18.02.1974
Neðri deild: 63. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (2008)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hefði haldið, að hæstv. sjútvrh. ætti í dag fullt í fangi með að útskýra fyrir þjóðinni þá stjórnarstefnu í sjávarútvegsmálum, sem kemur fram í því, að loðnu er dælt í sjóinn fyrir utan hafnarmynnið á verstöðvum hér í nágrenninu. Ég held, að það geti varla verið til þyngri dómur um stefnu og stjórn sjávarútvegsmála en það, að sjómennirnir þurfa að dæla aflanum aftur beint í sjóinn. En það hefur gerst enn sem oft fyrr, að hæstv. iðnrh. hefur skotið félaga sínum ref fyrir rass og raunar bjargað honum frá hinu vandamálinu hvað daginn í dag snertir a.m.k., með þeirri ræðu, sem hann hefur flutt á þingi Norðurlandaráðs.

Nú ætla ég ekki að taka þátt í ítarlegum umr. um þessa ræðu af þeirri einföldu ástæðu, að við höfum ekki séð texta ræðunnar ennþá og ekki séð texta af ræðum hæstv. forsrh., formanns Alþfl. eða annarra þingfulltrúa, sem töluðu í tilefni af ræðu Magnúsar Kjartanssonar, hæstv. iðnrh. Af þeim lauslegu fréttum, sem við höfum haft, er þó augljóst, að iðnrh. hefur flutt meiri háttar ræðu um utanríkismál, sem hefur vakið stórfellda athygli um mörg lönd. Í öðru lagi, að forsrh. var viðstaddur, þar sem þessi ræða var flutt. Hún virtist koma algerlega flatt upp á hann, og hann varð að standa upp. Ég vil ekki fullyrða, að hann hafi beinlínis andmælt ræðu iðnrh., en hann þurfti að gefa skýringar á því, að þar væri a.m.k. ekki talað fyrir alla ríkisstj. Það þarf ekki meiri fréttir en þetta til að sjá, að á alþjóðlegum vettvangi hefur gerst það hneyksli, að þar er valinn staður og tími til þess að auglýsa, að núv. ríkisstj, hefur enga stefnu í utanríkismálum. Þar ríkir algert ósamkomulag og stefnuleysi.

Í öðru lagi kom í ljós, að innan þessarar ríkisstj. ríkja ekki einu sinni venjulegir mannasiðir, þegar forsrh. verður undrandi að standa upp til að gefa fulltrúum allra Norðurlandanna skýringu á ræðu, sem hæstv. iðnrh. hefur sýnilega legið yfir að semja, því að hann mun hafa dvalist utanlands í viku eða meira. Það er augljóst, að hér er um stórfellt hneyksli í íslenskum utanríkismálum að ræða, sem hlýtur að draga dilk á eftir sér, fyrst og fremst innan ríkisstj., og hlýtur að koma til nánari umr. hér á Alþ., þegar við fáum orðréttan texta af því, sem sagt var.

Það hefur verið dregið inn í þessar umr., að Norðurlöndin hafi ekki veitt okkur nægilegan stuðning í landhelgismálunum. Þetta er ekki nýtt mál. Fyrir sum Norðurlandanna er þetta erfitt mál, af því að þau búa við allt aðrar aðstæður en við. Ef Svíar ættu að fá 50, ég tala nú ekki um 200 mílna landhelgi, þá mundi hún ná langt inn í Austur-Þýskaland, Pólland, Sovétríkin og Finnland, svo að menn hljóta að sjá, að aðstaðan er þar nokkuð önnur. En ég vil undirstrika það mjög, að Norðmenn hafa fylgt þeirri stefnu að styðja 200 mílna hugmyndina á alþjóðlegum vettvangi, þar sem fjallað hefur verið um landhelgismálið. Undanfarin missiri, hefur verið náið samband milli Íslendinga, Norðmanna, Suður- Ameríkuþjóðanna, Afríku- og Asíuþjóða um þessi efni. Norðmenn og Íslendingar eru kjarni í svokölluðum fimmtudagsklúbbi, þar sem baráttan í þessum efnum er mótuð frá viku til viku innan Sameinuðu þjóðanna, og það er því ekki ástæða til þess að ráðast á þá fyrir neitt annað en það, að þeir skyldu ekki senda norska flotann til orrustu við þann breska með okkur. En um þetta gefst sjálfsagt færi til þess að ræða frekar, ef ræða iðnrh. hefur gefið tilefni til þess, eins og ætla má af lauslegum fréttum af henni.

Ég vil ítreka það, að ég tel þetta vera mjög alvarlegt mál, ekki aðeins innan ríkisstj., heldur einnig fyrir Alþ., og að það þurfi sannarlega að taka til athugunar, hvernig vinnubrögð okkar eiga að vera í utanríkismálum í framtíðinni, eftir það, sem gerst hefur nú um helgina.