19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

410. mál, starfsemi Viðlagasjóðs

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, að svo miklu leyti sem hann taldi sig geta gefið svör við fsp. mínum. Ég hlýt að harma það, að horfur eru á, að tekjustofnar sjóðsins, sem honum voru fengnir með lögum á síðasta ári, virðast ekki munu duga, og horfur eru á því, að þurfi að að framlengja ákveðna þætti þeirra, til þess að hlutverki viðlagasjóðs verði fullnægt.

Um ýmsa þætti þessara mála komu harla litlar upplýsingar fram hjá hæstv. ráðh., t.d. hvað ríkisstj. hyggst fyrir í sambandi við söluskatt og innflutning tolla af húsum og öðrum tækjum til Viðlagasjóðs, hvort það sé meining ríkisstj. að halda því til streitu, að innflutningsgjöld og tollar af þessum innflutningi falli til ríkisins, og hvort það sé réttmætt, að þær neyðarráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að mæta eyðileggingunni í Vestmannaeyjum verði til þess, að ríkissjóður hagnist þannig á þeirri starfsemi, sem Viðlagasjóður þarf að inna af hendi. Hefði ég óskað eftir, að hæstv. ráðh. gæfi upplýsingar um þetta.

Ég vil trúa því, þangað til annað kemur í ljós, að þessi innflutningsgjöld og söluskattur verði felld niður. Ég vil í því sambandi minnast á það, að frá því var greint í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir fáum kvöldum, að ákveðið hefði verið að flytja hingað til landsins svokallaðan dýraspítala og ríkisstj. hefði séð ástæðu til að gefa eftir söluskatt og innflutningstolla af þeim innflutningi. Ég hygg, að a.m.k. hefði ýmsum mönnum sýnst meiri ástæða til að gefa eftir í sambandi við þá starfsemi, sem fram hefur farið í Vestmannaeyjum.

Einnig kom það mjög ógjörla fram hjá hæstv. ráðh., hvað áætlað er, að miklar bætur yrði að greiða í sambandi við það tjón, sem varð í Vestmannaeyjum, t.d. í sambandi við tjón á íbúðarhúsum, tjón á fyrirtækjum og lausum eignum, þ. á m. innbúi fólks og bifreiðum. Ég hygg þó, að það ætti að hafa komið í ljós nú þegar við þá starfsemi, sem Viðlagasjóður hefur rekið til þessa, hvað ætla mætti, að þessar fjárhæðir muni nema miklu.

Í þriðja lagi gaf hæstv. ráðh. í skyn, að svo kynni að fara, að um það leyti sem Viðlagasjóður lyki sinni starfsemi, sæti hann uppi með miklar eignir, og teldi ég, að sinna þyrfti þeim þætti málsins á þann veg, að unnt yrði að koma eignum hans í verð, áður en starfsemi sjóðsins lýkur.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar að þessu sinni. Ég óska eftir því, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. láti frá sér fara skriflega grg. um þetta mál, vegna þess, eins og ráðh. raunar gat um, að það er ákaflega erfitt að átta sig á þeim talnalestri, sem hann flutti og fluttur kann að verða munnlega um þetta efni. Og ég vænti þess, að hann sjái til þess, að um það leyti, sem talin kann að verða þörf á því að framlengja einhverja þætti af tekjustofnum sjóðsins, þá verði gerð skrifleg skýrsla um þessi efni og henni útbýtt og eins þegar starfsemi Viðlagasjóðs lýkur.