19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Íslenska ríkisstj. væntir sér ekki sérstaklega neins stuðnings við stefnu sína í varnarmálum frá Norðurlöndum. Hún fer ekki fram á það, mun ekki fara fram á það. Hún lítur á það sem algjörlega íslenskt málefni, sem við sjálfir tökum ákvörðun um út frá okkar eigin hagsmunum. Þetta er Norðmönnum að sjálfsögðu vel kunnugt um. Þetta sjónarmið setti ég fram á sinum tíma við norska sendiherrann, þegar hann flutti þessa orðsendingu, sem var nánast munnleg orðsending, þó að hann setti hana sjálfur á blað. Og þessari stefnu mun verða fylgt af íslensku ríkisstj. Sú stefna er algjörlega viðurkennd og var undirstrikuð af sjálfum norska forsrh. einmitt á þessu Norðurlandaráðsþingi, svo sem hann raunar hafði áður gert í norska Stórþinginu.