18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2237 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

Umræður utan dagskrár

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi langan tíma, en ég vildi byrja á því að svara fsp. hæstv. sjútvrh., og það er þó virðingarvert, að hann gefur sér tíma til að vera hér í hv. d., einn af sjö ráðh. Þessi hæstv. ráðh. er viðurkenndur fyrir dugnað og að láta sig ekki vanta á skrifstofunni og ekki heldur hér í þinginu, nema sérstaklega standi á, og hér væri vitanlega alls ekki fundarfært í dag, ef þessi hæstv, ráðh. væri ekki viðstaddur. Það væri a.m.k. ekki unnt að ræða svo mikilvæg mál sem þessi, ef enginn ráðh. væri hér staddur.

Hæstv. ráðh. spurði að því, hvernig það hefði verið í fyrrv. ríkisstj., hvort Alþfl: menn hefðu ekki mátt tala á fundum Norðurlandaráðs nema með leyfi eða eftir að samkomulag hafði verið gert um það í ríkisstj. Það var vitanlega alls ekki þannig um almenn mál. En um mikilvæg stefnumál eins og utanríkismál var samstaða í fyrrv. ríkisstj. Það var samstaða um mikilvægustu mál, og það var oft, sem ræður hæstv. ráðh., sem þeir ætluðu að flytja á erlendum vettvangi, voru skrifaðar og sendar hinum ráðh. til yfirlestrar, áður en farið var á alþjóðlegar ráðstefnur eða fundi. Þannig var það í mikilvægum stefnumálum, en alls ekki í almennum málum.

Þetta vildi ég segja hæstv. ráðh. til leiðbeiningar, ef hann gæti notfært sér það í þeirri ríkisstj., sem hann nú situr í. En ég geri alls ekki ráð fyrir því, að það sé mögulegt, og alls ekki í varnarmálum Íslands, því að í ríkisstj, er engin samstaða og litlar líkur til, að nokkur samstaða náist á milli núv. stjórnarflokka í þessu mikilvægasta máli þjóðarinnar. Við vitum, hvernig þessum málum er varið. Hv. Alþb: menn vilja engar varnir. Þeir vilja varnarlaust land, og er það alveg óskiljanlegt. Ekki dettur mér í hug að ætla, að Alþb.- menn vilji Íslandi illt. Mér dettur ekki í hug að ætla það. En hvernig stendur á því, að þeir eru svona blindir, þar sem Ísland hefur þá legu á hnettinum, sem það hefur, að þeir skuli keppa að því að gera landið varnarlaust í þessum kalda og grimma heimi, sem við búum í? Einnig eru menn að reyna að blekkja sig á að halda því fram, að það séu friðartímar í heiminum, þótt það sé vitað og ljóst, að ekki aðeins stórveldin, heldur flestar aðrar þjóðir vígbúast af kappi. Alltaf er einhvers staðar verið að berjast á jarðkringlunni og engin leið að segja um, hvenær logar upp úr.

Það hefur oft verið talað um friðartíma, og það hafa verið haldnar skálaræður í tilefni af friðartímum fáum dögum áður en styrjaldir hafa skollið á. Ísland má ekki vera varnarlaust. Við erum sjálfstæð þjóð, og við þurfum varnir. Við höfum ekki neinn innlendan her. Við höfum ekki afl til þess og höfum ekki óskað eftir því að stofna innlendan her. En nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn, Danir, Svíar og aðrar Vestur-Evrópuþjóðir verja miklum fjármunum til landvarna. Norðmenn t.d. verja stórum hluta af sínum þjóðartekjum til landvarna. Við Íslendingar höfum gert samning um varnarstöðina í Keflavík og enginn vafi er á því, að stór meiri hluti Íslendinga vill hafa varnir á meðan viðhorfið til heimsmálanna er eins og það er í dag. Aftur á móti vill enginn Íslendingur hafa hér her um aldur og ævi. Allir Íslendingar óska eftir því, að þeir tímar komi sem allra fyrst, að þjóðirnar hætti að hervæðast, að alþjóðasamningar verði gerðir um afvopnun og takist að eyða tortryggni og hernaði þjóða í milli. Þegar þeir tímar koma, getum við látið varnarliðið fara.

Ræða hæstv. iðnrh. á Norðurlandaráðsfundinum hefur orðið að umtalsefni hér í hv. d. í dag. Það er ekkert óeðlilegt, þótt það sé rætt hér í dag, að hæstv. ráðh. talaði bæði um varnarmálin og landhelgismálið eins og hann gerði. Norðurlandaþjóðirnar eru að mörgu leyti í sama báti og við Íslendingar í varnarmálum. Árás á Ísland er einnig árás á Norðurlöndin, og árás á Norðurlöndin er einnig árás á Ísland. Þess vegna er eðlilegt, að það sé nokkur samstaða á milli frænda okkar Norðmanna og Íslendinga. Orðsending sú, sem íslenska ríkisstj. fékk frá norsku ríkisstj. á s.l. hausti, hefur verið gerð hér að umtalsefni. Þessi orðsending hefur ekki verið birt. Og það hefur verið sagt, að með þessum orðsendingaskiptum hafi Norðmenn jafnvel ætlað sér að blanda sér í íslensk mál. Það er alger misskilningur. Norðmenn hafa alltaf tekið fram, að þeim detti ekki í hug að blanda sér í íslensk málefni. Hins vegar létu þeir íslensku ríkisstj. vita, hvaða augum þeir litu á þessi mál. hvaða augum þeir líta á það, ef Ísland verður gert varnarlaust og Keflavíkurstöðin verður lögð niður. Nú spyr ég: Var ekki norsku ríkisstj. frjálst að gera þetta? Er það tiltökumál, þótt norska ríkisstj. vildi láta íslensku ríkisstj. vita, hvaða augum hún lítur á þessi mál? Það er langt frá því, að norska stjórnin hafi ætlað sér að blanda sér í það, hvað íslenska ríkisstj. gerði, þrátt fyrir þetta. Og ég vil taka undir það, sem hér var sagt áðan, að það er vitanlega nauðsynlegt að birta þessa orðsendingu almenningi á Íslandi, úr því að farið er að tala um hana í þeim tón eins og Norðmenn hafi ætlað að fara að blanda sér í íslensk málefni. Ég trúi því ekki, að Norðmenn hafi nokkuð á móti því, að þessi orðsending verði birt. Ég tel. að það sé alveg nauðsynlegt, að það verði gert.

Hæstv. forsrh. talaði á Norðurlandaráðsfundinum, eftir að iðnrh. hafði haldið sína ræðu. Hann sá ástæðu til þess að mótmæla því, sem Gylfi Þ. Gíslason hélt fram, að meiri hl. Framsfl. vildi hafa varnir. Ég geri ráð fyrir, að það sé erfitt að sanna það í dag, en víst er, að margir framsóknarmenn hafa tekið vel undir undirskriftasöfnunina um varið land. Ég þekki hóp af framsóknarmönnum, sem vilja ekkert siður varið land en sjálfstæðismenn. Og ég hef sagt, að þetta væru hinir gætnari og ábyrgari framsóknarmenn. Ég hef stundum sagt, að þetta væri betri helmingurinn. Það er ekkert skrýtið, þótt hv. þm. Jónas Árnason brosi, þegar þannig er komist að orði. En hvað sem því líður, þá er það alveg öruggt, að mikill hluti framsóknarmanna er á sama máli og við sjálfstæðismenn og flestir Alþfl.-menn í varnarmálunum.

En landhelgismálið hefur einnig borið hér á góma. Hæstv. sjútvrh. sagði hér áðan, — vitanlega meinti hann það ekki, — að við sjálfstæðismenn hefðum stundum komið illa fram í landhelgismálinu. Hann gaf það hér í skyn í dag, að við hefðum verið dragbítar á því og ekki viljað ganga eins langt og hæstv, ríkisstj. gerði. Þetta stangast vitanlega algerlega á við allar staðreyndir. Og þeir, sem vilja lesa sér til í því máli, bæði í þskj. og annars staðar, geta sannfært sig um það, hvaða afstöðu sjálfstæðismenn hafa fyrr og síðar haft í landhelgismálinu. Og nú er svo komið, að það eru tiltölulega fáir, sem tala um, að það sé nokkurt takmark í sjálfu sér að fá 50 mílurnar viðurkenndar. Nú eru það 200 mílur, sem allir tala umi, og það er takmarkið nú. Kannske er það ekki endanlegt takmark, en það er það takmark, sem við nú keppum að og munum fá. Á Hafréttarráðstefnunni verður ekki rætt um 50 mílur, það verður rætt um 200 mílur, og meiri hl. þjóðanna, sem mæta þar, er á þeirri skoðun, að það eigi að taka 200 mílna landhelgi. Jafnvel Bretar eru farnir að tala um 200 mílur sem hagsmunamál fyrir sig. Og þá held ég, að við ættum að hætta að tala um 50 mílna landhelgi. Sannleikurinn er sá, að það var vitanlega áfangi út af fyrir sig, meðan ekki var tímabært að tala um að ganga lengra, að fá 50 mílur. En enn sem komið er hefur ríkisstj. ekki yfir neinu að státa í því efni. Ég held, að við ættum ekki að vera að brigsla hver öðrum um viljaleysi eða áhugaleysi í landhelgismálinu. Ég vil vænta þess, að við hér á hv. Alþ. verðum öll sammála um 200 mílur og enginn hv. þm. verði þeirrar skoðunar, að hann verði stimplaður sem dragbítur í því máli.

Herra forseti. Það var víst ekki ætlast til þess, að ég talaði lengi. En ég vil aðeins endurtaka það, að ég tel eðlilegt, að þessi mál komi til umr. hér í hv. Alþ., þegar farið er að ræða þau á erlendum vettvangi, á Norðurlandaráðsþingi. En það er vitanlega miklu verri aðstaða að ræða málin, þegar allir hæstv. ráðh. eru fjarverandi nema hæstv. sjútvrh. einn, sem hefur tekið að sér að halda hér uppi vörnum fyrir varasama málsmeðferð á Norðurlandaráðsþingi.