19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2260 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

Umræður utan dagskrár

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mikið er rólyndi hæstv. forsrh. að hafa geð í sér til að standa fyrir ríkisstj., þar sem algjör upplausn ríkir í mikilvægustu málum. Með hverjum deginum sem líður kemur það berlega í ljós. Forsrh.: Það hafa vist aðrir meiri áhyggjur af því en ég.) Já, hæstv. forsrh., og það er ekki að ófyrirsynju, að aðrir hafa af því meiri áhyggjur. Og borgarar þessa lands hafa vafalaust af því þungar áhyggjur, að ríkisstj, líðst að sitja áfram í óbreyttu formi og það fyrir tilstilli hins ágæta manns, hæstv. forsrh. Í ræðu hæstv. iðnrh. Magnúsar Kjartanssonar sagði hann fullum fetum, að 1971 hefði ríkisstj. ákveðið, að bandaríska herstöðin skyldi lögð niður. Þessu lýsir hæstv. iðnrh., eftir að sjálfur utanrrh. hefur gert till. um annað og eftir að sjálfur forsrh, hefur lýst því yfir, að málefnasamning ríkisstj. beri alls ekki að skilja á þennan veg. Svo afgreiðir hæstv. ráðh. þessi ræðuhöld hæstv. iðnrh. á alþjóðavettvangi einungis með því að segja: „Þetta eru hans persónulegu skoðanir.“ Og síðan leggst hæstv. forsrh. rólegur á koddann sinn og sofnar værum svefni. Það er áreiðanlegt, að það eru fleiri en ég á þessu landi, sem hafa þungar áhyggjur af því, að það ríkir augljóslega fullkominn glundroði í utanríkismálum innan þessarar ríkisstj., án þess þó að vikið sé einnig að þeim glundroða, sem öllum mun ljóst, að er í efnahagsmálum, þegar ríkisstj. lofar ýmiss konar breytingum á kjörum almennings með því að gera þessar og þessar breytingar á lögum, sem hún hefur alls ekki vald til að gera.