18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2239 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Aðalerindi mitt hingað í ræðustól er að leiðrétta þau furðulegu ummæli, sem hæstv. ráðh. hafði út af mínum orðum um það, að ég hafi ráðist óviðurkvæmilega að forsrh. Svíþjóðar. Í þessu er mikill misskilningur fólginn, og vænti ég þess, að hann láti jafnskjótt og Stefán Jónsson samþm. hans fyrrv. lét taka upp orð sín af segulbandi hér hjá þingritara, þá láti hann fletta upp á mínum orðum til þess að sannfæra sig um, að það, sem í mínum orðum segir, er ekki annað en það, að ég er að finna að hræðslu þeirra Íslendinga, sem hafa farið með íslensk utanríkismál eða fóru alla vega með þau fyrstu missirin, eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum. En þá mátti ekkert gera og ekkert framkvæma öðruvísi en það félli sérstaklega í geð þeirra vinstri sósfalista, sem ráða ríkjum í Svíþjóð og hafa þar farið með stefnu í utanríkismálum á undanförnum árum. Get ég fundið þessum orðum mínum margt til sönnunar.

Ég skal taka til greina það, sem forseti d. segir, og ekki vera langorður. Þó get ég ekki varist því vegna orða hæstv. ráðh. að benda á þær andstæður, sem koma fram í ræðu hans, þegar hann leggur það okkur til lasts, sjálfstæðismönnum, að við teljum eðlilegt, — og það geri ég persónulega, — að þegar ábyrgir aðilar eða sendinefndir, sem koma fram í nafni Íslands á erlendum vettvangi, tjá sig þar, sé búið að ræða nokkuð um á milli samstarfsmanna og flokka, að ég tali nú ekki um innan ríkisstj., hvað eigi að segja á slíkum ráðstefnum.

Ég minnist þess, þegar alvarlega var farið af stað á alþjóðavettvangi með kröfuna um útfærslu á okkar landhelgi, um landgrunnið allt, sem var í utanrrh: tíð Emils Jónssonar, — ég tala opinberlega, ekki allt, sem var búið að vinna á bak við tjöldin þá, — en það var á Evrópuráðsþinginu í Strasbourg veturinn 1970. Það var sérstök ráðstefna, sem þar var haldin til þess að ræða um hafbotnsmálin í beinu framhaldi af því, sem þá hafði verið ákveðið á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þá ræddum við, sem vorum valdir til þeirrar farar, - við vorum valdir til þess þrír, frá Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl., — við ræddum þetta að sjálfsögðu við utanrrh. þáv., Emil Jónsson. Og bann sagði við okkur: Það skal ekkert til sparað. Þið náið þeim árangri, sem þið þurfið að gera. — Við vorum sammála um það, ég og fulltrúi Alþfl., sem þá var Bragi Sigurjónsson, að fela fulltrúa Framsfl., þáv. þm., Helga Bergs bankastjóra, að mæla því máli, sam við þurftum að láta mæla fyrir málstað íslensku þjóðarinnar á þessu þingi Evrópuþjóðanna. Okkur kom ekki til hugar að vera að koma þar fram sem einstaklingar með einhverja þurrabúðarpólitík Alþb. héðan heiman af Íslandi og flytja á vettvangi þjóða Evrópu. Slíkt á ekki við. Þeir menn eru best geymdir heima. Eða það ætti að senda þá með flugvél og láta þá annað en til Stokkhólms, sbr. meðferðina á Solzhenitsyn. Það hefði verið nær að láta Magnús Kjartansson fara í þveröfuga átt, láta hann ekki hafa viðkomu í Stokkhólmi, en halda áfram austur um.

Ég skal taka undir þau orð, sem hv. 1. þm. Sunnl. viðhafði þess efnis, að auðvitað ber að þakka hæstv. sjútvrh. það að mæta hér og vera til viðtals í þinginu á auglýstum fundartíma þingsins, enda er ekki verið að fárast út í hann sem slíkan. Ég skal fúslega taka undir það, að hann er einn þeirra ráðh., sem hvað best mæta hér, og er alltaf reiðubúinn, eins og hann hefur margboðið, að ræða við þm. um ein og önnur málefni. En það breytir ekki hinu, að það hlýtur að vera gagnrýnisvert gagnvart öðrum ráðh., sem ekki mæta hér dögum saman og leyfa sér, þegar slík mál eru á dagskrá og eru boðuð, jafnvel þótt utan dagskrár séu, að halda því fram, að þeir megi ekki vera að því að mæta hér niðri í þingi. Bersýnilegast er auðvitað dæmið, sem kemur fram í orðum hæstv. fjmrh., þegar hann svaraði fyrir hönd hæstv. utanrrh í byrjun fundar. Hann virtist ekki hafa hugmynd um, að það væri þing Norðurlandaráðs í dag eða í gær, það standi yfir, því að hann vissi ekkert, hvað þar hafði skeð. Auðvitað ber að hafa afsakaðan hæstv. félmrh., sem allir vita, að stendum nú í erfiðu samningastappi og hefur verið þar nætur og daga upp á síðkastið. Það skal a.m.k. ekki vera mitt að ráðast að honum fyrir það.

En að lokum vil ég aðeins koma að því, sem hæstv. sjútvrh. sagði í sambandi við afstöðu okkar sjálfstæðismanna í landhelgismálinu. Hann sagði, að jafnvel ekki tvisvar sinnum 200 mílur mundu bæta fyrir okkar aðgerðir þar, — reikna ég með, að hann hafi átt við baráttu fyrir 50 mílunum. Sú saga verður skoðuð nánar, áður en yfir lýkur, hver þáttur Lúðvíks Jósepssonar hefur verið í að ná fram stækkaðri landhelgi fyrir okkar þjóð og hvort það hafi verið endilega skynsamlegasta leiðin, sem hann vildi og þeir flokkar, sem styðja núv. ríkisstj., að nota það sem beina kosningabeitu að segja 50 mílur og ekkert annað en 50 mílur og 50 mílur á þessum ákveðna degi, sem þeir völdu. Við skulum láta það liggja milli hluta nú, enda erum við allir sammála um það, og við samþykktum það, sem í stjórnarandstöðunni erum, að ganga með þeim til þessa leiks, vegna þess að við vildum láta þjóðina vera sammála út á við í málinu. En hitt er öllu einkennilegra, þegar hæstv. sjútvrh, telur það hreinan hégóma, þegar verið er að ræða um 200 mílurnar. Hann veit þó vel, hvaða stefnu þetta mál hefur tekið síðustu missirin hjá þeirri nefnd Sameinuðu þjóðanna, sem er að undirbúa Hafréttarráðstefnuna, sem mun byrja að hausti. Hann veit líka vel, hvaða þjóð hafi forustu um það þar að fara í 200 mílurnar, en það eru einmitt Norðmenn. Máske hefðum við getað náð meiri samstöðu með þeim, ef við hefðum rætt við þá á fyrra stigi um það. En ég veit ekki til þess, að væntanlegur friðarverðlaunahafi Nóbels, hæstv, sjútvrh., fyrir sínar sérstöku tilraunir að ná friði í þorskastríðinu, hafi beitt sér fyrir þessu.

Herra forseti. Ég skal láta máli mínu lokið. En ég endurtek það, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að ég tek heils hugar undir þær fsp., sem komu fram hjá hv. 12. þm. Reykv., og ég satt að segja líð önn fyrir hæstv. ríkisstj., að það skuli ekki hafa verið hér aðrir menn, sem betur hafa unnið að þessum málum, til þess að svara þeim spurningum, sem lagðar hafa verið fyrir hæstv. ráðh. Sá, sem maður hélt, að hefði vitsmuni, hljóp burt. Maðurinn, sem las ræðuna og á sjálfsagt afrit af henni heima hjá sér, getur ekkert sagt um, hvernig hún sé eða hvað þurfi sérstaklega að taka fram eða svara fyrir af hendi þess, sem flutti hana, hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar.