19.02.1974
Sameinað þing: 57. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 2274 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

413. mál, skipulagning björgunarmála

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur lesið þá þál., sem hér er um að ræða. Með bréfum, dags. 26. sept. 1972, var óskað eftir tilnefningu fulltrúa í n. og skipaður fornnaður í nefndina Ólafur Walter Stefánsson skrifstofustjóri dómsmrn. Að fengnum tilnefningum var nefndin skipuð 1. des. 1972, og eiga sæti í henni auk formanns eftirtaldir menn:

Benedikt Guðmundsson, stýrimaður, tilnefndur af Landhelgisgæslunni, Bjarki Elíasson yfirlögreglu þjónn, tilnefndur af lögreglustjóranum í Reykjavík, Guðjón Petersen fulltrúi, tilnefndur af Almannavörnum ríkisins, Leifur Magnússon varaflugmálastjóri tilnefndur af Flugmálastjórn, Ólafur Proppé kennari, tilnefndur af Landssambandi hjálparsveita skáta, Ragnar Þorsteinsson bankamaður, tilnefndur af Slysavarnafélagi Íslands, Sigurður M. Þorsteinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn, tilnefndur af flugbjörgunarsveitum.

Af störfum nefndarinnar er það að segja, að hún hefur enn ekki lokið störfum né skilað áliti. Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar hefur hún haldið nokkra fundi, en hlé hefur verið á fundum nefndarinnar nú um skeið. Hef ég óskað þess, að n. hraði störfum sínum, þannig að niðurstöður geti legið fyrir, áður en langt um líður.

Það er rétt, eins og hv. fyrirspyrjandi rakti, að þessa þál., sem gerð var 18, maí 1972, má rekja til ráðstefnu, sem haldin var um björgunarmál að tilhlutan Landssambands hjálparsveita skáta, og á þessari ráðstefnu var fjallað allítarlega og skiplega um björgunarmál almennt, svo og sér skipulega um björgunarmál almennt, svo og sér þriggja flokka slysa: flugslysa, landslysa og sjóslysa, og var talið nauðsynlegt að skipuleggja björgunarmál landsins betur með tilliti til aukins árangurs og samvinnu allra aðila, er um málið fjalla.

Þess er skylt að geta í þessu sambandi, að björgunarstarfsemi hér á landi hefur frá upphafi byggst á hjálpsemi samborgaranna, óskipulagðri eða skipulagðri. Með tímanum hafa þeir, sem að björgunarstörfum hafa unnið eða hafa haft áhuga á slíku starfi, stofnað með sér félög til að ná meiri árangri. Þessir hópar hafa síðan myndað heildarsamtök, eins og t.d. Slysavarnafélag Íslands á sínum tíma, Landssamband hjálparsveita skáta, flugbjörgunarsveitirnar, þótt þar sé reyndar ekki um eins skipuleg samtök að ræða. Þessir hópar eru og hafa ætíð verið reiðubúnir til starfa og hafa unnið ómetanlegt starf við björgun mannslífa og eigna, og gildir það einnig um aðra hópa, sem standa utan þessara þriggja samtaka, sem ég nefndi. Störf þessara áhugamanna verða aldrei fullþökkuð.

Þótt björgunarstarfsemin hafi, eins og ég sagði, hvílt að allverulegu leyti á herðum áhugamanna, hafa opinberir aðilar lögum samkvæmt eða eðli málsins margvíslegu forustuhlutverki að gegna, eftir því, um hvers konar björgun er að tefla, og nefni ég þar fyrst Landhelgisgæslu, lögregluyfirvöld og Flugmálastjórn, auk Almannavarna við sénstakar aðstæður í þjóðfélaginu. Starfa þessir opinberu aðilar í ýmsum tilvikum saman, en jafnframt í nánu samstarfi og samvinnu við björgunarsveitirnar, og án góðrar samvinnu við þær væru hinir opinberu aðilar oft og einatt vanmáttugir, þar sem skortir að mörgu leyti mannafla og búnað við þær aðstæður, sem upp koma við björgun og leit. Samstarf allra þessara aðila er því mjög brýnt, og hefur komið fram, að það væri þörf á því að reyna að koma einhverju heildarskipulagi á þessi mál. Þar koma margvísleg atriði til greina, svo sem forustuhlutverk hinna opinberu aðila, stjórn aðgerða, samstarf aðila, sem að aðgerðunum standa, samskipti við aðra aðila, sem látið geta aðstoð í té.

Ég held, að þó að þetta sé nauðsynlegt, verði samt mjög að gæta þess í allri skipulagningu varðandi þessi mál, að samstarf allra aðila, bæði opinberra aðila og áhugamanna, sem að þessum málum vinna, verði sem best, og umfram allt, að ekki sé neitt það gert, sem gæti dregið úr því, að starfsgleði og félagsandi þessara frjálsu áhugamannasamtaka geti notið sín. En ég vil vona, að árangur af starfi þessarar nefndar geti legið fyrir sem allra fyrst.