullum gangi. Þar hafa margir átt hlut að máli, og er rétt og skylt að nefna þar fyrst forustu Alþ. og ríkisstj. Allt ber það að þakka, sem vel var gert á hættunnar stund, og það geri ég nú, er ég minnist þessara atburða. Og ég nota þetta tækifæri til að fara viðurkenningarorðum um hlut erlendra manna, félaga og stjórnvalda, að því að létta oss vandann með margvíslegum vinarbrögðum. Það eru nágrannar vorir á Norðurlöndum fremstir í flokki, en að öðru leyti hlýðir ekki að nafngreina hér lönd og þjóðir, því að þar á ótrúlegur fjöldi hlut að máli. Það getur verið vandi að þiggja gjafir, en engum er minnkun að taka í framrétta hönd, þegar eitthvað bjátar á, svo fremi að hann sé þess albúinn að reynast ekki minni drengur, þegar vá er fyrir dyrum hjá öðrum, en hann sjálfur aflögufær. Slíkt er vissulega ásetningur vor, um leið og við þiggjum og þökkum stórgjafir á þessu ári.

Það mál, sem ég hef vikið hér að, er ekki þingmál í þeim skilningi, að það liggi beinlínis fyrir þingi nú. Slíkt hið sama má segja um stórmál eins og landhelgismálið, sem Alþ. fjallaði giftusamlega um á næstsíðasta þingi. Það mál var áreiðanlega ofarlega í allra huga síðustu þingsetningu og jafnan síðan og ekki síst nú, þegar nýr möguleiki kann að hafa opnast til að ná bráðabirgðasamkomulagi til skamms tíma við þær þjóðir, sem mest hafa talið á hagsmuni sína gengið af vorri hálfu, en um þetta mál hefur góðu heilli verið sterk samstaða stjórnmálamanna, m. a. um að freista þess að ná slíku samkomulagi með sæmandi skilmálum. Mætti þjóðareining haldast, hverju sem fram vindur, því að á þann einn hátt nýtist allur styrkur vor, og mun ekki af veita. En þótt þessi máli liggi ekki fyrir Alþ. nú, eru þau, svo ólík sem þau eru, stórmál, sem verið hafa í huga og á vörum landsmanna undanfarna mánuði og eru það enn, og frá þeim liggja margir þræðir inn í sali Alþingis, bæði beint og óbeint, eins og alþm. munu vissulega gera sér fulla grein fyrir. Það mun því naumast þykja undur, þótt vikið sé að þeim hér nú.

En því fer fjarri, að þau yfirskyggi allt annað. Enn sem fyrr gengur þjóðlífið sinn gang. Viðfangsefni hversdagsins reka hart á eftir með þörfum sínum og kröfum, sem koma saman eins og í brennidepli í starfi Alþ. Með hverju ári sem líður verður þjóðfélagið fjölbreytilegra, og að sama skapi verður verksvið Alþ. yfirgripsmeira og annasamara. Vér búum við gróandi þjóðlíf og höfum öll skilyrði til að gera þar á gott framhald. Alþ. er vel skipað og fulltreystandi til að sjá farsællega um fararbroddinn. Sú er ósk mín til yðar, að gifta fylgi störfum yðar, landi voru og þjóð til gagns og sóma.

Ég bið yður að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

[Þingheimur stóð upp og forsætisráðherra Ólafur Jóhannesson, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lífi.“ Þingmenn tóku undir þessi orð með ferföldu húrrahrópi.]

Samkv. 1. gr. þingskapa ber nú aldursforseta að stjórna fundi, þar til kosning forseta Sþ. hefur farið fram, og bið ég aldursforseta, Hannibal Valdimarsson, 3. þm. Vestf., að ganga til forsetastóls.