18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2229 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að verða við ósk forseta um að gæta fundarskapa og lengja ekki um of umræður nú utan dagskrár. Ég vænti þess einnig, að minn ágæti flokksbróðir, forseti d. á þessum fundi, áminni hæstv. sjútvrh. um þetta sama. Sá maður er einna frægastur hér á Alþingi fyrir að brjóta öll fundarsköp og öll mannsæmandi viðbrögð gagnvart sannleika og öðru slíku, sem hann á að fara með.

Það er undarlegt að hugsa til þess, að það skuli vera ráðist að hv. 12. þm. Reykv. vegna þessarar fsp., jafnvel samhliða því, að hæstv. sjútvrh. leyfir sér að segja: Ég var búinn að lesa ræðu Magnúsar Kjartanssonar og ég er sammála hverju orði, sem í henni stóð. — Hæstv. utanrrh., sem biður hæstv. fjmrh. að svara fyrir sig, þeir vita hvorugur hvað þarna er á ferðinni. Forsrh. Íslands vissi auðvitað ekkert um hvað í þessari ræðu stóð. Og ég veit, að form. utanrrn., hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, hefur ekki heldur haft hugmynd um það, nema hann hafi samið hana með Magnúsi Kjartanssyni og Lúðvík. Það er auðvitað til athugunar. En þetta hlýtur að teljast furðulegt hjá okkur, sem sitjum á Alþingi Íslendinga, að það skuli vera hægt að semja slíkar ræður, sem valda ágreiningi milli fulltrúa Íslands á fundi í Norðurlandaráði, þegar þær eru fluttar, að það skuli þó ekki vera borið einu sinni undir okkar fulltrúa í utanrmn., þegar verið er að flytja ræður, sem eiga að vera túlkandi fyrir utanríkisstefnu Íslands.

Nú minnist ég þess, að þessi sérkennilega afstaða núv. hæstv. ríkisstj. til þess, hvað eigi að heita sjálfstæð utanríkisstefna, hefur nokkuð komið á dagskrá á undanförnum árum. Mætti tala langt mál þar um og þó sérstaklega um það, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hagað sér í afstöðunni til Norðurlandanna í sambandi við það mál. Það var í eina tíð, sem þeir töldu sjálfstæða utanríkisstefnu fólgna í því einu, að ef Olof Palme, forsrh. Svíþjóðar, lyfti læri sínu, þá tóku þeir ofan. En Guði sé lof, þeir tóku upp aðra stefnu, þegar þeir sáu, að við höfum hag í okkar utanríkisstefnu af því að eiga samskipti við aðrar þjóðir en eingöngu Norðurlandaþjóðirnar. Ég er ekki með þessu á neinn hátt að ráðast að Norðurlandaþjóðunum, heldur vil ég frekar nota þetta tækifæri til þess að undirstrika þakkir okkar Íslendinga til þeirra í sambandi við afstöðu þeirra til þeirra hörmunga, sem yfir okkur gengu á s.l. ári.

Hæstv. sjútvrh, harmar og segir: Af hverju gátu þær ekki staðið betur með okkur, Norðurlandaþjóðirnar, í landhelgismálinu heldur en þær gerðu? — Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Af hverju stóðu ekki Sovétríkin og fylgiríki þeirra betur með okkur en þau hafa gert? Getur hann svarað því? Hann er hér með fullyrðingu um þessi nágranna- og vinaríki okkar, sem hafa óbeint hjálpað okkur á einn og annan hátt í samskiptum við þær þjóðir, sem hafa verið okkur erfiðar. Af hverju getur hann ekki alveg eins komið hér og sagt: Þarna voru margar þjóðir, sem stóðu með okkur, þarna voru okkar vinaþjóðir? — Nei, við skulum ekki gleyma því, að í baráttu okkar fyrir stækkaðri landhelgi, eins og annars staðar, þegar verið er að glíma á vettvangi utanríkismála, koma auðvitað fram einkahagsmunir hvers ríkis fyrir sig.

Nú, ég verð að taka undir það, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, um þau orðsendingaskipti, sem urðu á milli ríkisstjórna Noregs og Íslands, að það er orðið tímabært, að þetta sé birt. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því, að það er ekki hægt að birta þetta öðruvísi en með leyfi norsku ríkisstj., jafnvel þótt önnur ríkisstj. sitji þar að ríkjum, en þegar orðsendingin var send.

Þá vil ég aðeins víkja að furðulegum orðum þessa furðulega hæstv. ráðh., þegar hann fullyrðir, að við sjálfstæðismenn höfum alltaf haldið, að of langt væri gengið í landhelgismálinu. Þetta er sami ráðh., sem hugsar með skelfingu til þess, að það voru sjálfstæðismenn, sem fluttu till. um að færa út í 200 mílur. Svo segir hann að við höfum jafnvel verið á móti útfærslu í 50 mílur. Má ég minna þennan hæstv. ráðh. á afstöðu hans gagnvart undanlátssamningnum við Breta? Hann var búinn að lýsa honum í Þjóðviljanum, nokkrum dögum áður en hann kom svo hér fram á Alþingi og slefaði upp hendi sinni með hjálp hinnar handarinnar til að greiða atkv. með þessum undanláts- og landráðasamningi, sem þannig var lýst í Þjóðviljanum. Ég vissi ekki betur en það væru þó nokkrir þm. Sjálfstfl., sem væru á móti þeim samningi. Hins vegar varð það ofan á hjá meirihl. míns flokks, að vegna þeirra aðstæðna, sem fyrir lágu, og vegna þess að forsrh. hafði lagt sig fram um að ná þessum samningum, væri þó skömminni skárra að samþykkja þá heldur en láta þá falla hér á Alþ., sem ég tel persónulega, að hefði verið réttast.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að halda frekar áfram umr. um þetta mál. Ég vil aðeins undirstrika og taka undir þær fsp., sem komu fram hjá bv. 12. þm. Reykv., og ég vil sérstaklega benda á það atriði, sem kom fram í ræðu hennar, þegar hún leitar eftir að fá svör hjá þeim ráðh., sem þó er á landinu þessa stundina, hjá hæstv. utanrrh., en er í veislu og má ekki vera að því að mæta hér til þess að svara slíkum spurningum. (RH: Veislunni er lokið). Veislunni er lokið, en hann þurfti sjálfsagt að fara og skoða Þjóðminjasafnið. En hér er einn ráðh, nú mættur. Þeir eru 7 talsins svo kallaðir í dag, hæstv. ráðh. Auk þess hafa þeir notað heimildir og ekki heimildir til þess að ráða sér aðstoðarráðh., og þeir munu nú vera orðnir, eins og segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, ekki jólasveinarnir 1 og 8, heldur jólasveinarnir 1 og 12 eða 13, og vitna ég til vísunnar um Tifiltút, Bagga og Lút, Rauð og Redda, og geta svo aðrir flett upp og fengið lokanöfn. Og þeir geta kannske glímt við það á næsta ríkisstjórnarfundi að geta sér til um, hvaða ráðh. og aðstoðarráðh. eigi þessi nöfn. En meðan við þurfum að horfa upp á það að greiða 12–13 ráðh. og aðstoðarráðh. laun, þá er einn ráðh. mættur hér á þingi, á sömu tímum og vofir yfir allsherjarstöðvun atvinnuveganna. Ég veit ekki til þess, að enn þá liggi fyrir samningar, þótt Guði sé lof hafi nokkuð miðað áleiðis í þeim um síðustu helgi, sem er að vísu viku seinna en hæstv. forsrh. vonaði. En ráðh. fara til veisluhalda á Norðurlöndum, þeir stunda veislur hér í Reykjavík. Hér kemur einn, og hann segir í öðru orðinu og skýrir frá því, sem hann veit um spurningar, sem eru lagðar fyrir aðra ráðh., þótt þeir ráðh., sem eiga að svara, hafi ekki hugmynd um það, hverju þeir eigi að svara þessum sömu spurningum frá þm., sem eiga fyllstu kröfu á að fá svör við þeim hér á Alþingi Íslendinga.