17.10.1973
Efri deild: 3. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

11. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja mikið um þetta mál. Hv. þm. er öllum kunnugt um, að það er til þess að leysa úr þeim vanda, sem Alþ. var að glíma við á síðustu dögum í vor, að koma ákveðinni skipan mála á fyrirkomulag á veiðum okkar sjálfra, fyrst og fremst innan 12 mílna svæðisins. En mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. að raunverulega gefnu tilefni, að hér áttu sér stað mistök í Faxaflóa í sumar um alllangan tíma, því að menn höfðu ekki orðið varir við tilkynningu eða reglugerð, sem hann gat út á s. l. ári og varðaði notkun og stærð ýsuneta. Það var í tilkynningunni orðað „þorskfisknet“, svo að það hlaut raunar að vera öllum ljóst, að ýsan féll undir það. En þetta er orðið að nokkru leiðindamáli, og ég veit, að hæstv. ráðh. hefur haft á því mikinn áhuga, að eftirlit yrði aukið um allt land, og hann hefur lofað á nefndarfundi okkar manna, sem eru í þessari fiskveiðilaganefnd, að efla það aðhald, sem nauðsynlegt er, og beita sér fyrir því. Mig langaði til að heyra vegna þess, sem átti sér stað hér núna í sumar, hvort eitthvað hefði þokast í áttina með það, vegna þess að forsenda fyrir árangri þeirra laga, sem við verðum að glíma við að setja hér næstu vikurnar, er, að eftirlitið sé raunhæft. Það veit ég, að hæstv. ráðh, er allra manna ljósast, þannig að ég ætla aðeins að fá að heyra það, hvort eitthvað ákveðið hefur verið gert í þessu efni.