19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2255 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það kannske sannast hér eins og stundum endranær, að seint er um langan veg að spyrja sönn tíðindi. Ég hef að vísu ekki átt þess kost að heyra, hvernig sagt hefur verið frá þessum málum í útvarpi og sjónvarpi hér. Ég efast ekki, að þar hafi verið farið rétt með, svo langt sem sú frásögn hefur náð. Hins vegar hygg ég, að það hafi ekki verið kostur á því að flytja alla ræðu Magnúsar Kjartanssonar ráðh. í útvarp eða sjónvarp hér, og þá gæti kannske hugsast, að fréttamenn hefðu látið leiðast af því fréttamennskusjónarmiði, sem stundum gætir, að leggja mismunandi áhersluþunga á ýmis atriði í ræðunni.

Ég verð að segja það, að eftir því sem ég hef lesið hér í blöðum og lesið um þær umr., sem hér fóru fram utan dagskrár í gær, virðist mér hafa verið gert helst til mikið veður út af þessari ræðu. Nú vil ég að vísu ekki draga úr því á neinn hátt, að Magnús Kjartansson hafi flutt þarna athyglisverða ræðu að ýmsu leyti. En ég held samt, að það verði varla sagt, að henni hafi verið gefið mjög fyrirferðarmikið rúm í þeim sænskum blöðum t.d., sem ég sá, og ég held, að það fari ekkert á milli mála, hvaða ræða það var, sem mesta athygli vakti allan sunnudaginn í Norðurlandaráði og blöð og fjölmiðlar slógu upp, það var ræða Trygve Bratteli, forsrh. Noregs, um olíumálin, olíuvinnsluna og hugsanlega og væntanlega samvinnu Norðurlandanna um þau efni, og svo svarræða Palme þar við.

Ég held, að það megi segja með sanni, að verulegur hluti af ræðu Magnúsar Kjartanssonar fjalli um mál, sem ekki er óeðlilegt, að séu rædd á Norðurlandaráðsfundi, og eru ofarlega á baugi í almennum stjórnmálaumr., eins og t.d. ég veit, að hv. fyrirspyrjandi hefur séð, þegar hann las ræðuna, um afstöðuna eða sambandið á milli stjórnmálamanna og fólksins, stöðu smáríkja og sitthvað fleira. Hins vegar er það rétt, að hann vék sérstaklega að tveimur málum þarna, landhelgismáli og varnarmálum. Og á eftir ræðu Magnúsar Kjartanssonar urðu nokkur orðaskipti, sem nokkrir tóku þátt í, og þær ræður hef ég nú hér með. Þar tók m.a. til máls góðvinur okkar Íslendinga, K.B. Andersen, fyrrv. utanrrh. Danmerkur, og var, að mér fannst, óvenjulega hvassyrtur. En einnig tóku til máls bæði fyrrv. og núv. forsrh. Noregs og gerðu aths. út af einu tilteknu atriði í ræðu Magnúsar Kjartanssonar.

Í þessum orðaskiptum tók svo þátt, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, einn af íslensku fulltrúunum, Gylfi Þ. Gíslason alþm., og sumpart urðu ummæli hans til þess, að ég fann mig knúinn til þess að gera nokkrar aths., örstuttar að vísu. Það var af því, að mér fannst Gylfi Þ. Gíslason gerast nokkur offari í orðum sínum þarna á þinginu. Hann sagði fyrst, að hann vildi segja það, að ræða Magnúsar Kjartanssonar væri ekki haldin í nafni íslensku þjóðarinnar, ekki í nafni Alþingis og ekki heldur fyrir hönd íslensku ríkisstj. Hann fullyrti í þessu stutta svari sinu, að íslenska ríkisstj. hefði ekki orðið enn sammála um, hvaða stöðu ætti að taka í viðræðum við Bandaríkjamenn um framtíð stöðvarinnar í Keflavík. En síðan sagði hann það, sem hann má gjarnan segja fyrir mér, að hann þyrði að fullyrða, að stjórnarandstaðan væri alveg einhuga um það, að varnarsamninginn ætti að endurskoða, en honum ætti ekki að segja upp, en síðan sagði hann það, sem mér fannst nú heldur ofsagt, að hann þyrði líka að fullyrða, að meiri hl. innan flokks forsrh. væri á því máli, að samninginn ætti að endurskoða, en ekki að segja honum upp. Ég mundi kjósa, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason gerðist fyrst félagi í Framsfl., áður en hann færi að tala svo bert í hans nafni.

Við þetta gerði ég örstutta aths., sumpart eins og ég sagði, vegna þessara ummæla íslensks fulltrúa, og í öðru lagi vegna vissra tiltekinna ummæla í ræðu Magnúsar Kjartanssonar, sem voru þess eðlis, að mér þótti sem þau gætu verið misskilin, ef ekkert kæmi fram frekar varðandi þau. Og það voru nokkur atriði, sem ég tók fram í þessari örstuttu aths., sem ég gerði. Í fyrsta lagi var það, að ég lagði áherslu á, að utanríkismál og varnarmál heyrðu ekki undir Norðurlandaráð. Það er skýrum stöfum og ótvírætt tekið fram í samþykktum Norðurlandaráðs, að þau málefni eru undanskilin verkefnum Norðurlandaráðs, og til þess liggja ástæður, sem allt of langt er að fara hér út í og ég fór ekki heldur út í þar, enda er þetta óumdeilt. Síðan sá ég míg tilneyddan til að mælast til þess, að menn hér á Norðurlandaráðsþingi færu ekki að ræða íslensk innanríkismál. Í þriðja lagi tók ég fram, að ég yrði að mælast til þess, að menn væru ekki á þessum vettvangi, í Norðurlandaráði, með neinar fullyrðingar um, hvernig staðan á Íslandi væri varðandi spurninguna um endurskoðun eða uppsögn varnarsamningsins. Og í fjórða lagi, sem aukaatriði, tók ég það fram, með mjög kurteislegum orðum þó, að ég yrði að hafa allan fyrirvara á um þau ummæli, sem Gylfi Þ. Gíslason hefði haft um minn eigin flokk. Og loks sagði ég það, — einmitt út af ummælum, sem komu fram í ræðu Magnúsar Kjartanssonar og til þess að fyrirbyggja misskilning, — að hvað varðaði það erindi, sem íslenska ríkisstj. á sínum tíma eða utanrrh., — mér var reyndar gert kunnugt um líka, — fékk frá norsku ríkisstj., að ég hefði ekki skilið það sem neina íhlutun í íslensk málefni, og tók fram, að sú orðsending mundi að sjálfsögðu ekki hafa neina úrslitaþýðingu fyrir þá afgreiðslu, sem þetta mál fengi á Íslandi.

Það er alveg skýrt, að ræða Magnúsar Kjartanssonar ráðh, var ekki að neinu leyti né á nokkurn hátt flutt á vegum íslensku ríkisstj. eða í nafni ríkisstj., hafði ekki verið samþykkt af ríkisstj. né samin eða flutt sérstaklega með vitund ríkisstj. (Forseti: Ég verð að þrýsta á hæstv. ráðh. eins og þm. Ég treysti hæstv. ráðh. til að hraða sér.) Já ég skil það, en af því að ég var fjarverandi í gær, yrði kannske litið á það. (Forseti: Ég verð að þrýsta á það, að hæstv. ráðh. ljúki þessu sem fyrst.)

Ræða Magnúsar Kjartanssonar lýsti að sjálfsögðu hans skoðun — og hans skoðun eingöngu, þó að ég efist ekki um það, að margir hér á landi geti verið sömu skoðunar og hann hélt þar fram. Ég held, að það hafi ekki nokkur maður á Norðurlandaráðsþingi litið á hana þannig, að hún væri flutt í nafni íslensku ríkisstj. Ég hitti ekki nokkurn mann, sem lét slíkt uppi. Ég held, að það sé alls ekki einsdæmi, að einstakir ráðh. á Norðurlandaráðsþingi flytji ræður, sem að einhverju leyti víkja frá þeim skoðunum, sem t.d. forsrh. þess lands hefur haldið fram á Norðurlandaráðsþingi. Ég held, að ég muni slík dæmi, þegar um hefur verið að ræða samsteypustjórnir, — við skulum segja t.d. í Finnlandi. Þetta er ekki títt, en ég held, að það sé alls ekkert einsdæmi. Auðvitað er það grundvallarreglan, sem við hljótum að fylgja, að það á að ríkja skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi. Það er mikið rætt um það nú hér og annars staðar, og það má ekki vera neinn einkaréttur fyrir skáld og rithöfunda, heldur eigum við stjórnmálamenn líka að njóta góðs af því og geta haldið fram þeim skoðunum, sem við höfum og við viljum túlka. Ef á að líta á einhverja ræðu, sem flutt er á Norðurlandaráðsþingi, sem flutta á vegum ríkisstj., þá er það að sjálfsögðu ræða forsrh. Ég flutti ræðu á laugardag, og ég hef sent blöðum hana nú, og þar geta menn skoðað hana, ef blöðin hirða um að birta hana. Ég vænti þess, að þar sé ekkert, sem ekki getur staðist sem talað — ég vil segja í nafni þjóðarinnar.

Af því, sem ég hef þegar sagt, liggur í augum uppi, að það verður ekki um nein frekari viðbrögð af hálfu ríkisstj. að ræða við þessari ræðu Magnúsar Kjartanssonar. Hann hefur aðeins flutt þarna sitt mál, lýst sínum skoðunum.

Viðvíkjandi því, sem fyrirspyrjandi spurðist líka um, hvort það yrðu rædd varnarmál hér á fundi utanrrh., þá er það að vísu um það að segja, að ég hef ekki átt þess kost að sækja þá fundi eða taka þátt í þeim viðtölum. En ég tel alveg óhætt að fullyrða, að það verði ekki rætt þar um varnarmál, og það kemur auðvitað ekki til greina, enda var það margítrekað einmitt af hálfu forsrh. Noregs á þessu þingi, að auðvitað væri hér um að ræða mál, sem Íslendingar einir ættu að taka ákvörðun um. Ég er þess fullviss, að norski utanrrh. mun ekki í þessari vináttuheimsókn vera með nein slík umræðuefni.