18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2228 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

Umræður utan dagskrár

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 12. þm. Reykv., að það urðu margir forviða, er þeir heyrðu fréttir í gær í Ríkisútvarpinu frá Norðurlandaráðsfundi. Þar var sagt frá því, að íslenskir ráðherrar hefðu hafið deilur á þeim vettvangi og að íslenski forsrh. hefði þurft að hirta meðráðh. sinn hæstv. iðnrh., Magnús Kjartansson. Allt var þetta mál mjög undarlegt í frásögnum og fréttum, en er reyndar ennþá undarlegra eftir ræðu hæstv. sjútvrh., því að hann upplýsir, að hann hafi séð þessa ræðu og lesið hana, áður en hæstv. iðnrh. fór úr landi. M.ö.o.: hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson semur ræðu, vandlega undirbúna ræðu hér á Íslandi, ber hana undir Alþýðubandalagsráðh., Lúðvík Jósepsson, án þess að láta íslenzku forsrh. hafa hugmynd um hana, hvað þá utanrrh. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Varpa þau ekki enn betur ljósi á það ástand, sem ríkjandi er í ríkisstj.? Ráðh. talast ekki við. Þetta er til vansæmdar fyrir íslensk stjórnvöld og sérstaklega fyrir Alþýðubandalagsráðh. sjálfa.

Hæstv. sjútvrh, upplýsir, að í þessari ræðu hafi einkum verið tvö atriði. Annars vegar hafi Magnús Kjartansson, hæstv. iðnrh., verið að kvarta undan því, að Norðurlandaþjóðirnar hefðu ekki stutt okkur nægilega vel í landhelgismálinu. Allir Íslendingar, að ég held, hörmuðu þessa afstöðu, jafnvel forhertir sjálfstæðismenn. Hitt er annað mál, að Norðurlandaþjóðirnar gerðu íslenskum stjórnvöldum grein fyrir þessari afstöðu sinni, bæði opinberlega og að ég held í trúnaði, gerðu grein fyrir þeirri afstöðu sinni, að þeim væri ekki fært að fylgja okkur í einu og öllu í þessu máli, vegna þess í fyrsta lagi, að það stríddi gegn innanlandsafstöðu þeirra í þessum málum, og í öðru lagi, að það stríddi gegn þeirri almennu stefnu, sem Norðurlandaþjóðirnar hefðu tekið varðandi útfærslu landhelgi.

Enda þótt við Íslendingar hörmum það, að við eigum ekki samleið með hinum Norðurlanda þjóðunum að öllu leyti í landhelgismálinu, verðum við vissulega að skilja þessa afstöðu, og þeir gerðu grein fyrir henni, það fór ekkert á milli mála.

Það þýðir ekkert fyrir okkur Íslendinga, hvað sem okkur finnst um þessa afstöðu, að vera að panta stuðning og vera svo að kvarta undan því, á slíkum samkundum eins og í Norðurlandaráði, að okkur sé ekki fylgt í einu og öllu. En þetta leyfir hæstv. ráðh. Magnús Kjartansson sér að gera, á sama tíma sem hann kvartar svo líka yfir því, að þeir séu að hafa skoðanir og taki afstöðu varðandi öryggismál. Þessi tvö mál eru fyllilega sambærileg, alþjóðlegs eðlis, og ekkert við það að athuga, þótt ýmsar þjóðir hafi mismunandi afstöðu og láti það í ljós. Norðurlandaþjóðirnar hafa látið í ljós afstöðu sína gagnvart stefnu Íslendinga í landhelgismálinu, og Norðmenn hafa nú gert grein fyrir afstöðu sinni varðandi öryggismál og stefnunni í þeim hér á norðurhveli jarðar. Þetta er mergur málsins og enda þótt Alþb. hér heima og ráðh. þess þyki það ekki eðlileg afstaða, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, verða menn að sætta sig við það. Menn geta ekki pantað skoðanir úr öllum áttum. Og fara svo að flytja ræður og skammast út af afstöðu annarra.

Ég stóð hins vegar hér upp til að taka undir orð 12. þm. Reykv. Mér finnst full ástæða til að minnast á þetta mál, jafnvel þótt hæstv. ráðh. belgdi sig hér út af einhverri vandlætingu yfir því, að á þetta mál skuli minnst. Minna tilefni hefur orðíð til þess, að menn hafi staðið hér uppi á þingi. En mér finnst jafnframt kominn tími til, að íslensk stjórnvöld birti opinberlega þá skýrslu eða þá skriflega orðsendingu, eins og ráðh. kallaði það, sem Norðmenn sendu Íslendingum. Ég held, að það sé kominn tími til þess, að Íslendingar fái að vita, hvaða afstöðu Norðmenn hafa til öryggismála Íslendinga og þeirra þjóða, sem búa hér á norðurhveli jarðar. Ræða hæstv. ráðh. Magnúsar Kjartanssonar ræður úrslitum um það, að ekki er stætt á öðru en að birta þessa yfirlýsingu Norðmanna og það strax í dag.