19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (2032)

410. mál, starfsemi Viðlagasjóðs

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Viðlagasjóður var stofnaður með l. nr. 4 1973, um neyðarráðstafanir vegna jarðelda í Vestmannaeyjum. Hlutverk sjóðsins skv. l. þessum er sem hér segir:

1. Að tryggja hag Vestmanneyinga og stuðla að vernd og endurreisn byggðar þeirra.

2. Að greiða kostnað vegna björgunarstarfs, flutninga og röskunar á högum vegna eldsumbrotanna í Vestmannaeyjum.

3. Að bæta tekjumissi og eignatjón af völdum eldgossins á Heimaey.

4. Að draga úr áhrifum náttúruhamfara í Vestmannaeyjum á afkomu og atvinnulíf Vestmanneyinga og þjóðarheildarinnar og gera hvers konar fjárhagsráðstafanir í þessu skyni.

Sjóðnum hefur verið aflað tekna með eftirtöldum hætti:

1. Með óafturkræfum framlögum frá erlendum og innlendum aðilum.

2. Með svokölluðu viðlagagjaldi á eftirgreinda skattstofna: a) 2% á söluskattsstofn frá 1. mars 1973 – 28. febr. 1974, b) 30% álagðan eignarskatt 1973, c) 35% þess hundraðshluta aðstöðugjalds, sem lagt var á í hverju sveitarfélagi 1971, d) 1% á útsvarsskyldar tekjur 1973, e) 10% á álagt landsútsvar 1973.

3. 160 millj. kr. frá ríkissjóði.

4. Heimild fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð að leggja fram 160 millj. kr.

Þess má geta í sambandi við þessa tekjustofna, að gætt hefur nokkrar óánægju hjá sveitarfélögunum, vegna þess að þeim hefur verið gert að innheimta og standa skil á sínum hluta viðlagagjaldsins án þess að fá nokkra greiðslu fyrir, þótt ekki verði séð, að l. ætlist til þess, að sú regla sé tekin upp. Í l. segir um viðlagagjald á á aðstöðugjaldsstofn og útsvarsskyldar tekjur, að um álagningu og innheimtu þessara gjalda skuli gilda sömu reglum og um aðstöðugjöld og útsvör. Virðist því, að l. geri ráð fyrir því, að um innheimtulaun sé að ræða.

Alþingi samþykkti á sínum tíma lög um þetta efni með shlj. atkv. Óhætt er að segja, að þjóðin hafi tekið þeim álögum, sem af samþykkt þeirra leiddi, með óvenjulegum skilningi, enda lögðu ýmis fátæk sveitarfélög fram allt upp í 3–4 þús. kr. á íbúa til viðbótar.

Öllum er þó ljóst, að ýmis konar röskun hefur fylgt í kjölfar þessarar byrðar, sem þjóðin í heild hefur tekið á sig til þess að bregðast við hinum gífurlega vanda, sem jarðeldarnir ollu. Hér befur verið um mikla fjármagnsflutninga að ræða. Með hliðsjón af því, þykir mér tímabært, að frá því verði greint hér á hv. Alþingi, hver sé í stórum dráttum staða Viðlagasjóðs nú, hvernig tekjustofnar sjóðsins hafi staðist og hvort fjármagn sjóðsins dugi til að fullnægja því hlutverki, sem honum var ætlað. Ég hygg, að allir óski þess, að svo sé, ekki síst með tilliti til þess, að ný og okkur óviðráðanleg vandamál hafa skotið upp kollinum í okkar þjóðfélagi. Fyrir því hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. forsrh. á þskj. 199:

„1. Hverjar hafa tekjur Viðlagasjóðs orðið til þessa eftir hinum ýmsu tekjuliðum?

2. Hver hafa útgjöld sjóðsins orðið á sama tíma, og hverjir eru helstu útgjaldaþættir hans?

3. Hvaða horfur eru á, að fjármagn sjóðsins, sbr. tekjustofna í l. nr. 4 frá 1973, fullnægi því hlutverki, sem honum er þar ætlað?“